Skip to main content
10. mars 2020

Tilkynning frá rektor til allra nemenda og starfsfólks

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands hefur sent meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda:

„Neyðarstjórn Háskóla Íslands fundar nú daglega til að leggja á ráðin um viðbúnað vegna COVID19-faraldursins. Á fundi neyðarstjórnar í morgun var ákveðið að senda eftirfarandi ábendingar til nemenda og starfsfólks:
 
Neyðarstig almannavarna
•         Eins og kunnugt er hefur Ríkislögreglustjóri lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis. 
•         Nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands eru minntir á mikilvægi þess að fylgja leiðbeiningum sóttvarnalæknis, nýjustu upplýsingar er ávallt að finna á vef Landlæknisembættisins
•         Jafnframt hefur verið settur rauðlitaður hlekkur („COVID-19“) á forsíðu háskólavefsins þar sem er að finna viðbragðsáætlun Háskóla Íslands, vísun til nýjustu upplýsinga frá embætti Landlæknis og aðrar hagnýtar upplýsingar. Þessi síða verður uppfærð eftir þörfum.

Viðbragðsáætlun Háskóla Íslands vegna Covid-19 faraldurs 2020

Hreinlæti/þrif
•         Fyrst og síðast er handþvottur mikilvægasta sýkingavörnin sbr. leiðbeiningar Landlæknisembættisins og Vísindavefs Háskóla Íslands
•         Settur hefur verið upp búnaður fyrir handhreinsun í byggingum Háskólans og er starfsfólk og stúdentar hvatt til að nýta sér hann. Kennurum er bent á að þrífa hendur fyrir og eftir kennslustundir. 
•         Í undirbúningi er að setja upp blautþurrkur í kennslustofum til að þrífa yfirborðsfleti, lyklaborð og tölvumýs. 
•         Jafnframt hefur verið lögð aukin áhersla á þrif í byggingum. 

Hættusvæði/ferðalög
•         Starfsfólk og nemendur eru beðnir sérstaklega að fylgjast vel með nýjustu upplýsingum um þau landsvæði sem skilgreind eru sem hættusvæði. Fólk ætti að takmarka ferðir sínar á þessi svæði en ef ekki verður hjá því komist, þarf fólk að fara í sóttkví skv. leiðbeiningum sóttvarnalæknis og Landlæknis.
•         Háskóli Íslands er í miklum alþjóðlegum tengslum og fjöldi fólks á ferðalögum á hverjum tíma. Sé fólk í vafa um hvort halda skuli í ferðalög, þótt ekki sé um skilgreind hættusvæði að ræða, er tryggt að það muni ekki verða fyrir fjárhagslegu tjóni.

Einkenni/veikindi
•         Áríðandi er að þeir sem finna fyrir sjúkdómseinkennum eða hafa mögulega verið útsettir fyrir smiti, t.d. vegna ferðalaga, hringi í síma 1700 og fái leiðbeiningar. Þeir sem finna fyrir einkennum haldi sig heima og komi alls ekki veikir í skólann.
•         Því er beint til yfirmanna að sýna sveigjanleika varðandi framvísun læknisvottorða ef starfsfólk eða nemendur telja sig hafa ástæðu til að vera fjarri vinnustað eða sinna ekki starfi eða námi.

Viðkvæmir hópar
•         Þeir sem teljast til viðkvæmra hópa, s.s. þungaðar konur, eldri einstaklingar og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma á borð við hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, lungnasjúkdóma eða eru ónæmisbældir, ættu að vinna heima, forðast mannamót að óþörfu og huga vel að hreinlæti.
•         Gáið hvert að öðru, hvetjið fólk til að fara heim ef það virðist veikt og hugið sérstaklega að fólki sem ekki hefur neitt tengslanet á Íslandi.

Samkomur/viðburðir
•         Hvatt er til þess að dregið verði úr opnum og fjölmennum viðburðum á vegum Háskólans og innan eininga hans þrátt fyrir að samkomubanni hafi ekki verið lýst yfir. 

Nám og kennsla
•         Kappkostað verður að sýna nemendum allan þann sveigjanleika sem skólinn getur veitt miðað við aðstæður. Sérstaklega verður leitast við að koma til móts við þá nemendur sem sæta sóttkví. 
•         Komi til þess að gefin verði fyrirmæli um samkomubann eða skólanum verður lokað verður kappkostað að kennsla við skólann haldi áfram í formi fjarkennslu svo að nám riðlist sem minnst Verkleg kennsla mun falla niður tímabundið.
•         Kennarar eru hvattir til að kynna sér nú þegar þá fjarkennslumöguleika sem í boði eru. Nánari upplýsingar og leiðbeiningar á innri vef skólans.
•         Kennarar geta fengið aðstoð við rafræna kennsluhætti og fjarnám hjá tengiliðum sinna fræðasviða eða hjá kennslusviði, eins og lesa má um á innri vef skólans
•         Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið setberg@hi.is með beiðni um aðstoð varðandi rafræna kennsluhætti.

Þjónusta
•         Í undirbúningi eru aðgerðir til að tryggja að haldið verði uppi þjónustu við nemendur og starfsfólk komi til samkomubanns eða lokunar skólans. 
•         Til draga úr umgengni og létta álagi af starfsfólki í stjórnsýslu, s.s. á þjónustuborðum eða í Náms- og starfsráðgjöf, er fólk hvatt til að nýta sér netspjall og aðrar rafrænar samskiptaleiðir. 

Nánari upplýsingar
•         Forsetar fræðasviða miðla upplýsingum til nemenda og starfsfólks sviðanna um sértækar aðgerðir sem varða tiltekna hópa sérstaklega, s.s. nemendur í klínísku námi.
•         Ábendingar og spurningar til neyðarstjórnar berist á netfangið neydarstjorn@hi.is
 

Aðalbygging Háskóla Íslands