Stór hópur steypireyða kemur árvisst í Skjálfandaflóa

Við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík er unnið að langtíma auðkennisrannsókn á steypireyðum. Steypireyðurin er ekki bara stærst allra hvala, hún er langstærsta dýr jarðarinnar. Ekkert dýr sem hefur lifað á jörðinni hefur reynst henni stærri, t.d. er steypireyðurin stærri en risaeðlurnar voru á sínum tíma.
Fullvaxin steypireyður getur orðið 30 metra löng og vegið allt að 190 tonn. „Þessi gríðarlega þyngd er aðeins möguleg hjá skepnum sem lifa í vatni eða sjó þar sem þær eru þyngdarlausar í slíku umhverfi,“ segir á Vísindavef Háskóla Íslands.
Vísindakonan Marianne Rasmussen veitir rannsóknasetri HÍ á Húsavík forstöðu en þar hafa verið stundaðar rannsóknir á sjávarspendýrum um árabil. „Við tökum ljósmyndir af öllum steypireyðum sem koma inn á Skjálfanda,“ segir Marianne aðspurð um þessa áhugaverðu rannsókn.
„Við eigum nú myndir af þeim 148 hvölum sem hafa komið á Skjálfandaflóa. Þetta er mikill fjöldi því stofninn telur einungis þúsund dýr í öllu Norðaustur-Atlantshafi. Þetta þýðir að fimmtán prósent þeirra koma hingað í Skjálfandaflóa.“
Marianne segir að nemendur taki virkan þátt í rannsókninni með því að mynda dýr og mörgum þeirra séu jafnvel gefin nöfn. „Einn hvalanna er til dæmis kallaður Eldfjall því bakugginn er í laginu eins og eldfjall,“ segir Marianne og brosir.
„Við eigum nú myndir af þeim 148 hvölum sem hafa komið á Skjálfandaflóa. Þetta er mikill fjöldi því stofninn telur einungis þúsund dýr í öllu Norðaustur-Atlantshafi. Þetta þýðir að fimmtán prósent þeirra koma hingað í Skjálfandaflóa,“ segir Marianne Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík.

Blendingshvalurinn kom ekki í sumar
Steypireyðurin kemur árvisst að landinu í júní en í sumar voru færri dýr á ferðinni en oft áður á Skjálfanda að sögn Marianne. Til dæmis sást ekki til blendingshvals sem hefur verið á flóanum undanfarin sumur en hann er blendingur af steypireyði og langreyði. Blendingurinn sást í fyrsta sinn við Ísland árið 2007 og hefur komið til fæðuleitar í Skjálfandaflóa í sjö sumur í heildina að sögn Marianne.
„Við vitum ekki hvers vegna þetta tiltekna dýr kom ekki í sumar,“ segir Marianne og bætir því við að vísindamenn viti enn sem komið er býsna lítið um far steypireyðarinnar. „Við vitum um eitt tilfelli þar sem steypireyður sást hér í júní og við Svalbarða í júlí. Þetta er í raun eina þekkta tilfellið sem við þekkjum af fari steypireyðanna, annars vitum við ekkert hvert þær fara.“
Marianne segir að mennirnir viti í raun minna um hvali en mjög margt annað í veröldinni. „Við eigum eftir að uppgötva svo margt sem tengist steypireyðinni og öðrum hvölum. Það óþekkta er auðvitað afar spennandi fyrir vísindafólk.“
Fullvaxin steypireyður getur orðið 30 metra löng og vegið allt að 190 tonn. „Þessi gríðarlega þyngd er aðeins möguleg hjá skepnum sem lifa í vatni eða sjó þar sem þær eru þyngdarlausar í slíku umhverfi,“ segir á Vísindavef Háskóla Íslands.