Samráð um stjórnarskrá | Háskóli Íslands Skip to main content
30. september 2019

Samráð um stjórnarskrá

Stjórnarskrá Íslands verður endurskoðuð á þessu kjörtímabili í samstarfi allra flokka á þingi, samkvæmt áætlun forsætisráðherra, í víðtæku almenningssamráði. Öndvegisverkefnið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð, sem nýtur styrks frá Rannís, og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands halda utan um rökræðukönnun, sem hluta almenningssamráðsins og auk þess stendur Öndvegisverkefnið fyrir opnu samráði á vef í samstarfi við Íbúa – Samráðslýðræði ses.

Samráðið byggir á þeim skýra vilja almennings sem hefur verið áberandi síðustu 11 ár – frá hruni – að almennir borgarar eigi að koma meira að stefnumótun samfélagsins. Háskólinn og Íbúar vilja leggja sitt af mörkum til að þetta nýja ferli sé bæði áhrifamikið og trúverðugt og gefi öllum færi á að láta sína rödd heyrast, enda hafa stjórnvöld skuldbundið sig til að hlusta á almenning í þessari nýju atrennu að endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Rökræðukönnun er aðferð til að dýpka rannsókn á viðhorfum almennings frá því sem hefðbundin skoðanakönnun býður upp á. Þátttakendur í skoðanakönnun eru því ekki lausir eftir að hafa svarað spurningum, heldur býðst þeim að taka þátt í umræðufundi þar sem fjallað er nánar um viðfangsefni skoðanakönnunarinnar. Að umræðufundi loknum er gerð ný könnun sem bera má saman við upphaflega skoðanakönnun. Þá kemur iðulega í ljós að viðhorf fólks breytast þegar það fær tækifæri til að kynna sér mál og ræða þau við aðra, ekki síst þá sem hafa ólíkar skoðanir. Slíkar breytingar eru það sem rökræðukönnun beinir sjónum að.

Félagsvísindastofnun lauk fyrri hluta rökræðukönnunar, skoðanakönnun, í sumar. Seinni hluti hennar, umræðufundurinn, verður haldinn 9.-10. nóvember, með þátttöku um 300 einstaklinga af öllu landinu.

Öndvegisverkefnið og Íbúar – Samráðslýðræði ses. hafa til viðbótar við rökræðukönnun hannað vettvang á vefnum Betra Ísland sem gefur kost á opnu samráði um þau atriði í stjórnarskrá sem ætlunin er að breyta á þessu kjörtímabili. Flest bendir til að Íslendingar séu meira sammála en ósammála um flest sem þarf að endurskoða en það þarf að rökræða margt og finna hugmyndir að bestu útfærslum. Samráðsvettvangurinn er hannaður með það fyrir augum að auðvelt sé að setja fram og styðja skýrar og greinargóðar röksemdir. Þannig drögum við fram innsæi og þekkingu almennings en minnkum hættu á innihaldslausu þrasi og eineltistilburðum. Betra Ísland býr að margra ára reynslu af utanumhaldi lýðræðislegra umræðna og hefur hannað hugbúnað sem styður við yfirvegaða og innihaldsríka umræðu. Öndvegisverkefnið veitir bæði ráðgjöf við utanumhald umræðnanna og greiningu á niðurstöðum þeirra.

Jón Ólafsson, prófessor og forsvarsmaður öndvegisverkefnisins segir að mörgum hafi gramist hvernig vinna Stjórnlagaráðs rann út í sandinn í meðförum Alþingis sem greiddi aldrei atkvæði um frumvarp ráðsins. „Lítill vafi er hins vegar á því að sú vinna og almenna umræða sem þá fór fram hefur mótað skilning þjóðarinnar á mikilvægustu stjórnarskrárbreytingum. Ekkert af því sem tekist er á við í þessu ferli stríðir gegn tillögum Stjórnlagaráðs og umræða um þessi mál er ennþá undir sterkum áhrifum af vinnu ráðsins,“ segir Jón.

Í minnisblaði forsætisráðherra sem lagt var fram í janúar 2018 er endurskoðun stjórnarskrárinnar skipt í tvennt. Á þessu kjörtímabili er tekist á við sjö þætti: Forsetaembættið, náttúruauðlindir og umhverfi, ákvæði um breytingar á stjórnarskránni, framsal valds vegna alþjóðasamvinnu, þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði, kjördæmaskipan og atkvæðavægi og loks Landsdóm. Öll þessi atriði eru til umræðu á samráðsvefnum Betra Ísland.

Slóð á samráðsvefinn.

Niðurstöður skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar um breytingar á stjórnarskrá.

Jón Ólafsson, prófessor og forsvarsmaður öndvegisverkefnisins Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð