Skip to main content
23. janúar 2023

Ræddu um þróun rafræns stöðumats í íslensku fyrir innflytjendur

Ræddu um þróun rafræns stöðumats í íslensku fyrir innflytjendur - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra heimsótti Háskóla Íslands á dögunum og ræddi við fulltrúa Hugvísindasviðs HÍ og af rektorsskrifstofu um þróun rafræns hæfnimiðaðs stöðumats í íslensku sem öðru máli til þess að styðja við aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi og atvinnulífi.  

Samkvæmt þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem samþykkt var á síðasta ári er lagt til að slíkt stöðumat í íslensku verði þróað á næstunni. Samhliða þessu á að þróa rafrænt stuðningsefni til að efla grunnhæfni í íslensku sem öðru máli, sérstaklega tengt neðri þrepum evrópska tungumálarammans, sem standi öllum til boða á netinu.

Á umræddum fundi var rætt um möguleika sérfræðinga í annarsmálsfræðum og máltækni við Hugvísindasvið á að þróa slíkt stöðumat en hvergi annars staðar er jafn mikilli þekkingu og reynslu til að dreifa á málaflokknum. 

„Stöðumat á íslenskukunnáttu innflytjenda er mikið hagsmunamál fyrir íslenskt samfélag og réttlætismál fyrir innflytjendur. Rafrænt hæfnimiðað stöðumat sem byggist á Evrópska tungumálarammanum getur einfaldað mat á íslenskukunnáttu, hvort tveggja fyrir innflytjendur og fagaðila sem framkvæma matið. Í ljósi þeirra miklu breytinga sem átt hafa sér stað með auknum fjölda innflytjenda hér á landi er þörfin fyrir stöðluð stöðupróf í íslensku brýn. Hæfnimiðað stöðumat er mikilvægt, ekki einvörðungu fyrir Háskóla Íslands heldur einnig fyrir aðrar menntastofnanir, íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag almennt. Flest próf, námskeið og kennsluefni í öðru máli í Evrópu eru nú tengd við Evrópska tungumálarammann,“ segir Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs. 

Ólöf sat fundinn með ráðherra fyrir hönd HÍ ásamt þeim Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, Eyjólfi Má Sigurðssyni, deildarstjóra Tungumálamiðstöðvar HÍ, Sigríði Þorvaldsdóttur, aðjunkt í íslensku sem öðru máli, Gísla Hvanndal Ólafssyni, verkefnisstjóra kennslu í íslensku sem öðru máli, og Sæunni Stefánsdóttur, sérfræðingi á rektorsskrifstofu. Auk ráðherra komu frá ráðuneytinu þau Erna K. Blöndal ráðuneytisstjóri, Þorsteinn Hjartarson, skrifstofustjóri á skrifstofu stefnumótunar, og innleiðingar, og Óttar Proppé, verkefnisstjóri á sömu skrifstofu.

Frá fundinum í Háskóla Íslands