Skip to main content
5. september 2022

Ný kennslubók í skattarétti

Ný kennslubók í skattarétti - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nýlega kom út bókin „SKATTUR Á MENN“ eftir Ásmund G. Vilhjálmsson, lögmann og aðjunkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Í bókinni er fjallað almennt um skatta og skattskyldar tekjur svo og hvaða kostnað megi draga frá þeim. Þá er álagning opinberra gjalda á einstaklinga og fólk í hjónabandi einnig til umfjöllunar.

Bókin er fyrst og fremst hugsuð sem kennslubók fyrir þau sem eru að hefja nám í skattarétti í háskólum landsins. Að sögn höfundar getur hún þó einnig nýst sem handbók eða uppflettirit fyrir fólk sem þarf á upplýsingum að halda um sín persónulegu skattamál. „Þau sem starfa við framtalsgerð, svo sem endurskoðendur og viðurkenndir bókarar, munu þó vafalaust hafa hvað mest not af bókinni,“ segir Ásmundur og bætir við að í henni sé m.a. að finna fjölda dóma og úrskurða skattayfirvalda sem eru sérstaklega valdir til að auðvelda notendum að finna lausn á sínum vandamálum.

Ásmundur hefur um árabil kennt skattarétt við Viðskiptafræðideild. Einnig hefur hann haldið fjölda námskeið um skattaréttarleg álitaefni, einkum á vegum Endurmenntunar HÍ. Þá er Ásmundur höfundur nokkurra rita um skattarétt svo sem; „Skattur á fyrirtæki“, „EES-samningurinn og íslenskur skattaréttur“ og „Íslenskur alþjóðlegur skattaréttur“ og er unnt er að finna nánari upplýsingar um efni þeirra á heimasíðunni: skattvis.is

Bókin SKATTUR Á MENN er gefin út af Skattvís slf. skattraráðgjöf og fræðsla og er hægt að panta hana á netfanginu agv@skattvis.is. Einnig er bókin til sölu í Bókhlöðu stúdenta.

Ásmundur og kápa bókarinnar.