Skip to main content
22. júní 2023

Efnafræði og nanóvísindi á stórri ráðstefnu í Hörpu

Efnafræði og nanóvísindi á stórri ráðstefnu í Hörpu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Von er á 500 fræðimönnum á sviði efnafræði á ráðstefnu á vegum vísindafólks við HÍ sem helguð er efnafræði fjölhringja og millisameinda (e. Macrocyclic and Supramolecular Chemistry) og nanóvísindum. Meðal fyrirlesara eru Nóbelsverðlaunahafi í efnafræði og íslenskur vísindamaður sem vann m.a. að þróun bóluefnis gegn COVID-19 hjá bandaríska lyfjafyrirtækinu Moderna.

Ráðstefnan ber heitið „International Symposium on Macrocyclic and Supramolecular Chemistry (ISMSC–2023)“ og er nú haldin í sjöunda sinn. Ráðstefnan fer fram dagana 25.-29. júní í Hörpu og þar verður boðið upp á fjölbreyttar málstofur og erindi á sviði efnafræði, efnisfræða og nanóvísinda.

Háskóli Íslands er meðal aðstandenda ráðstefnunnar en undirbúningsnefnd hennar er skipuð þremur vísindamönnum, þeim Krishna Kumar Damodaran, prófessor í efnafræði við Raunvísindadeild HÍ, Páli Þórðarsyni, prófessor í efnafræði við University of New South Wales (UNSW) og forstjóra UNSW RNA Institute Sydney í Ástralíu, og Þorfinni Gunnlaugssyni, prófessor við Efnafræðideild Trinity College í Dublin á Írlandi.

Áhugasömum býðst að skrá sig sérstaklega á fyrsta dag ráðstefnunnar, 25. júní, en þar verður boðið upp á alls 10 fyrirlestra, m.a. frá Erni Almarssyni, efnafræðingi og fyrverandi yfirmanni hjá lyfjafyrirtækinu Moderna sem kom að því að þróa bóluefni fyrirtækisins gegn COVID-19, og Sir Fraser Stoddart, prófessor við Northwestern University í Bandaríkjunum, sem var einn þeirra sem hlutu Nóbelsverðlaunin í efnafræði árið 2016 fyrir hönnun og efnasmíði svokallaðra sameindatækja (e. molecular machines) sem eru litlar vélar úr sameindum sem vinna verk með aðstoð utanaðkomandi orku. Skráning fyrir þann dag fer fram á vef ráðstefnunnar.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna hér.
 

Logo ráðstefnunnar