Austur-Asíufræði


Austur-Asíufræði
Aukagrein – 60 einingar
Austur-Asíufræði er þverfagleg fræðileg námsgrein sem býður upp á margvísleg námskeið um svæði Austur-Asíu, þá einkum Kína og Japan. Hún hentar þeim sem hyggjast kynna sér nánar samfélög og menningu Austur-Asíu án þess að vilja leggja stund á tungumálanám.
Skipulag náms
- Haust
- Kína nútímans: Samfélag, stjórnmál og efnahagur
- Japanskt þjóðfélag og menning I
- Japanskt þjóðfélag og menning II
- Japanskar nútímabókmenntirV
- Japanskar kvikmyndirVE
- Kínversk stjórnmálV
- Vor
- Japönsk saga
- Saga Kína II: frá Qing-veldinu til nútímansB
- Nútímasaga Austur-AsíuV
Kína nútímans: Samfélag, stjórnmál og efnahagur (KÍN101G)
KENNT Í FJARKENNSLU HAUST 2023 (sérstök nemendaviðtöl með kennara til að efla betri kynni)
Um er að ræða yfirlitsnámskeið um helstu áhrifaþætti innan kínversks samfélags og efnahags með áherslu á afleiðingar opnunarstefnunnar eftir 1978. Farið verður yfir landfræðilegar aðstæður, þ. á m. helstu borgir, fylkjaskipan, nágrannalönd, landræktarsvæði, ár og fjallgarða. Veitt verður yfirlit yfir efnahagsþróun undanfarinna áratuga, helstu vandamál Kína nútímans, þ. á m. orkuskort, umhverfisvandamál, lýðfræði, alþjóðatengsl og stjórnmál. Einnig verður vikið að stöðu fjölskyldunnar og kvenna, mannréttindi og umhverfismál. Hong Kong og Tævan eru einnig sértstaklega til umfjöllunar. Til að skerpa á skilningi nemenda á Kína samtímans verður horft á klippur úr nýlegum kínverskum heimildamyndum sem taka á ýmsum þáttum hinna miklu umbreytinga sem orðið hafa á kínversku samfélaginu undanfarna áratugi.
Japanskt þjóðfélag og menning I (JAP105G)
Markmið þessa námskeiðs er að gefa nemendum innsýn inn í daglegt líf fyrr og nú í Japan. Aðaláherslan mun verða á þjóðfræði, trúarbrögð og hefðir, samspili þessara þátta og hvernig þeir birtast í nútíma menningu Japan.
Japanskt þjóðfélag og menning II (JAP106G)
Markmið þessa námskeiðs er að kynna fyrir nemendum daglegt líf í Japan samtímans. Rætt verður um ýmsar hliðar japansks þjóðfélags út frá samfélagsskipan, menntakerfi, stjórnmálum, efnahagslífi og nútímamenningu. Fyrirlestrar skiptast niður á kennara eftir sérsviðum.
Japanskar nútímabókmenntir (JAP305G)
Nemendum eru kynntar stefnur og straumar í japönskum nútímabókmenntum, þar sem einkum er horft á þróun skáldskapar. Lesefni námskeiðsins eru þýðingar á ensku á smásögum og köflum úr stærri verkum frá Meiji tímabilinu til dagsins í dag. Áhersla er lögð á 20. öldina. Í tímum verða haldnir kynningarfyrirlestrar á lesefni og umræður um valda texta fara fram í kjölfarið.
Japanskar kvikmyndir (JAP107G)
Fjallað er um japanskar kvikmyndir frá upphafi til þessa dags með aðaláherslu á klassíska tímabilið 1950-70 og höfundum eins og Kurosawa, Ozu, Mizoguchi og fleiri. Myndirnar eru rannsakaðar og greindar og athugað hvernig japönsk menning, saga og þjóðfélag endurspeglast í þeim.
Skoðaðar verða myndir eftir fyrrnefndra leikstjóra og einnig nýrri verk.
Kennt er á ensku.
Kínversk stjórnmál (KÍN208G)
Til að byrja með verður hefðbundið stjórnmálakerfi keisaratímans skoðað með hliðsjón við nútímann, jafnframt verður stjórnmálaþróun í 75 ára sögu Alþýðulýðveldisins rakin. Fjallað verður ítarlega um Kommúnistaflokkinn og hlutverk hans í stjórnkerfinu. Uppbygging stjórnkerfisins verður rakin og samspil stjórnsýslu og flokks. Einnig verður fjallað um stjórnsýsluna á lægri stjórnsýslustigum og á jaðarsvæðum ríkisins í Tíbet, Xinjiang og Hong Kong. Farið verður yfir Alþjóðamál Kína og tengsl við innanlandspólitík. Efnahagsstefnan verður tekin fyrir og tengsl stjórnmála og efnahagskerfisins. Viðfangsefni dagsins í dag verða líka skoðuð, t.d. áhrif veraldarvefsins, umhverfismál, covid-stefnan sem tekin var upp í Kína og staða núverandi forseta landsins.
Japönsk saga (JAP208G)
Yfirlits námskeið þar sem fjallað verður um sögu Japans frá forsögulegum tíma til samtímans. Saga Japans er mikið og stórt verkefni og því verður stiklað á stóru í þessu yfirlitsnámskeiði, en lögð verður áhersla á að nemendur öðlist skilning á þeim samfélagslegu þáttum sem hafa átt sinn þátt í að móta það menningarlega umhverfi sem fyrirfinnst í Japan nútímans. Fyrirlestrar nemenda munu skipa veigamikinn sess í tímum og nemendur hjálpast að við undirbúning á samantekt efnis til undirbúnings fyrir próf. Í rannsóknarverkefni munu nemendur fá tækifæri til að kynna sér ítarlegar sjálfvalið efni innan sögulega rammans.
Saga Kína II: frá Qing-veldinu til nútímans (KÍN108G, SAG336GKÍN102G)
Kennari: Amy Matthewson, SOAS Univeristy of London
Námskeiðið fjallar um sögu kínversku þjóðarinnar frá og með seinni hluta Qing-veldisins (1644-1912) og grennslast fyrir um þau innri og ytri öfl sem hafa haft veigamikil áhrif á stöðu Kína í alþjóðasamfélaginu. Tekin verða til rannsóknar þau sögulegu ferli í Kína sem leiddu til þróunar nútímaríkisins og hugað að gagnvirkum áhrifum þeirra á framvindu alþjóðamála. Í námskeiðinu er hafist handa við að veita stutt yfirlit yfir stofnun síðasta keisaraveldis Kína, Qing-veldisins. Síðan er vikið að veigamiklum breytum í sögu þjóðarinnar, t.d. heimsvaldastefnu, uppreisnum og byltingu í Kína, sem öll höfðu mikil áhrif á samskipti Kínverja við önnur ríki. Að því loknu verður fjallað um stofnun Alþýðulýðveldisins Kína, flótta stjórnar Þjóðernissinna til Taívan, stefnumál Mao Zedong, menningarbyltinguna og opnunarstefnuna. Námskeiðið er kennt á ensku og í fjarfundarbúnaði.
Nútímasaga Austur-Asíu (JAP412G, JAP413G)
Asía er stærst heimsálfanna og þar búa u.þ.b. tveir af hverjum þremur jarðarbúum. Asía hefur einnig í auknum mæli fest sig í sessi sem þungamiðja í efnahagslegum skilningi þar sem Kína, Japan og Indland eiga öll sæti á listanum yfir fimm stærstu efnahagveldi heims. Á sama tíma ríkir vaxandi spenna í álfunni sem m.a. skýrist af vígbúnaðarkapphlaupi kjarnorkuríkjanna, fjölda landamæradeilna, undiröldu þjóðernishyggju, eigna- og tekjuójöfnuði, sem og yfirvofandi umhverfis- og loftslagsvanda á stórum svæðum. Markmið námskeiðsins er að gefa nemendum breiða sýn á sameiginlega sögu og samskipti ríkjanna í Austur-Asíu frá miðri 19. öld til dagsins í dag. Megináhersla verður lögð á Japan, Kína og Suður-Kóreu.
Á námskeiðinu verður farið yfir: kynningu á löndum, menningarsvæðum og öðrum svæðaskiptingum innan Asíu, nýlenduvæðingu og sjálfstæðisbaráttu, heimsstyrjaldirnar og kalda stríðið í Austur-Asíu, hlutverk Bandaríkjanna í álfunni, alþjóða- og svæðasamstarf (ASEAN, APEC, ADB), aukið vægi Kína og Indlands. Á námskeiðinu verður einnig farið yfir ýmis brýn mál í samtímanum allt frá „soft power“ stefnu til norðurslóðaáherslu Austur-Asíuríkjanna.
Hafðu samband
Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2
Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.
Fylgstu með Hugvísindasviði:

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.