
Viðskiptafræði
180 einingar - BS gráða
Í viðskiptafræði lærir þú allt það helsta um stofnun og rekstur fyrirtækja. Fjögur kjörsvið eru í boði en þau eru fjármál, markaðsfræði, reikningshald og stjórnun. Námið er góður undirbúningur fyrir atvinnulíf, framhaldsnám og rekstur heimilis.
BS námið er þriggja ára, 180 eininga nám sem lýkur með lokaritgerð.

Til að hefja BS nám við Viðskiptafræðideild, skal nemandi hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi að mati deildarinnar. Lokapróf af frumgreinasviði Háskólans í Reykjavík og stúdentspróf að lokinni viðskiptabraut og viðbótarnámi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla, teljast sambærileg stúdentsprófi og nægja til inntöku í BS nám í deildinni. Lokapróf frá frumgreinadeild Keilis (háskólabrú) nægir til inngöngu í Viðskiptafræðideild HÍ til jafns við stúdentspróf, enda hafi viðkomandi lokið námi við viðskipta- og hagfræðideild háskólabrúar. Æskilegur undirbúningur er minnst 15 einingar (25 fein*) í ensku og íslensku og að minnsta kosti 12 einingar (20 fein*) í stærðfræði. * Samkvæmt nýjum lögum um framhaldsskóla. Að auki er æskilegt að nemendur búi yfir hæfni á: · 2. hæfniþrepi í stærðfræði. · 3. hæfniþrepi í íslensku. · 3. hæfniþrepi í ensku.