Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 7. mars 2019

03/2019

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2019, fimmtudaginn 7. mars var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Benedikt Traustason, Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Guðrún Geirsdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Ragna Árnadóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Siv Friðleifsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a) Drög að ársreikningi Háskóla Íslands 2018. Staða mála.

Inn á fundinn kom Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerði grein fyrir undirbúningi ársreiknings Háskóla Íslands 2018. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum ráðsmanna. Fram kom að rekstur Háskólans á liðnu ári var í jafnvægi. Ráðgert er að endanlegur ársreikningur geti legið fyrir á næsta fundi háskólaráðs.

Jenný Bára vék af fundi.

3. Starfsumhverfiskönnun 2018.
Inn á fundinn komu Andrea G. Dofradóttir, verkefnisstjóri, og Guðrún Margrét Eysteinsdóttir, starfandi sviðsstjóri starfsmannasviðs. Andrea gerði grein fyrir niðurstöðum nýlegrar starfsumhverfiskönnunar. Málið var rætt og svöruðu þær Andrea og Guðrún Margrét spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Andrea og Guðrún Margrét viku af fundi.

4. Málefni aldursgreiningar, sbr. fund ráðsins 10. janúar sl. Tillaga starfshóps.
Inn á fundinn kom Björn Atli Davíðsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors. Ingibjörg Gunnarsdóttir, varaforseti háskólaráðs og formaður starfshóps ráðsins, gerði grein fyrir málinu og niðurstöðu starfshópsins. Málið var rætt ítarlega. Að umræðu lokinni bar rektor upp svohljóðandi tillögu á grundvelli álits meirihluta starfshópsins:

„Háskólaráð felur rektor í samráði við Heilbrigðisvísindasvið að ganga frá samkomulagi við Útlendingastofnun um verksamning Háskóla Íslands og Útlendingastofnunar um klíníska munnholsskoðun og röntgenmyndatökur í samræmi við tillögu meirihluta starfshóps ráðsins. Samkomulagið gildi í eitt ár og verði tekið til endurskoðunar þremur mánuðum fyrir lok samningstímans. Fulltrúi stúdenta í starfshópnum stendur ekki að tillögunni og skilar hann séráliti þar um.“

– Samþykkt með tíu atkvæðum, en Benedikt Traustason, annar fulltrúa stúdenta, greiddi atkvæði á móti.

Jafnframt samþykkti ráðið eftirfarandi bókun með tíu atkvæðum, en Benedikt Traustason lagði fram sérstaka bókun:

„Í júní á síðasta ári var af hálfu Háskóla Íslands (HÍ) tekið til skoðunar hvernig haga skyldi samskiptum og fyrirkomulagi varðandi beiðnir Útlendingastofnunar (ÚTL) um aldursgreiningar út frá tönnum. Sett var af stað vinna að undirbúningi mögulegs samkomulags á milli ÚTL og HÍ um tiltekna þjónustu er varðar aldursgreiningu út frá tönnum, sem er eitt af þeim atriðum sem til skoðunar geta komið við mat Útlendingastofnunar á aldri viðkomandi einstaklings sem sótt hefur um alþjóðlega vernd á Íslandi eða dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Fyrir lá að um er að ræða viðkvæmt málefni og að nauðsynlegt væri að fara yfir og ákveða hvort ástæða væri til þess að Háskóli Íslands, f.h. Tannlæknadeildar, myndi gera samkomulag við Útlendingastofnun um aðkomu Tannlæknadeildar að slíkum aldursgreiningum. Í því efni var ljóst að gæta þyrfti að faglegum og siðferðilegum forsendum til að gera slíkar greiningar (klíníska munnholsskoðun og röntgenmyndatöku), áreiðanleika þeirra, að tryggt væri að viðtakandi niðurstaðna hefði öll tiltæk gögn til að taka upplýsta ákvörðun og að umsækjandi sem undirgengst slíka klíníska skoðun veiti upplýst og óþvingað samþykki.

Í október sl. lágu fyrir drög mögulegs verksamnings HÍ og ÚTL um tiltekna þjónustu Tannlæknadeildar HÍ varðandi aldursgreiningar einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi eða dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, ásamt  lýsingu á aðkomu og verklagi deildarinnar og varðveislu gagna, lýsingu á lagalegum grundvelli, hlutverki og framkvæmd Útlendingastofnunar og um fjárhagsleg samskipti. Leitað var umsagna vísindasiðanefndar háskólans og jafnréttisnefndar háskólaráðs um þessi gögn og bárust þær 20. nóvember sl.

Lýsti jafnréttisnefnd andstöðu við gerð samkomulags, en vísindasiðanefnd tók ekki afstöðu með eða á móti en benti m.a. á að slík læknisfræðileg próf sem einstaklingar gangast undir í tilefni af meðferð mála hjá stjórnsýslunni geti að mati nefndarinnar ekki talist vísindarannsóknir í skilningi vísindasiðareglna háskólans.

Fjallað var um drög mögulegs samkomulags og umsagnir nefndanna í stjórn Heilbrigðisvísindasviðs (HVS) 26. nóvember og 10. desember sl.  

Í ályktun stjórnar fræðasviðsins kemur fram að málefni þessa viðkvæma hóps, sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi, eru sérstaklega vandmeðfarin, en stjórnin beri fullt traust til starfandi sérfræðinga Tannlæknadeildar, um færni þeirra og aðferðafræði til að framkvæma slíkar aldursgreiningar út frá tannþroska og þess að veita Útlendingastofnun ráðgjöf um varfærna notkun niðurstaðna í heildrænu mati á umsækjendum. Hins vegar lítur stjórn sviðsins þannig á að sú pólitíska ákvörðun hvort aldursgreiningar út frá tannþroska skuli almennt framkvæmdar innan veggja Háskóla Íslands og hvort formlegur þjónustusamningur skuli gerður milli Útlendingastofnunar og Háskóla Íslands þar að lútandi liggi alfarið hjá rektor og háskólaráði. Hin faglega ákvörðun er hjá Tannlæknadeild.

Auk þessara gagna hafa komið fram ályktanir gegn mögulegu samkomulagi frá stúdentum Heilbrigðisvísindasviðs og ályktanir frá stúdentum og starfsmönnum Menntavísindasviðs, Hugvísindasviðs og Félagsvísindasviðs. Jafnframt hefur verið fjallað töluvert um efnið í fjölmiðlum og fyrirspurn um það lögð fram á Alþingi.

Á fundi háskólaráðs 10. janúar skipaði ráðið starfshóp til þess að fara yfir málefni aldursgreiningar. Starfshópurinn hélt fimm fundi um málið og fékk til viðtals fulltrúa frá Útlendingastofnun, forseta Tannlæknadeildar, Umboðsmann barna, fulltrúa frá Rauða krossinum og  fulltrúa frá Siðfræðistofnun. Í umræðum í starfshópnum kom fram að starfshópurinn taldi að hugtökin rannsókn og heildstætt mat væru óljós vegna misræmis í notkun þeirra í gögnum málsins og jafnframt hefði misskilnings gætt þar um í umræðu um málefnið. Hvað hugtakið rannsókn varðar, þá varð ljóst, m.a. með vísan til umsagnar vísindasiðanefndar og upplýsinga forseta Tannlæknadeildar, að aðkoma Tannlæknadeildar felur ekki í sér vísindarannsókn, heldur klíníska læknisskoðun, þ.e. klíníska munnholsskoðun og að gögnin eru ekki notuð í rannsóknartilgangi að skoðun lokinni. Starfshópurinn taldi nauðsynlegt að funda með fulltrúum frá Útlendingastofnun og Rauða krossinum til þess að fá skýrari mynd af ferli heildstæðs mats, en ljóst varð við nána skoðun og umfjöllun í hópnum að hugtakið heildstætt mat við aldursgreiningar mætti vera skýrara útfært og afmarkað í lögum.

Eftir að hafa kynnt sér öll fyrirliggjandi gögn varðandi málefni aldursgreininga, bendir meirihluti starfshópsins á að samkvæmt reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 á að framkvæma líkamsrannsóknir leiki grunur á að viðkomandi umsækjandi segi rangt til um aldur. Verkefni háskólaráðs Háskóla Íslands er ekki að taka afstöðu með eða á móti slíkum líkamsrannsóknum. Löggjafinn hefur þegar ákveðið að líkamsrannsóknir séu hluti af aldursgreiningarferli skv. lögum um útlendinga nr. 80/2016 og reglugerðinni. Verkefni háskólaráðs lýtur að því að meta, út frá gildandi lögum, hvort klínískri munnholsskoðun og röntgenmyndatöku sem lið í heildstæðri aldursgreiningu, sé best borgið innan Tannlæknadeildar Háskóla Íslands eða að öðrum kosti á einkareknum tannlæknastofum, ef Útlendingastofnun metur að þörf sé á slíku. Að þessum tveimur kostum vegnum er það mat meirihluta starfshópsins að betra sé að Tannlæknadeild framkvæmi slíkar klínískar munnholsskoðanir og röntgenmyndatökur.

Rök meirihluta starfshópsins fyrir því mati eru einkum þau að Tannlæknadeild Háskóla Íslands er eina opinbera tannlæknastofa landsins, en í samanburðarríkjum sem horft var til eru sambærilegar greiningar framkvæmdar af sérfræðingum í réttartannlækningum sem starfa hjá opinberum stofnunum. Þá skiptir máli að eitt af hlutverkum háskólans er að veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Innan Tannlæknadeildar er til staðar bæði tækjakostur og nauðsynleg sérþekking í réttartannlækningum. Þá er Tannlæknadeild í nánu samstarfi við norræna og evrópska háskóla og stofnanir á þessu sviði. Á þeim vettvangi eru aðferðafræði og faglegar nýjungar ræddar reglulega.

Formaður starfshópsins og starfmenn áttu einnig fundi með sérfræðingi Tannlæknadeildar og með fulltrúum ÚTL þar sem farið var yfir texta mögulegs verksamnings í ljósi þeirrar umræðu og viðtala sem átt höfðu sér stað á vettvangi starfshópsins. Á fundinum með ÚTL var jafnframt fjallað um texta eyðublaðs ÚTL um boðun í tannholsskoðun og röntgenmyndatöku. Lagðar voru til nokkrar breytingar sem miða m.a. að því að skýra hugtakanotkun, afmarka hlutverk Tannlæknadeildar í ferli aldursgreiningar og tryggja að beiðni ÚTL til Tannlæknadeildar um klíníska munnholsskoðun og röntgenmyndatöku á tönnum fylgi staðfesting frá Útlendingastofnun um að enn sé til staðar verulegur vafi á aldri umsækjanda eftir að aðrar aðferðir aldursgreiningar hafa verið fullreyndar.

Þá var þeirri viðbót bætt í mögulegan samning að samningsaðilar skulu tilnefna tvo tengiliði hvor til að sinna samráði um þjónustu á grundvelli samningsins og fylgjast með þróun mála er varða aldursgreiningar almennt, siðferðilegum álitaefnum og aðferðum aldursgreininga. Samráðshópurinn skuli leita ráðgjafar eftir þörfum og meta þörf á samráðsfundum um þjónustuna.

Háskólaráð tekur undir það mat starfshópsins að rétt sé að koma þeirri ábendingu formlega á framfæri við löggjafann að bókun Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um aldursgreiningar frá 16. nóvember 2017 kann að gefa tilefni til þess að endurskoða lög um útlendinga nr. 80/2016, í ljósi þess að ríkjum ber almennt að haga sinni löggjöf í samræmi við mannréttindasamninga sem þau eru aðilar að.“

Benedikt Traustason boðaði sérstaka bókun sem barst eftir fundinn og hljóðar svo:

„Stúdentar leggjast gegn gerð verksamnings við Útlendingastofnun vegna aldursmats út frá tannþroska sem byggir á klínískri munnholsskoðun og röntgenmyndatöku á tönnum. Stúdentar eru ósammála þeirri túlkun að það hagsmunum barnanna sé betur borgið með því að matið sé framkvæmt innan skólans en ekki á einkareknum stofum. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem gætir hagsmuna barna með túlkun barnasáttmálans, hefur talað gegn því að börn séu send í líkamsrannsóknir sem þessar. Það eitt og sér ættu að vera nægjanleg rök til þess að háskólinn myndi ekki taka þátt í framkvæmd slíkra líkamsrannsókna.

Meirihluti starfshóps háskólaráðs, sem fjallað hefur um gerð verksamnings um slíkt aldursmat, telur að háskólinn eigi ekki að taka afstöðu til þess hvort slíkar líkamsrannsóknir séu réttlætanlegar eða ekki. Stúdentar telja að með því að framkvæma slíkar rannsóknir að sé skólinn einmitt að taka afstöðu til þeirra. Það er fráleitt að háskólinn, sem ber ríka siðferðislega skyldu gagnvart samfélaginu, skuli reyna að firra sig ábyrgð með þessum hætti.

Við framkvæmd þess aldursmats sem hér er rætt um þarf að beita röntgengeislum en ganga skal út frá að þeir hafi neikvæð áhrif á heilsu fólks. Notkun þeirra má réttlæta í læknisfræðilegum tilgangi en við framkvæmd aldursmats er því ekki að skipta, heldur er um að ræða ákvarðanir sem ríkið tekur um framtíð fylgdarlausra barna á flótta.

Það er rétt að vekja máls á því að háskólinn leggur mikið upp úr upplýstu óþvinguðu samþykki þeirra sem almennt taka þátt í vísindarannsóknum á hans vegum. Börn sem ekki geti fengið samþykki foreldris við þátttöku í rannsóknum mega ekki hljóta tjón af rannsókninni og miðlun rannsóknargagna má ekki skaða þátttakendur, á það sér í lagi við um einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Það skýtur því skökku við að sjá skólann framkvæma líkamsrannsóknir á umsækjendum um alþjóðlega vernd á sama tíma og það er mat fulltrúa Siðfræðistofnunar og Umboðsmanns barna að umsækjendurnir sem gangast undir rannsóknirnar geti aldrei veitt slíkt samþykki fyrir líkamsskoðuninni.

Þegar kemur að akademískum rannsóknum ber háskólinn skyldu gagnvart þeim börnum sem eiga í hlut. Með gerð verksamningsins mun háskólinn ekki geta sinnt slíkum rannsóknum af sama krafti t.d. í tengslum við hvernig stofnanir taka við fylgdarlausum börnum, aðstæðum þeirra eða hvernig börnunum vegnar í íslensku samfélagi. Háskólinn getur ekki þjónustað Útlendingastofnun á þennan hátt og haldið hlutleysi sínu og sjálfstæði á sama tíma.

Orðspor háskólans er það dýrmætasta sem stjórnendum Háskóla Íslands er falið að gæta á hverjum tíma enda byggist allt hans starf á trausti, sama hvort það lýtur að útgáfu prófgráða eða akademískum rannsóknum. Með gerð verksamnings ógnar háskólinn því trausti og gengur gegn vilja stúdenta sinna, fjölda starfsmanna, áliti jafnréttisnefndar skólans, UNICEF, Rauða krossins og barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Við afgreiðslu þessa máls hefur ýmislegt í málflutningi þeirra sem annast hafa málið af hálfu háskólans ekki staðist. Til dæmis voru framkvæmdar líkamsrannsóknir í lok nóvember en því hafði verið haldið fram að þeim hafi verið hætt í september. Þrætt hefur verið fyrir það að gögn sem verða til við aldursmat út frá tannþroska hafi verið nýtt með óbeinum hætti til kennslu, jafnvel á sömu fundum þar sem slíkt hefur komið í ljós. Loks hefur aldursmatið verið framkvæmt innan háskólans allt frá árinu 2003 en ekki 2014 líkt og sagt var í upphafi. Rangfærslur sem þessar bera ekki merki vandaðra vinnubragða og eru ekki til þess fallnar að auka tiltrú á aðkomu háskólans að þessum verksamningi.

Vegna alls þess sem hér hefur verið rakið leggst ég gegn því að gerður verði verksamningur við Útlendingastofnun.“

Björn Atli vék af fundi.

5. Skipulags- og samgöngumál háskólasvæðisins, sbr. fund ráðsins 6. desember sl. Staða mála.
Inn á fundinn komu Hrund Ólöf Andradóttir, formaður skipulagsnefndar háskólasvæðisins, og Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og gerðu grein fyrir stöðu mála við mótun nýs heildarskipulags fyrir háskólasvæðið, samgöngumál á háskólasvæðinu og umsókn um breytingu á deiliskipulagi Háskóla Íslands á lóðinni við Gamla Garð. Málið var rætt og svöruðu þær Hrund og Sigríður spurningum ráðsmanna.

Í lok umræðunnar lögðu fulltrúar nemenda fram svohljóðandi bókun:

„Stúdentar fagna þeirri vegferð sem nú er hafin með gerð nýs deiliskipulags fyrir reit Gamla Garðs. Húsnæðisvandi stúdenta er brýnn, líkt og áður hefur verið rætt um á fundum háskólaráðs. Það er því ánægjulegt að sjá Háskólann leggjast af afli á vogarskálarnar með stúdentum til þess að byggja megi upp ódýrt húsnæði fyrir nemendur á háskólasvæðinu. Með því kemst skólinn nær því að ná þeim markmiðum sem hann hefur sett sér um byggingu stúdentaíbúða á svæðinu.

Tækifærin í bættu skipulagi háskólasvæðisins eru mikil, sama hvort það snýr að uppbyggingu nýrrar aðstöðu fyrir kennslu, samgöngumálum eða aukinni þjónustu innan svæðisins. Sú vinna sem nú er hafin með aukinni áherslu á skipulagsmál háskólasvæðisins mun styrkja stöðu Háskólans til lengri tíma, stúdentum, starfsfólki og skólanum öllum til heilla.”

Hrund og Sigríður viku af fundi.

6. Samráðsnefnd um kjaramál. Kynning.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, formaður samráðsnefndar háskólaráðs um kjaramál, og gerði grein fyrir hlutverki og störfum nefndarinnar. Einnig fór Guðmundur yfir stöðu mála varðandi komandi kjarasamninga. Málið var rætt.

7. Bókfærð mál.
a) Frá stjórn Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum: Tillaga að stofnun tveggja nýrra þverfræðilegra meistaranámsleiða í faraldsfræði og líftölfræði, sbr. reglur nr. 977/2018 um meistara- og doktorsnám í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands.
    – Samþykkt.

b) Frá Félagsvísindasviði: Tillaga að breyttu heiti á diplómanámsleið í fjölmenningu í Félagsráðgjafardeild og breytingu á inntökuskilyrðum í námið (breyting á 17. mgr. 86. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands).
– Samþykkt.

c) Lánasamningur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

8. Mál til fróðleiks.
a) Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Matís ohf. um kennslu, rannsóknir og nýsköpun, dags. 19. febrúar 2019. [Endurnýjun]
b) Ávarp rektors við brautskráningu kandídata 23. febrúar 2019.
c) Fréttabréf háskólavina, 26. febrúar 2019.
d) Dagskrá Háskóladagsins 2. mars 2019.
e) Veiting hagnýtingarverðlauna Háskóla Íslands 27. mars 2019.
f) Traust til stofnana skv. þjóðarpúlsi Gallup.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.55.