Skip to main content
27. febrúar 2019

Námskynningar og ótal viðburðir í HÍ á Háskóladaginn

Um fjögur hundruð námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi, ný hönnunarkeppni byggingarverkfræðinema, handstyrksmælingar, kínverskur drekadans og kynngimögnuð sýning Sprengjugengisins er meðal þess sem gestir geta kynnt sér á Háskóladeginum sem fagnað verður í Háskóla Íslands laugardaginn 2. mars kl. 12-16. Ótal viðburðir verða í boði á háskólasvæðinu sem endurspegla fjölbreytt og lifandi nám, öfluga þjónustu ásamt þróttmikilli nýsköpun og rannsóknum við skólann.

Háskóli Íslands hefur um árabil opnað dyr sínar uppp á gátt fyrir landsmönnum öllum á Háskóladaginn og því gefst þar kjörið tækifæri til þess að kynna sér námsframboð skólans, fræðast, upplifa og skemmta sér. Á staðnum verða vísindamenn, kennarar og nemendur úr öllum deildum Háskólans sem svara spurningum um allt milli himins og jarðar – eða því sem næst.

Námskynningar á vegum einstakra fræðasviða Háskóla Íslands verða á eftirtöldum stöðum:
Félagsvísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
Heilbrigðisvísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
Hugvísindasvið: Aðalbygging, 2 hæð
Menntavísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
Verkfræði- og náttúruvísindasvið: Askja

Á vef skólans geta áhugasamir skoðað hvar allar námsleiðir eru kynntar á Háskóladaginn.
 

Það verður nóg um að vera í Háskólabíói á Háskóladaginn, sýning hjá Sprengjugenginu, Vísindasmiðjan opin, Háskóladansinn stígur á stokk og boðið upp á vísindabíó.

Dagskráin í þessum byggingum verður afar fjölskrúðug eins og alltaf. 

Í hinni glæsilegu Aðalbyggingu verður lifandi dagskrá þar sem meðal annars verður hægt að sjá kínverska drekann ógurlega liðast um bygginguna. Þar verður einnig boðið upp á kínverska tai chi bardagalist, japanskan dans og lindy hop. Tónar Háskólakórsins munu njóta sín í Aðalbyggingu enda er hljómurinn undir silfurbergshvelfingunni í anddyri byggingarinnar einstakur.

Á Háskólatorgi verður ýmislegt í boði, s.s. handstyrksmælingar íþrótta- og heilsufræðinema og útileikir með tómstunda-og félagsmálafræðinemum. Hægt verður að læra stærðfræði með Legói og prófa rými til sköpunar með forritun. 

Í Öskju verður jarðskjálftaborðið magnaða sem mun bæði hrista turna sem nemendur hafa smíðað og íbúð sem hver og einn getur innréttað að vild. Eldfjallafræðingar grilla pylsur eins og alltaf og rafknúinn kappakstursbíll Team Spark verður til sýnis og sumir af yngstu kynslóðinni gætu jafnvel laumað sér í ökumannssætið. Hægt verður að máta sig við framtíðarstarfið í myndakassanum og fylgjast með nýrri hönnunarkeppni byggingarverkfræðinema. 

Í Háskólabíói verður einnig nóg um að vera. Sprengjugengi Háskóla Íslands með sjálfa Sprengju-Kötu í fararbroddi verður með kraftmikla og litríka sýningu í sal 1 kl. 14.  Háskóladansinn sýnir enn fremur listir sínar og boðið verður upp á Vísindabíó sem var verðlaunað í haust sem besta vísindamiðlun ársins 2018.  Auk þess er Vísindasmiðjan sívinsæla opin kl. 13-15 í Háskólabíói. Þar getur öll fjölskyldan kynnt sér undur vísindanna með lifandi hætti. Stjörnu-Sævar mætir með alvöru "geimsteina" frá tunglinu og Mars og gestir á öllum aldri geta enn fremur kynnst undraverðum eiginleikum ljóss, lita, hljóðs og rafmagns, teiknað listaverk með rólu, leikið á syngjandi skál, smíðað vindmyllu og ótalmargt fleira. 

Þá eru Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri með námskynningu á 1. hæð Háskólatorgs. Endurmenntun Háskóla Íslands, Háskólinn á Bifröst og Listaháskóli Íslands verða þar einnig ásamt Keili sem kynnir sína landsþekktu háskólabrú. 

Á 2. hæð á Háskólatorgi eru einnig fulltrúar frá Náms- og starfsráðgjöf, Skrifstofu alþjóðasamskipta og Nemendaskrá. Á staðnum verða fulltrúar frá jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, ráði um málefni fatlaðs fólks, Q – félagi hinsegin stúdenta, Femínistafélagi HÍ og jafnréttisnefnd Stúdentaráðs. Þá veita fulltrúar Félagsstofnunar stúdenta upplýsingar um Stúdentagarða, Leikskóla stúdenta og aðra þjónustu fyrir stúdenta.

Háskólinn í Reykjavík er með námskynningu í eigin húsakynnum við Öskjuhlíð og auk þess að vera á Háskólatorgi kynnir Listaháskóli Íslands allar sínar námsleiðir í eigin húsakynnum á Laugarnesvegi. Boðið er upp á ókeypis strætóferðir á milli HÍ, HR og LHÍ.

Aðgangur er ókeypis á alla viðburði á Háskóladeginum. 

Nánari upplýsingar um dagskrána á Háskóladeginum í Háskóla Íslands

frá háskóladeginum 2018