Skip to main content
11. febrúar 2019

Aukið verðlaunafé í samkeppni um Hagnýtingarverðlaun HÍ

-    Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins nýr samstarfsaðili um keppnina

Ertu með hugmynd að sprotafyrirtæki sem byggist á starfi þínu eða námi innan Háskóla Íslands? Vinnur þú að spennandi rannsókn sem hefur mikla hagnýtingarmöguleika? Þá er samkeppnin um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands eitthvað fyrir þig en verðlaunin verða veitt í 21. sinn þann 27. mars nk. Til mikils er að vinna því verðlaun fyrir fyrsta sætið í keppninni eru fjórar milljónir króna. 

Markmið Háskóla Íslands með þessari árlegu samkeppni er að stuðla að hagnýtingu verkefna og nýsköpunar innan skólans og laða fram hugmyndir sem geta orðið grunnur að nýjum fyrirtækjum og atvinnutækifærum, samfélaginu öllu til heilla. Keppnin er opin öllum starfsmönnum og nemendum skólans sem og tengdra stofnana og er fólk af öllum fræðasviðum Háskólans hvatt til að senda inn hugmyndir sínar í keppnina. Verðlaunaverkefni síðustu ára endurspegla vel hversu fjölbreytt flóra hagnýtanlegra verkefna hefur sprottið upp úr rannsóknum og störfum hinna margvíslegu fræðagreina Háskóla Íslands. 

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins kemur nú inn á ný sem bakhjarl og samstarfsaðili um keppnina en fyrir eru Árnason|Faktor og Nýsköpunarmiðstöð Íslands auk Háskóla Íslands.

Frestur til að skila inn tillögum í samkeppnina rennur út mánudaginn 4. mars 2019.

Peningaverðlaun eru veitt fyrir þrjú efstu sætin í keppninni og hafa þau verið aukin milli ára. Sem fyrr segir eru fjórar milljónir króna veittar til þess verkefnisins sem fær fyrstu verðlaun, verkefnið sem fær önnur verðlaun hlýtur tvær milljónir króna og ein milljón króna er veitt fyrir verkefnið sem hlýtur þriðju verðlaun. 

Sérstök dómnefnd metur hugmyndir sem berast í keppnina en við valið skoðar hún m.a.
•    Leiðir við hagnýtingu og hversu fljótt er unnt að hagnýta verkefni/hugmynd
•    Hvort hagnýting styðji við stefnu og starfsemi Háskóla Íslands
•    Rannsóknavinnu að baki verkefni/hugmynd
•    Nýnæmi og frumleika
•    Ávinning fyrir samfélagið
•    Hvernig verðlaunafé mun nýtast við hagnýtingu verkefnis/hugmyndar

Allar nánari upplýsingar um keppnina og umsóknareyðublað fyrir þátttöku er að finna á heimasíðu Háskólans.

""