Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 4. febrúar 2021

2/2021
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2021, fimmtudaginn 4. febrúar var haldinn rafrænn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson og Vigdís Jakobsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson. Siv Friðleifsdóttir boðaði forföll og varamaður hennar einnig.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá stöðu mála í kjölfar tjóns á byggingum og lóð Háskóla Íslands eftir að vatnslögn brast við Suðurgötu aðfararnótt 21. janúar sl. Málið verður á dagskrá næsta fundar ráðsins.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
    Inn á fundinn komu þau Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Rekstur Háskóla Íslands á liðnu ári. Staða mála.
Jenný Bára gerði grein fyrir niðurstöðu rekstrar Háskóla Íslands á árinu 2020. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum ráðsmanna.

b.    Fyrirkomulag fasteigna Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 5. nóvember sl. Staða mála.
Rektor og Þórður Kristinsson gerðu grein fyrir stöðu málsins. Viðræður hafa átt sér stað við fjármálaráðuneytið um stofnun fasteignafélags Háskóla Íslands á grundvelli þeirra forsendna sem skólinn hefur lagt til. Málið var rætt og svöruðu rektor og Þórður spurningum.

c.    Flutningur Menntavísindasviðs, sbr. starfsáætlun háskólaráðs. Staða mála.
Rektor og Guðmundur R. gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi fyrirhugaðan flutning Menntavísindasviðs á aðalsvæði Háskóla Íslands. Málið var rætt.

Guðmundur og Jenný Bára viku af fundi.

3.    Endurskoðunarnefnd og innri endurskoðun.
Inn á fundinn kom Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi.

a.    Starf endurskoðunarnefndar háskólaráðs.
Ásthildur Otharsdóttir, formaður endurskoðunarnefndar háskólaráðs, gerði grein fyrir störfum nefndarinnar og helstu áherslumálum. Málið var rætt.

b.    Endurskoðunaráætlun 2021.
Ingunn gerði grein fyrir tillögu sinni að endurskoðunaráætlun fyrir árið 2021. Málið var rætt og svaraði Ingunn spurningum ráðsmanna.
- Endurskoðunaráætlun fyrir árið 2021 samþykkt einróma.

Ingunn vék af fundi.

4.   Málefni stundakennara, sbr. starfsáætlun háskólaráðs.
Inn á fundinn kom Jónína Helga Ólafsdóttir, verkefnisstjóri á mannauðssviði. Fyrir fundinum lágu tillögur starfshóps um kjör og starfsaðstöðu stundakennara við Háskóla Íslands þar sem fram kemur hvernig standa skuli að og ljúka tillögum starfshóps um réttindi og kjör stundakennara sem teknar voru saman og birtar í mars 2016. Í samræmi við tillögur starfshópsins er rektor falið að mynda hóp sem hafi það verkefni að útfæra aðgerðirnar enn frekar og hrinda þeim í framkvæmd. Stundakennsluhópurinn taki strax til starfa og verði aðgerðum lokið fyrir árslok 2021. Til viðbótar við fyrirliggjandi tillögur kanni hópurinn hvaða hlunnindi geti mögulega staðið stundakennurum til boða sem bjóðast öðru starfsfólki Háskólans, s.s. aðgengi að íþróttahúsinu.
- Samþykkt einróma.

Jónína Helga vék af fundi.

5.    Erindi frá nemanda, sbr. fund ráðsins 3. desember sl.: Beiðni um aðgang að gögnum. Álit kærunefndar í málefnum nemenda, sbr. 50. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Inn á fundinn kom Víðir Smári Petersen, dósent og formaður kærunefndar í málefnum nemenda. Fyrir fundinum lá álit kærunefndarinnar í máli nemanda sem háskólaráð óskaði eftir í samræmi við 50. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Málið var rætt og svaraði Víðir Smári spurningum og vék síðan af fundi.

Að umræðu lokinni kvað háskólaráð einróma upp úrskurð í máli nr. 2020/4 sem rektor er falið að tilkynna málsaðilum. Úrskurðurinn er kæranlegur til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema sem starfar samkvæmt 20. gr. laga um háskóla nr. 63/2006. Um kærufrest fer samkvæmt VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

6.    Vinna við nýtt rammaskipulag fyrir háskólasvæðið og áform um borgarlínu, sbr. starfsáætlun háskólaráðs.
Inn á fundinn komu Orri Steinarsson, arkitekt og skipulagsfræðingur og einn eigenda arkitektastofunnar jvantspijker & partners í Hollandi, og Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor og formaður skipulagsnefndar háskólaráðs. Hrund gerði grein fyrir vinnu skipulagsnefndar við gerð nýs rammaskipulags fyrir háskólasvæðið og Orri lýsti drögum að afrakstri þeirrar vinnu og áformum um leið borgarlínu um háskólasvæðið. Málið var rætt og svöruðu Hrund og Orri spurningum ráðsmanna.

Hrund og Orri viku af fundi.

7.    Málefni kennslusviðs. Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri.
Inn á fundinn kom Róbert H. Haraldsson, prófessor og sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði ítarlega grein fyrir málefnum og helstu verkefnum kennslusviðs. Málið var rætt og svaraði Róbert spurningum.

8.    Bókfærð mál.
a.    Frá Hugvísindasviði: (i) Tillaga að breytingu í 1. mgr. 115. gr. reglna nr. 569/2009. Heiti námsleiðar til MA-prófs í fornleifafræði verði „söguleg fornleifafræði“. (ii) Tillaga um nýja námsleið til MA-prófs í kvikmyndafræði.

- Samþykkt.
b.    Samstarf um vísindaþorp í Vatnsmýri.
c.    Frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði: Tillaga að breytingu á inntökuskilyrðum.
- Samþykkt.

9.    Mál til fróðleiks.
a.    Uppfært yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna í á misserinu.
b.    Uppfært dagatal vormisseris 2021.
c.    Ársskýrsla Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala 2020.
d.    Stjórn Styrktarsjóðs Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar frá 1. febrúar 2021.
e.    Samstarfssamningur Félagsmálaráðuneytis, Vinnumálastofnunar og Háskóla Íslands um samstarf vegna rannsóknarinnar „Taka og nýting á fæðingarorlofi meðal foreldra á Íslandi, des. 2020.“
f.    Samningur Háskóla Íslands og embættis landlæknis um Heilsubrunn, dags. 25. janúar 2021.

g.    Á sjöunda tug styrkja úr Rannsóknasjóði til vísindamanna tengdra Háskóla Íslands.
h.    Sex verkefni tengd Háskóla Íslands á fyrsta vegvísinum um rannsóknarinnviði.
i.    Metár og meira en milljón lesendur á Vísindavefnum í fyrra.
j.    Innleiðing Grænna skrefa í Aðalbyggingu.
k.    Viðtal við rektor Háskóla Íslands í sérblaði Foreign Policy um Ísland, dags. janúar 2021.
l.    Nemendur Háskóla Íslands hljóta Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands.
m.   Skipun nefndar um samræmingu greiðslufyrirkomulags fyrir kennslu, sbr. síðasta fund.
n.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 27. janúar 2021.

o.    Viðtal við rektor Háskóla Íslands á Mbl.is 27. janúar 2021.
p.    Sjö fá styrk úr Nýliðunarsjóði.
q.    Úthlutun verkefnastyrkja úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands 2021.
r.    Sex nýdoktorar ráðnir við Rannsóknasetur Margrétar Danadrottningar og Vigdísar Finnbogadóttur.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.55.