Skip to main content
12. janúar 2021

Þremur grænum skrefum af fimm lokið í Aðalbyggingu

Þremur grænum skrefum af fimm lokið í Aðalbyggingu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands hefur fengið viðurkenningu frá Umhverfisstofnun fyrir að hafa lokið innleiðingu þriggja áfanga af fimm í Grænum skrefum í ríkisrekstri. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, tók við viðurkenningunni úr hendi Gróar Einarsdóttur, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun, í dag. 

Háskóli Íslands hefur undanfarin ár tekið þátt í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri sem miðar m.a. að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi ríkisins, efla umhverfisvitund ríkisstarfsmanna og auka vellíðan þeirra í starfi ásamt því að draga úr rekstrarkostnaði ríkisins. Umhverfis- og sjálfbærnimál eru eitt helsta viðfangsefni samtímans og með þátttöku í verkefninu vill Háskóli Íslands leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og mengun sem rekja má til mannanna verka. 

Við innleiðingu Grænna skrefa í ríkisrekstri er gátlistum fylgt og eru veittar viðurkenningar fyrir hvert grænt skref sem tekið er. Umhverfisstofnun sér um að kanna hvort skrefin eru uppfyllt og í úttekt í desember 2020 náði Aðalbygging þeim áfanga að ljúka bæði skrefi 2 og 3. Í því felst m.a. að draga úr orkunotkun í starfseminni, virkja starfsfólk í auknum mæli til að nota umhverfisvæna ferðamáta til og frá vinnu, vinna að aukinni flokkun sorps og bættri nýtingu vara ásamt innleiðingu á vistvænni innkaupum og viðburðum á vegum skólans. 

Innleiðing Grænna skrefa innan Háskólans er lengst á veg komin í Aðalbyggingu. Jafnframt verður unnið að skrefunum á skrifstofum fræðasviða auk skrifstofustarfsemi hjá minni einingum en samkvæmt Loftslagsstefnu Stjórnarráðs Íslands er gert ráð fyrir að allar ríkisstofnanir hafi stigi grænu skrefin fimm fyrir árslok 2021.

Viðstödd afhendingu viðurkenningarinnar voru auk Jóns Atla og Gróar þau Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs sem hefur umsjón með sjálfbærni- og umhverfismálum í rekstri skólans, og þau Sólrún Sigurðardóttir og Jón Sigurður Pétursson, verkefnisstjórar á sviðinu.

Jón Atli Benediktsson rektor og Gró Einarsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, með viðurkenninguna fyrir grænu skrefin þrjú. Fyrir aftan þau eru frá vinstri: Jón Sigurður Pétursson, Kristinn Jóhannesson og Sólrún Sigurðardóttir.