Skip to main content
20. janúar 2021

Sex verkefni tengd HÍ á fyrsta vegvísinum um rannsóknarinnviði

Sex verkefni tengd HÍ á fyrsta vegvísinum um rannsóknarinnviði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aðilar innan Háskóla Íslands koma að öllum þeim sex innviðaverkefnum sem hljóta sess á fyrsta íslenska vegvísinum um rannsóknarinnviði. Verkefnin eru á ýmsum fræðasviðum skólans.

Stjórn Innviðasjóðs bárust 28 umsóknir um stuðning við innviðaverkefni og valdi stjórnin sex þeirra, sem talin voru skara fram úr hvað varðar vísindalegan og faglegan styrk, breitt og vel skilgreint framtíðarsamstarf um innviðauppbyggingu og opið aðgengi að rannsóknarinnviðunum.

Fram kemur á vef Rannís, sem heldur utan um Innviðasjóð, að stöðunni á vegvísinum fylgi ekki fjárúthlutun eða vilyrði um slíkt „en verkefnin munu að öðru jöfnu njóta forgangs við úthlutun úr sjóðnum næstu árin. Umsóknarfrestur um styrk úr sjóðnum verður 15. apríl næstkomandi og verður hann öllum opinn, þ.e. bæði fyrir verkefni á vegvísi og önnur verkefni.“

Verkefnin sem eru á þessum fyrsta vegvísi um uppbyggingu öflugs innviðasamstarfs snerta m.a. sameindalíffræði og lífvísindi, efnavísindi og verkfræði og hugvísindi og listir. Samstarfsaðilar Háskólans í verkefnunum eru bæði aðrir háskólar á Íslandi og ýmsar þjónustu- og rannsóknastofnanir hér á landi. 

Bent er á það á vef Rannís að uppbygging öflugs innviðasamstarfs sé langtímaverkefni. „Í ljósi þess að stefnt er að uppfærslu vegvísis á allra næstu árum eru forsvarsmenn verkefna sem verða á þessum vegvísi, sem og verkefna sem ekki komust inn á hann, hvattir til að halda áfram að þróa verkefnin m.t.t. frekari uppbyggingar samstarfs um rannsóknarinnviðina, framtíðarsýnar og aðgengis. Íhuga má m.a. hvort einhverjar umsóknir eiga hugsanlega samleið með innviðum sem nú hlutu sess á vegvísinum. Einnig er hvatt til samtals við umsjónarmann sjóðsins við áframhaldandi vinnu.“

Nánari upplýsingar um innviðaverkefnin og aðstandendur þeirra eru á vef Rannís.

""