Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 3. nóvember 2022

11/2022

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2022, fimmtudaginn 3. nóvember var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Arnar Þór Másson, Brynhildur Ásgeirsdóttir (á fjarfundi), Davíð Þorláksson, Hólmfríður Garðarsdóttir, Katrín Björk Kristjánsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Sigurður Tómasson (varamaður fyrir Katrínu Atladóttur), Silja Bára R. Ómarsdóttir, Vilborg Einarsdóttir (á fjarfundi) og Þorvaldur Ingvarsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Rekstraryfirlit Háskóla Íslands fyrstu níu mánuði ársins.
Jenný Bára gerði grein fyrir framlögðu rekstraryfirliti fyrstu níu mánaða ársins 2022. Fram kom að rekstur Háskóla Íslands er í jafnvægi miðað við áætlanir. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára fyrirspurnum fulltrúa í háskólaráði.

b.    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023. Staða mála.
Rektor greindi frá stöðu mála varðandi fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023.

c.    Samanburður á fjármögnun háskóla.
Guðmundur R. gerði grein fyrir yfirliti með samanburði á fjármögnun og nokkrum lykilstærðum í starfsemi háskóla á Norðurlöndum. Málið var rætt og svöruðu rektor og Guðmundur R. spurningum.

Fulltrúar stúdenta lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Í ljósi upplýsinga sem kynntar voru í lið 2c lýsa fulltrúar stúdenta yfir áhyggjum af stöðu fjármögnunar háskólastigsins hérlendis til samanburðar við Norðurlöndin. Aðgerðarleysi stjórnvalda á fullnægjandi fjármögnun háskólastigsins leiðir til þess að háskólastigið, sér í lagi opinber háskólamenntun, skortir samkeppnishæfni við Norðurlöndin.

Brynhildur K. Ásgeirsdóttir og Katrín Björk Kristjánsdóttir“

d.    Samstarfssjóður háskóla.
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi nýjan samstarfssjóð háskóla sem settur hefur verið á stofn að undirlagi ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar. Fram kom að beðið er auglýsingar varðandi umsóknir í sjóðinn. Málið var rætt.

e.    Úrskurður áfrýjunarnefndar í málefnum nemenda, dags.19. ágúst sl., varðandi ákvörðun háskólaráðs 7. október 2021. Drög að endurskoðaðri ákvörðun háskólaráðs.
Magnús Jökull Sigurjónsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors, kom inn á fundinn og gerði grein fyrir tillögu að endurskoðaðri ákvörðun háskólaráðs vegna úrskurðar áfrýjunarnefndar í málefnum nemenda, dags. 19. ágúst 2022. Fyrir ráðinu lágu m.a. útreikningar á skrásetningargjaldi undanfarinna ára til og með árinu 2021. Málið var rætt og svöruðu Magnús Jökull og Jenný Bára spurningum.
– Samþykkt með níu atkvæðum gegn tveimur.

Fulltrúar stúdenta lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Fulltrúar stúdenta setja enn spurningarmerki við réttmæti skrásetningargjaldsins og telja það fela í sér að skólinn rukki nemendur fyrir þjónustu umfram það sem heimilt er samkvæmt 24. gr laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Nýr úrskurður áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema varpar ljósi á réttmætar áhyggjur stúdenta að þessu leyti, en hann kveður skýrt á um að Háskóli Íslands hafi ekki framfylgt skyldum sínum við útreikning á gjaldinu, samkvæmt skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Háskólinn hafi ekki miðað við rauntölur að baki kostnaðinum og þar með ekki haft réttar forsendur til grundvallar áður en gjaldið var innheimt fyrir núverandi skólaár.  Í ljósi þessa þykir fulltrúum stúdenta það skjóta skökku við að háskólaráð hafni erindinu aftur vegna nýrra útreikninga sem ráðið telur nú standast raunútgjöld, eftir að hafa miðað við gamlan útreikning síðastliðin ár og eftir að skrásetningargjaldið hefur þegar verið innheimt fyrir skólaárið.

Fulltrúar stúdenta taka undir með Stúdentaráði Háskóla Íslands um að úrskurðurinn bjóði upp á stærri umræðu um gjaldið; hvernig það sé áætlað, upphæð þess og hvaða þjónustu það felur í sér. Sömuleiðis hafa fulltrúar stúdenta í háskólaráði áður bent á að eðlileg vinnubrögð fælu í sér að taka skrásetningargjaldið fyrir árlega og þannig ganga úr skugga um að forsendur þess hafi ekki breyst áður en það er innheimt. Af ofangreindum ástæðum kjósa fulltrúar stúdenta á móti.

Brynhildur K. Ásgeirsdóttir og Katrín Björk Kristjánsdóttir“

3.    Málefni Happdrættis Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands (HHÍ), og greindi frá starfsemi og stöðu HHÍ og helstu viðfangsefnum framundan, en fjármögnun HHÍ er Háskóla Íslands gríðarlega mikilvæg. Málið var rætt og svaraði Bryndís spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Bryndís, Guðmundur R. og Jenný Bára viku af fundi.

Kaffihlé.

4.    Málefni Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., þ. á m. djúptæknikjarni, sbr. fund ráðsins 2. júní sl.
Inn á fundinn komu Sigurður M. Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. (VHÍ), og Hrólfur Jónsson, framkvæmdastjóri VHÍ. Gerði Sigurður Magnús grein fyrir stöðu mála varðandi VHÍ almennt og áformum um djúptæknikjarna sérstaklega. Málið var rætt og svöruðu þeir Sigurður M. og Hrólfur spurningum ráðsfólks.

Sigurður M. og Hrólfur viku af fundi.

5.    Frá innri endurskoðanda: Starfsemisskýrsla innri endurskoðanda til háskólaráðs fyrir tímabilið janúar til september 2022.
Inn á fundinn kom Sigurjón G. Geirsson. Ólafur Pétur Pálsson, formaður endurskoðunarnefndar háskólaráðs, gerði stutta grein fyrir starfi nýs innri endurskoðanda og endurskoðunarnefndar. Sigurjón fór yfir framlagða starfsemisskýrslu innri endurskoðanda fyrir tímabilið janúar til september 2022 ásamt því að reifa vinnulag og áherslur innri endurskoðunar Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Sigurjón spurningum.

6.    Bókfærð mál.
a.    Frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði: Tillaga að breytingu á reglum um doktorsnám við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands, nr. 995/2017.

– Samþykkt.

b.    Stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
– Samþykkt. Stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum skipa Zophonías Oddur Jónsson, prófessor, formaður, Charlotta Oddsdóttir, dýralæknir, Pétur Henry Petersen, prófessor, Sigríður Jónsdóttir, ónæmisfræðingur og Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir. Skipunartíminn er 1.1.2023-31.12.2026.

c.    Endurskoðaðar verklagsreglur um viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir lofsverðan árangur í starfi.
– Samþykkt.

d.    Nýr fulltrúi í framgangs- og fastráðningarnefnd.
– Sigurður Erlingsson kemur í stað Ólafs Péturs Pálssonar, sem sagt hefur sig úr nefndinni vegna annarra starfa. Svo breytt er nefndin þannig skipuð: Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor og aðstoðarrektor vísinda, formaður,  Steinunn Hrafnsdóttir, prófessor, Þórarinn Sveinsson, prófessor, Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor, Jóhanna Einarsdóttir, prófessor, og Sigurður Erlingsson, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Skipunartíminn er til 30. júní 2023.

7.    Mál til fróðleiks.
a.    Greinargerð um stöðu haf- og fiskirannsókna og leiðir til að efla þær.
b.    Könnun á viðhorfum til sjálfsmatsvinnu deilda í 2. lotu rammaáætlunar Gæðaráðs háskóla (QEF2), vor 2022.
c.    University’s research-driven innovation boosts Icelandic business. Viðtal við rektor í Foreign Policy.
d.    Juergen Boos hlýtur Vigdísarverðlaunin 2022.
e.    Háskóli Íslands fær viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar.
f.    Forsetar Finnlands og Íslands fjalla um samvinnu á átakatímum.
g.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 27. október 2022.
h.    Menntakvika haldin 6.-7. október.

i.    Þjóðarspegillinn 2022 helgaður félagslegri nýsköpun.
j.    Ókeypis félagsráðgjöf fyrir nemendur Háskóla Íslands.
k.   The European Universities Initiative and system level reforms.
l.    Forseti Eistlands flutti erindi við Háskóla Íslands 12. október.
m.   Viljayfirlýsing undirrituð um fagháskólanám í leikskólafræðum.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.45.