Skip to main content
20. október 2022

Ókeypis félagsráðgjöf fyrir nemendur HÍ 

Ókeypis félagsráðgjöf fyrir nemendur HÍ  - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Rannsóknir hafa sýnt að nemendum í háskólanámi á Íslandi líður almennt verr en háskólanemum annars staðar í Evrópu. Hærra hlutfall nemenda á Íslandi eru foreldrar, í vinnu með námi og sinna umönnun ættingja,“ segir Selma Björk Hauksdóttir, aðjunkt í félagsráðgjöf, en hún leiðir starf Félagsráðgjafar háskólanema sem nemendur í starfsréttindanámi til félagsráðgjafar hófu nýverið að bjóða innan skólans. Sú þjónusta sem stendur til boða er t.d. ráðgjöf á sviði samskipta, réttinda, fjármála og vegna málefna fjölskyldunnar, þar með talið samþætting náms og fjölskyldulífs.

Rótin að því að þessi mikilvæga ráðgjöf er að hefjast er sú að nemendur HÍ þrýstu á að skólinn myndi bjóða upp á félagsráðgjöf fyrir þau segir Hervör Alma Árnadóttir, dósent og deildarforseti Félagsráðgjafardeildar. Til að mæta því kalli hafi verið ákveðið að opna Félagsráðgjöf háskólanema og bjóða nemendum HÍ ráðgjöf sem beinist t.d. að framangreindum þáttum. „Nemendur sem eru í meistaranámi í félagsráðgjöf veita öðrum nemendum HÍ félagslega ráðgjöf undir handleiðslu fagmanns. Þeir nemendur sem veita ráðgjöfina fá tækifæri til þess að hagnýta aðferðir sem þeir hafa lært ávallt undir öflugri handleiðslu auk þess að fá reynslu í að nota gagnreynd matstæki,“ segir Hervör Alma.

Brugðist hratt við beiðnum um þjónustu

Þær Selma Björk og Hervör Alma segja að stefnt verði að því að bregðast hratt við beiðnum um þjónustu sem verði veitt á skilvirkan hátt og án endurgjalds. „Háskólanemendur fá því aðgang að þjónustu sem byggð er á gagnreyndri þekkingu og með því að leita sér aðstoðar geta þeir eflt sig og styrkt til þess að geta stundað námið.“ 

Í heildarstefnu Háskóla Íslands, HÍ26, er áhersla á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna enda er vitað að öflug þátttaka háskólasamfélagsins er ein af forsendum þess að Ísland leggi lóð á vogarskálar heimsmarkmiðanna. Þetta nemendaverkefni er í góðum takti við það heimsmarkmið sem snýr að heilsu og velferð, heimsmarkmið 3. Almenn góð heilsa og vellíðan eru enda afar mikilvægir þættir í viðleitninni til að ná markmiðum sjálfbærrar þróunar.

Vart þarf því að fjölyrða um mikilvægi þess að svona þjónusta komist á enda segir í stefnu skólans að vellíðan eigi að vera kjölfestan í Háskóla Íslands. Þar segir líka að stuðlað verði að hvetjandi starfsumhverfi með vellíðan nemenda að leiðarljósi.

En rágðjöfin hefur tvær hliðar því hún líka mjög mikilvæg þeim sem veita hana. Selma Björk segir það mjög brýnt að nemendur fái tækifæri til þess að sinna hagnýtum verkefnum sem séu aðkallandi í samfélaginu hverju sinni. Þanig fái nemendur að beita þekkingu sinni undir öflugri leiðsögn reyndra fagmanna. 

„Nemendur í félagsráðgjöf hafa fengið sérstaka þjálfun í að mæta þörfum fólks og styðja þá sem til þeirra leita til þess að geta tekist á við verkefni lífsins, hver svo sem þau eru.“

Einfalt er að sækja um þjónustuna á netinu. Einnig er hægt að senda fyrirspurn á netfangið felradgjof@hi.is.

MA-nám til starfsréttinda í félagsráðgjöf er tveggja ára fullt nám en forkröfur í námið er að hafa lokið BA-prófi í félagsráðgjöf með fyrstu einkunn. Stór hluti námsins felst í starfsþjálfun sem fer fram á stofnunum utan HÍ undir handleiðslu sérþjálfaðra starfsþjálfunarkennara. Að loknu námi geta nemendur sótt um löggild starfsréttindi í félagsráðgjöf.

Fjölbreytt starf nemenda HÍ í þágu samfélags

Nýja verkefnið hjá félagsráðgjafarnemum er mjög í takt við fjölda annarra innan skólans en árum saman hafa nemendur HÍ stutt við samfélag með fjölbreyttum verkefnum. Þessi verkefni snúa að fjölbreyttum áskorunum þar sem leitað er lausna á málum sem snerta m.a. einstaklinga og fjölskyldur. Verkefni af þessum toga eru t.d. Bangsaspítalinn sem Lýðheilsufélag læknanema hefur staðið að. Þar er leikskólabörnum á aldrinum 3-6 ára er boðið í heimsókn á spítalann með veika eða slasaða bangsa. Tilgangurinn er að fyrirbyggja hræðslu hjá börnum við lækna, heilbrigðisstarfsfólk og spítalaumhverfið og að gefa læknanemum á yngri árum tækifæri til að æfa samskipti við börn. 

Þá hefur Orator, félag laganema, veitt almenningi endugjaldslausa lögfræðiaðstoð í áranna rás. Nemendur í meistaranámi við Lagadeild HÍ veita þar aðstoð og svör við fyrirspurnum í umsjón starfandi lögmanna.

Nemendur í hjúkrunarfræði, læknisfræði, sálfræði og félagsráðgjöf standa enn fremur að Hugrúnu – geðfræðslufélagi. Markmið þess er að fræða ungt fólk um geðheilbrigði, geðsjúkdóma og úrræði og að auka samfélagslega vitund um þetta efni. Hugrún hefur m.a. staðið fyrir fræðslu í framhaldsskólum, opnum fræðslukvöldum fyrir almenning og kynningum í félagsmiðstöðvum auk fræðslu fyrir foreldra- og nemendafélög og fleiri.

Hér fátt eitt talið en lesa má um starf nemenda HÍ af þessum toga hér. 
 

Selma Björk Haukdsóttir og Hervör Alma Árnadóttir