Skip to main content
28. desember 2020

Skrifstofa alþjóðasamskipta verður alþjóðasvið 

Skrifstofa alþjóðasamskipta verður alþjóðasvið  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tillaga um að Skrifstofa alþjóðasamskipta yrði stjórnsýslusvið í miðlægri stjórnsýslu undir heitinu alþjóðasvið var samþykkt á fundi háskólaráðs 3. desember síðastliðinn. Alþjóðasvið verður nú eitt átta stjórnsýslusviða Háskóla Íslands.

Á undanförum árum hefur alþjóðlegt samstarf á sviði kennslu og rannsókna eflst verulega innan Háskóla Íslands. Fjöldi erlendra nemenda og starfsfólks við Háskólann hefur aukist jafnt og þétt. Þá tekur Háskóli Íslands virkan þátt í margvíslegu alþjóðlegu starfi, t.a.m. innan evrópsku háskólasamtakanna (EUA) og ýmsum samstarfsnetum, s.s. Aurora-háskólanetinu og verkefnum sem því tengjast.

Þar ber hæst aðild Háskóla Íslands að Aurora-Alliance sem er eitt svokallaðra European University háskólaneta sem ætlað er að efla samstarf evrópskra háskóla og styrkja þá til sóknar í samkeppni við háskóla annars staðar í heiminum. Þátttaka háskólans í Aurora samstarfinu kallar á meiri nálægð og samvinnu við miðlæg stjórnsýslusvið háskólans í daglegu starfi við úrlausn mála og áætlanagerð og því mikilvægt skref að styrkja stjórnsýslu málaflokksins innan skólans með stofnun miðlægs stjórnsýslusviðs. 

Alþjóðasvið mun áfram annast formleg samskipti háskólans við erlendar menntastofnanir og veita nemendum, kennurum og deildum þjónustu varðandi alþjóðlegt samstarf. Umsjón með skiptinámi, starfsþjálfun og sumarnámi auk kennara- og starfsmannaskipta verða áfram stór hluti af verkefnum alþjóðasviðs.

Eins og áður segir verður alþjóðasvið eitt átta stjórnsýslusviða Háskóla Íslands en hin eru  framkvæmda- og tæknisvið, fjármálasvið, kennslusvið, markaðs- og samskiptasvið, mannauðssvið, upplýsingatæknisvið og vísinda- og nýsköpunarsvið. Framkvæmdastjóri stjórnsýslu leiðir sameiginlega stjórnsýslu skólans í umboði rektors. Hlutverk sameiginlegrar stjórnsýslu er að skapa fræðasviðum, deildum, stofnunum og starfsfólki háskólans skilyrði til að vinna störf sín í samræmi við lög og reglur háskólans

Friðrika Harðardóttir verður sviðsstjóri alþjóðasviðs, en hún hefur gegnt stöðu forstöðumanns Skrifstofu alþjóðasamskipta frá árinu 2013. Alþjóðasvið er til húsa á Háskólatorgi.

 

""