Skip to main content
15. mars 2023

Rætt um alþjóðasamskipti og þjóðaröryggi

Rætt um alþjóðasamskipti og þjóðaröryggi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Örar breytingar á alþjóðavettvangi hafa í för með sér að stjórnvöld þurfa að takast á við samfélagslegar og alþjóðlegar áskoranir á sviði þjóðaröryggis með nýjum áherslum. Því er brýnt að velta upp spurningunni hvernig við getum nýtt alþjóðasamstarf til að tryggja öryggi þjóðar á breyttum tímum. Þjóðaröryggisráð í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands býður því til samtals um þjóðaröryggi og alþjóðasamstarf í Norðurljósasal Hörpu miðvikudaginn 22. mars frá klukkan 13:00 til 16:00

Þar verður annars vegar fjallað um þær áskoranir sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir í dag og hvort þær kalli á nýja nálgun í alþjóðasamstarfi. Hvort traust til alþjóðastofnana hafi dvínað og hvort þær hafi getu til þess að takast á við stærstu ógnir samtímans.

Hins vegar verður rætt um alþjóðasamstarf og víðtæka öryggishagsmuni Íslands sérstaklega, hvernig við á Íslandi getum nýtt alþjóðasamstarf til að tryggja öryggi okkar á breyttum tímum en jafnframt hvar við getum gert betur. 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður þjóðaröryggisráðs, opnar ráðstefnuna og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Christoph Heusgen, forstöðumaður Munich Security Conference flytja opnunarerindi.  

Ráðstefnan er opin öllum og að kostnaðarlausu. Hún fer fram á íslensku en túlkun á ensku verður í boði á staðnum.

Nánari upplýsingar og skráningu er að finna á vef Alþjóðamálastofnunar.

Skráning á fundinn

""