Skip to main content
22. maí 2023

Ný lyfjameðferð sem dregur úr taugaskaða hlaut Vísinda- og nýsköpunarverðlaun HÍ

Ný lyfjameðferð sem dregur úr taugaskaða hlaut Vísinda- og nýsköpunarverðlaun HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Lyfjameðferð sem virkjar kæliferil frumna í mannslíkamanum og miðar að því að draga úr taugaskaða við alvarleg veikindi varð hlutskörpust í samkeppninni um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands 2023. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands í morgun. Þrjú önnur verkefni nemenda og starfsfólks skólans voru einnig verðlaunuð en þau snúa að þróun umhverfisvænni rafhlaðna, kennsluefnis til að efla orðaforða og lesskilning barna á Íslandi og sáraumbúða sem nema gróanda í sárum með snjalltækni.

Samkeppnin um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands hefur verið haldin undir ýmsum nöfnum innan skólans undanfarinn aldarfjórðung og getið af sér fjölmargar hagnýtar hugmyndir og sprotafyrirtæki á afar fjölbreyttum sviðum. 

Að þessu sinni bárust 40 gildar umsóknir í samkeppnina frá öllum fræðasviðum skólans. Við mat á umsóknum skoðaði dómnefndin einkum nýnæmi og frumleika, útfærslu, samfélagsleg áhrif, m.a. út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, og hvort verkefnin væru í samræmi við stefnu skólans og styddu við starfsemi hans. Veitt voru verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar í fjórum flokkum: Heilsa og heilbrigði, Tækni og framfarir, Samfélag og Hvatningarverðlaun. Auk þess var sigurvegari keppninnar valinn úr hópi verðlaunahafa í ofangreindum flokkum. 

heils og heilbrigdi

Sigurvegari í flokknum Heilsa og heilbrigði og heildarkeppninni var verkefnið Hagnýting kælisvarsins til að lækna og fyrirbyggja taugaskaða en aðstandendur þess hlutu samtals 2,5 milljónir króna í verðlaunafé. Þau eru Hans Tómas Björnsson, prófessor við Læknadeild, og Salvör Rafnsdóttir og Kijin Jang, doktorsnemar við sömu deild.

Læknar á gjörgæsludeildum lækka iðulega kjarnhitastig sjúklinga til þess að draga úr taugaskaða eftir alvarleg áföll (fósturköfnun, hjartastopp, drukknun) en þessi meðferð er afar erfið í framkvæmd og henni fylgja oft alvarlegar aukaverkanir. Engin lyf eru tiltæk til að draga úr taugaskaða tengdri fósturköfnun eða eftir hjartastopp en verkefnið gengur út á að breyta því með þróun á taugaverndandi lyfjameðferð sem myndi nýtast alvarlega veikum sjúklingum. Nýlegar rannsóknir benda til þess að kæliferill frumna virkist við kælingu og miðli taugaverndandi áhrifum kælingar. Aðstandendur verkefnisins hafa fundið lyf sem virkja kæliferilinn og talið er að gæti gagnast sjúklingum. Slíka meðferð væri líka mögulega hægt að nýta fyrir minna veika sjúklinga sem þjást af krónískum verkjum en hluti slíkra verkja orsakast af taugaskaða.

taekni og framfarir

Í flokknum Tækni og framfarir hlaut verkefnið Þróun áljónarafhlöðu verðlaun að upphæð 1,5 milljónir króna. Að verkefninu standa Rúnar Unnþórsson, prófessor og deildarforseti Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar, og Nasim Saber, doktorsnemi við sömu deild. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Alor ehf. og þá tengjast því fjöldi hagaðila á borð við Neyðarlínuna, Landsnet og atNorth.

Verkefnið felur í sér þróun á hagkvæmari og umhverfisvænni rafhlöðu í stað hefðbundinna blýsýrurafhlaðna. Þær síðarnefndu hafa lengi verið vinsælastar í hópi rafhlaðna sem ekki þurfa að vera færanlegar, ólíkt þeim sem eru notaðar í farartækjum. Vaxandi krafa er um að skipta þessum tegundum rafhlaðna út og sem dæmi má nefna hafa blýsýrurafhlöður fengið undanþágu frá blýbanni Evrópusambandsins frá árinu 2003 vegna þess að það skortir aðra fýsilega kosti. Í verkefninu er því unnið að þróun á vistvænni lausn sem hefur burði til þess að leysa blýsýrurafhlöður af hólmi.

samfelag

Í flokknum Samfélag hlýtur verkefnið Íslenskur námsorðaforði og stigvaxandi fjölbreytni íslenskrar tungu: Markvissir kennsluhættir í grunn- og framhaldsskólum verðlaun að upphæð 1,5 milljón króna. Að verkefninu standa Sigríður Ólafsdóttir og Auður Pálsdóttir, dósentar við Deild faggreinakennslu, og Hanna Óladóttir, lektor við sömu deild. Verkefnið er unnið í samstarfi við fræðafólk við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Hugvísindasvið HÍ og sérfræðinga við Menntamálastofnun. 

Tilgangurinn með verkefninu er að bregðast við hnignandi lesskilningi íslenskra nemenda og áskorunum í menntun nemenda með annað móðurmál en íslensku. Verkefnið byggist á nýjum lista yfir íslenskan námsorðaforða. Þekking á slíkum orðaforða er nauðsynleg til þess að nemendur nái að skilja og fjalla um viðfangsefni námsins. Rannsóknarverkefnið felur einnig í sér ritun gæðatexta með námsorðaforðanum og kennsluleiðbeiningar sem ætlaðar eru í kennslu grunn- og framhaldsskólanema sem læra íslensku sem annað tungumál. Unnið er með stigvaxandi fjölbreytni í orðaforða, lesskilningi, umræðu- og ritunarfærni sem saman leggja mikilvægan grunn að námsframvindu nemenda. Hluti af verkefninu er íslenskt námsorðaforðapróf sem er hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi og gefur möguleika á að kortleggja íslenskan orðaforða grunnskólanema.

hvatningarverdlaun

Hvatningarverðlaun, að upphæð 500 þúsund krónur, komu í hlut verkefnisins Umbúðir úr tveimur lögum stoðgrinda sem nema gróanda í sári. Að verkefninu standa Angel Andrés Castro Ruiz nýdoktor og Sigríður Guðrún Suman, prófessor við Raunvísindadeild. Það er unnið í samstarfi við dr. Gissur Örlygsson hjá Tæknisetri Íslands (IceTec) og Lorenzo Moroni, prófessor við Háskólann í Maastricht í Hollandi.

Langvinn sár eru algengt vandamál sem tengist öldrunartengdum sjúkdómum, sérstaklega hjá þeim sem glíma við sykursýki, þrýstingssár, offitu og æðasjúkdóma. Daglegt eftirlit þar sem huglægar breytur eru notaðar til að meta ástand sársins er nauðsynlegt, sérstaklega fyrir sjúklinga á sjúkrahúsi eða með takmarkaða hreyfigetu. Lækningarferlið er því oft eigindlegt, sem leiðir til breytileika og ósamræmis í árangri. Í verkefninu eru þróaðar sáraumbúðir sem nema gróanda í sári en þar er nýtt svokölluð efnasvörun sem hægt er að fylgjast með í rauntíma í gegnum snjallsímaforrit og gerir kleift að greina sár og þróun þess á hlutlægan hátt. Sáraumbúðirnar sem ætlunin er að þróa eru tveggja laga netverk stoðgrinda úr pólýester- og pólý(ester-b-karbónat)-samfjölliðum þar sem grunneiningarnar koma úr lífmassa. Fjölliðurnar eru lífsamhæfðar og lífbrjótanlegar. Notkun samfjölliða úr lífmassa hefur einnig þann samfélagslega ávinning að umbreyta úrgangsstraumum í lífbrjótanlegar fjölliður, í þessu tilviki til verðmætra læknisfræðilegra nota.

Samkeppnin um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Árnason|Faktor og Auðnu-tæknitorgs.
 

Verðlaunahafar í samkeppninni um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun HÍ ásamt rektor og formanni dómnefndar