Skip to main content
8. febrúar 2021

Mikil öráreitni gagnvart fötluðu fólki sem kynverum

Mikil öráreitni gagnvart fötluðu fólki sem kynverum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Öráreitni (e. microaggression) hefur fengið aukna athygli undanfarin misseri en þar er átt við dulda og lúmska mismunun eða fordóma sem beinast einna helst að jaðarsettum hópum. „Oft er um að ræða atvik sem eitt og sér virðist smávægilegt en þegar fólk í jaðarsettri stöðu upplifir slík atvik jafnvel oft á dag verða áhrif og afleiðingar þeirra mikil,“ útskýrir Ásta Jóhannsdóttir, lektor við Menntavísindasvið. Hún vinnur um þessar mundir að rannsókn á þessu fyrirbrigði ásamt Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur, meistaranema í félagsvísindum við Háskólann á Akureyri, og Andreu Sigrúnu Hjálmsdóttur, lektor við sama skóla.

Í verkefninu er ætlunin m.a. að skoða áhrif öráreitni á tjáningu kynverundar fatlaðs fólks en kynverund vísar til upplifunar fólks af því að vera kynvera og tekur m.a. til kyns, kyngervis, kyneinkenna og kynhneigðar. „Markmið verkefnisins er að skoða upplifun fatlaðs fólks af því að vera kynverur, aðgengi fatlaðs fólks að tjáningu kynverundar sinnar og upplifun á skömm í tengslum við tjáninguna. Við viljum einnig skoða upplifun fatlaðs fólks af líkömum sínum sem kynferðislegum og þá öráreitni sem beinist að því,“ bætir Embla við. Verkefnið ber heitið „Unaðsskömm í lífi fatlaðs fólks; Áhrif öráreitni á kynjasjálfsmynd og tjáningu kynverundar“ og að sögn Ástu er það hugarsmíð Emblu enda hluti af meistaraverkefni hennar. Það er byggt á fyrri rannsókn á áhrifum öráreitni og ableisma á ungt fatlað fólk. Þá rannsókn unnu Embla og Ásta ásamt Freyju Haraldsdóttur. Eins byggja þær stöllur á fyrri rannsóknum Ástu á áhrifum skammar á líkama og kynverund ungs fólks. „Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir, kona Emblu, á heiðurinn á nýyrðinu „unaðsskömm“ í tengslum við þá skömm sem oft fylgir tjáningu kynverundar fatlaðs fólks,“ bætir Ásta við.

Markmið verkefnisins sem þær Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Ásta Jóhannsdóttir vinna að er að skoða upplifun fatlaðs fólks af því að vera kynverur, aðgengi fatlaðs fólks að tjáningu kynverundar sinnar og upplifun á skömm í tengslum við tjáninguna. Ætlunin er einnig að rannsaka upplifun fatlaðs fólks af líkömum sínum sem kynferðislegum og þá öráreitni sem beinist að því. MYND/Kristinn Ingvarsson

Fötlun og kynverund lítið rannsökuð hér

Fötlun og kynverund hafa að sögn Ástu og Emblu lítið verið rannsökuð hér á landi og sama má segja um áhrif öráreitni á kynverund fatlaðs fólks. Til þessa að bæta úr því styðjast þær stöllur við þrjár rannsóknaraðferðir í verkefninu: rýnihópaviðtöl, einstaklingsviðtöl og tilviksrannsókn. „Í rýnihópaviðtölum er upplifun þátttakenda af öráreitni rædd sérstaklega í tenglum við þeirra kynjuðu tilvist. Eins er rætt um aðgengi fatlaðs fólks almennt að tilhugalífi og tjáningu kynverundar. Svipað efni er til umræðu í einstaklingsviðtölunum,“ útskýrir Embla.

Viðtalsrannsóknir henta hins vegar ekki öllum hópum og til þess að auka aðgengi þeirra sem eiga erfitt með að taka þátt í viðtalsrannsókn vegna aðgengisþarfa er einnig stuðst við tilviksrannsókn. „Hún felst í dagbókarskrifum þar sem þátttakendur skrifa dagbók í tiltekinn tíma um upplifun sína af öráreitni og tjáningu kynverundar sinnar. Þá eru lagðar fram kveikjur að umfjöllunarefni dagbókaskrifanna en þátttakendum er í sjálfsvald sett hvað er skrifað. Með þessum hætti er hægt að fá upplýsingar um reynslu þátttakenda yfir lengra tímabil,“ segir Embla sem sér um gagnaöflun og greiningu í verkefninu undir leiðsögn Ástu. 

Ásta bendir enn fremur á að í þessari síðastnefndu aðferð felist töluvert nýnæmi. Sjálf hafi hún notað þetta form í rannsóknum með góðum árangri þegar kemur að því að ræða viðkvæma hluti en það geti verið kostur fyrir fólk að vera heima að skrifa í tölvuna í stað þess að vera í sama rými og rannsakandinn. 

Rannsóknin er skammt á veg komin en bráðabirgðaniðurstöður eru að sögn Emblu í samræmi við fyrirliggjandi rannsóknir erlendis. „Það er mikil öráreitni sem fatlað fólk þarf að bregðast stöðugt við. Ein birtingamynd öráreitni er sú hugmynd að fatlað fólk sé kynlaust eða börn að eilífu. Birtist það meðal annars í okkar niðurstöðum í formi þeirra skilaboða að þátttakendur ættu að vera þakklátir fyrir að eiga maka og hafa lítið rými til að gera kröfur á þá,“ segir Embla og Ásta bætir við að þær stöllur stefni að því að vinna nokkrar fræðigreinar upp úr efninu, bæði til birtingar hérlendis og erlendis. 

Aðspurðar segja þær Ásta og Embla gildi rannsóknanna ótvírætt bæði fyrir samfélagið og vísindi. „Rannsóknir á öráreitni og kynverund fatlaðs fólks eru fáar og því nauðsynlegt að varpa ljósi á reynslu fatlaðs fólks. Reynsla jaðarhópa er mjög oft lituð af öráreitni sem er illa sýnileg og reglulega gert lítið úr. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að öráreitni er ríkjandi og stýrandi þáttur í daglegu lífi fatlaðs fólks og því er mikilvægt að rannsaka það frekar,“ segir Embla að endingu. 

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Ásta Jóhannsdóttir