Skip to main content
6. apríl 2023

Æsa hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin fyrir útgefið efni

Æsa hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin fyrir útgefið efni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Æsa Sigurjónsdóttir, dósent í listfræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, hlaut nýverið viðurkenningu Íslensku myndlistarverðlaunanna, ásamt myndlistarteyminu Bryndísi Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson, fyrir útgefið efni fyrir bókina Óræð lönd: samtöl í sameiginlegum víddum. Bókin er gefin út af Gerðarsafni, í kjölfar tveggja sýninga sem haldnar voru samtímis í Gerðarsafni-Listasafni Kópavogs og í Listasafninu á Akureyri árið 2021- 2022.

Í bókinni er fjallað um myndlistarmennina Bryndísi Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson og tuttugu ára feril þeirra í þverfaglegum listrannsóknarverkefnum og sýningagerð. Í umsögn Myndlistarráðs segir að bókin veki eftirtekt fyrir heildstæða og einstaklega vandaða framsetningu á innihaldsríku efni sem veiti einstaka innsýn í listhugsun Bryndísar og Marks sem hafi verið í hópi leiðandi listamanna á sviði listrannsókna. Um sé að ræða sjálfstætt ritverk sem dýpki skilning lesandans á hugmyndalegum forsendum verkanna og víkki sjónarhorn hans út frá listfræði og heimspeki.

Óræð lönd: samtöl í sameiginlegum víddum.

Aðrir höfundar efnis bókarinnar eru Mark Dion, Terike Happoja og Ross Birrell.

Æsa Sigurjónsdóttir hefur starfað við Háskóla Íslands frá árinu 2008. Hún hefur sett upp fjölda sýninga og ritað fjölda bóka og greina um listfræði, sýningarstjórnun, ljósmyndafræði og sjónmenningu.

Æsa Sigurjónsdóttir, dósent í listfræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.