Kennsla náttúrugreina, MT


Kennsla náttúrugreina
MT gráða – 120 einingar
MT-námið býr nemendur undir kennslu náttúrugreina. Námið er opið þeim sem hafa lokið B.Ed.-prófi í grunnskólakennslu með áherslu á náttúrugreinar, eða BA/BS-prófi í skyldum greinum. Grunnskólakennarar með leyfisbréf geti sótt námið óháð sérhæfingu í fyrra námi.
Nemendur ljúka MT gráðu án þess að skrifa 30 eininga lokaverkefni.
Skipulag náms
- Haust
- Nám og kennsla: Að mæta sérþörfum
- Menntun til sjálfbærni – hæfni í heimi breytinga
- Óháð misseri
- Inngangur að megindlegum rannsóknaraðferðumB
- Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðumB
Nám og kennsla: Að mæta sérþörfum (KME103F)
Meginviðfangsefni námskeiðsins eru kennsluhættir og námsaðstæður sem miða að því að efla árangur fjölbreyttra nemendahópa, huga að styrkleikum þeirra og veikleikum í skóla án aðgreiningar með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Fjallað er um algengustu sérþarfir nemenda og sérstök áhersla lögð á árangursríkar (gagnreyndar) leiðir til að mæta margbreytilegum þörfum nemenda og efla þá í námi, meðal annars til að draga úr vanda varðandi lestrarnám, hegðun, líðan, einbeitingu, ofvirkni og einhverfu. Samhliða er rætt um mikilvægi þess að hafa hæfileika og styrkleika nemenda ávallt í forgrunni og aðgreina erfiðleika frá eiginleikum einstaklinga. Einnig er fjallað um fjölmenningarkennslu og kennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku. Kynntar eru helstu aðferðir við bekkjarstjórnun og einstaklingsmiðuð úrræði til að bæta hegðun, félagsfærni, líðan og námsárangur fjölbreytts hóps nemenda. Fjallað er um þverfaglegt samstarf, teymisvinnu og samvinnu við foreldra barna með sérþarfir. Umfjöllunarefni námskeiðsins grundvallast á hugmyndafræði skóla án aðgreiningar og rannsóknum á því sem vel hefur gefist við að mæta fjölbreytilegum nemendahópi, með það að markmiði að veita öllum nemendum jafngild tækifæri í námi.
Menntun til sjálfbærni – hæfni í heimi breytinga (KME110F)
Fjallað verður um hugtakið sjálfbær þróun og meginhugmyndir alþjóðlegra sáttmála um sjálfbærni. Tekin verða dæmi af ýmsum vandamálum er tengjast umhverfi og náttúru, s.s. loftslagsmálum, tegundafækkun, jarðvegseyðingu og mengun. Lögð verður áhersla á að greina vandamál úr umhverfi nemenda með áherslu á að finna mögulegar lausnir. Fjallað verður um hlutverk kennara í að vinna með ágreiningsmál og hvernig þeir geta kennt börnum að greina vanda, meta upplýsingar og setja fram hugsanlegar lausnir. Þátttakendur lesi og noti rannsóknir á sjálfbærnimenntun. Einnig munu þátttakendur skoða eigin viðhorf til sjálfbærrar þróunar, gildi sín og meta eigin hegðun.
Skyldumæting er í staðlotur samkvæmt kennslualmanaki Menntavísindasviðs.
Inngangur að megindlegum rannsóknaraðferðum (MVS213F, MVS212F)
Markmiðið er að nemendur
- hafi innsýn í megindlega aðferðafræði á sviði rannsókna í uppeldis- og menntunarfræði
- þekki helstu rannsóknaraðferðir og hugtök sem þeim tengjast
- geti beitt algengum rannsóknaraðferðum og þannig aflað gagna, unnið úr þeim og túlkað á agaðan og viðurkenndan hátt
- séu færir um að rýna í rannsóknir og nýta sér niðurstöður þeirra
- hafi tileinkað sér rannsakandi hugarfar og gagnrýna hugsun
Kynnt verða algeng rannsóknarsnið megindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemendur nota tölvuforrit til að reikna algenga tölfræðistuðla og halda utan um og vinna úr gögnum. Sérstök áhersla verður lögð á þjálfun í túlkun matsniðurstaðna sem líklegt er að verði á vegi þeirra hópa sem taka námskeiðið.
Fyrirlestrar á vef, umræður og verkefni. Námskeiðið er kennt vikulega en fyrirlestrar verða eingöngu á vef. Verkefnatímar verða ekki teknir upp. Ekki er mætingarskylda í námskeiðið en nemendur eru hvattir til að mæta í kennslustundir.
Nemendur verða að hafa Jamovi (sjá nýjustu útgáfu á https://www.jamovi.org) uppsetta á fartölvum sem þeir mæta með í kennslustundir.
Lesefni: Kaflar 1-11 í Navarro DJ and Foxcroft DR (2019). Learning statistics with jamovi: a tutorial for psychology students and other beginners. (Version 0.70). DOI: 10.24384/hgc3-7p15. Rafræn ókeypis kennslubók sem hala má niður á síðunni https://www.learnstatswithjamovi.com.
Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðum (MVS213F, MVS212F)
Fjallað verður um ólíkar rannsóknarstefnur og tengsl þeirra við uppbyggingu og útfærslu rannsókna. Einnig um siðfræði vísinda með áherslu á hagnýt atriði og um gæðahugtök, s.s. réttmæti, trúverðugleika og ólíka sýn á þessi hugtök. Í námskeiðinu beinist athyglin að eigindlegum aðferðum. Kynnt verða algeng rannsóknarsnið eigindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemar fá nokkra þjálfun í að beita algengum aðferðum rannsókna m.a. vettvangsathugunum, viðtölum og heimildaathugunum. Þá vinna nemar með öflun, skráningu, flokkun, greiningu og túlkun gagna, og með framsetningu þeirra og gera heildstæða rannsóknaræfingu.
Fyrirlestrar, umræður og verkefni. Skyldumæting er í staðlotum.
Nám og kennsla - fagmennska í starfi (KME301F)
Meginviðfangsefni námskeiðsins er fagmennska í starfi kennara og hlutverk, ábyrgð og skyldur umsjónarkennara sem og fagreinakennara. Sérstök áhersla er lögð á að styðja kennaranema í að móta heildstæða starfskenningu, efla fagvitund, skerpa sýn á kennarastarfið og skilning á þeim skuldbindingum sem starfið felur í sér. Á námskeiðinu er áhersla lögð á tengsl kennslu og náms og það hlutverk kennarans að byggja upp öflugt og skapandi námsumhverfi. Fjallað verður um siðfræði kennarastarfsins, manngildissjónarmið og ábyrgð kennara, gagnvart velferð barna og foreldrasamstarfi. Meðal viðfangsefna verða sjálfsrýni og sjálfsmat, ígrundun eigin kennslu og í samræðu við nema úr öðrum faggreinum. Auk þess er lögð áhersla á samskiptafærni, m.a. í samskiptum við foreldra, viðtalstækni, teymiskennslu og teymisvinnu og mismunandi leiðir til bekkjarstjórnunar.
Vinnulag byggir á fyrirlestrum, umræðum, málstofum, sjálfstæðri vinnu og samvinnuverkefnum. Námsþættir námskeiðsins eru í beinum tengslum við vettvangsnám. Ýmis álitamál verða skoðuð og rædd með vísun til dæma úr skólastarfi. Kennaranemar lesa valdar greinar og rannsóknir sem tengjast námsþáttunum, bæði efni sem kennarar velja og efni sem nemar viða að sér. Kennaranemar vinna námsþáttaverkefni og halda rannsóknardagbók a.m.k. einu sinni í viku meðan á vettvangsnámi stendur. Kennaranemar vinna að jafnaði saman í teymi á vettvangi í samstarfi við æfingakennara og kennara námskeiðsins. Þeir fara með ákveðin verkefni til að skoða og vinna með, auk þess sem þeir skipuleggja samþætt, lýðræðislegt verkefni um málfefni líðandi stundar. Einnig safna þeir gögnum af vettvangi sem nýtt eru í tengslum við vinnu að námsþáttum námskeiðsins. Áhersla er lögð á að skrifin tengist kenningum um nám og kennslu, faggrein, siðfræði og starfskenningu kennaranema. Vettvangsnámshlutinn er einnig hluti af námsvinnunni í bóknámshluta námskeiðsins, þ.e. einstakir námsþættir og vettvangsnámið eiga að mynda eina samofna heild.
Vinnulag
Vettvangsnámið dreifist yfir allt skólaárið, allt frá því þegar skólar hefja störf í ágúst þar til skóla lýkur að vori. Mætingaskylda er á námskeiðinu á mánudögum eftir hádegi á Menntavísindasviði eða í rauntíma á neti fyrir þá sem búa að landsbyggðinni utan við Selfoss eða Akranes.
Kennaranemar velja sjálfir hvort þeir fara í launað starfsnám eða ólaunað vettvangsnám:
Launað starfsnám (leiðbeinendur í kennslu)
Nemendur sem hyggja á launað starfsnám leita sér sjálfir að stöðu og sækja um.
Þeir kennaranemar sem verða í launuðu starfsnámi (í starfi sem leiðbeinendur) taka vettvangsnámið í eigin bekk/námshópum sem þeir eru að kenna. Í launuðu starfsnámi er hálft starf fullgilt vettvangsnám. Þeir þurfa að sinna bæði störfum umsjónarkennara og kennslu í faggrein/sérhæfingu sinni. Miðað er við að allir kenni að lágmarki 4 kennslustundir á viku í faggrein sinni. Vettvangsnámið er hluti af starfi og fylgir því skólaárinu í grunnskóla viðkomandi.
Ólaunað vettvangsnám
Nemar sem hyggja á ólaunað vettvangsnám geta lagt til hvar þeir vilji stunda sitt vettvangsnám. Í könnun sem send verður út í maí geta þeir óskað eftir svæði eða skóla.
Nemar þurfa að skila fjögurra til sex klukkustunda viðveru að jafnaði á dag, 2 – 3 daga í viku, þ.e. 12 klukkustundum á viku. Þar af er við það miðað að þeir kenni 8 kennslustundir og þarf kennsla í faggrein að vera minnst 4 kennslustundir á viku og nemi þarf að hafa tækifæri til að kynnast hlutverki umsjónarkennara.
Vettvangsnámstímabilið í ólaunuðu vettvangsnámi fylgir háskólaárinu.
Nám og kennsla – vettvangsnám í faggrein (FAG401F)
Meginviðfangsefni námskeiðsins er vettvangsnám í faggrein. Lögð er áhersla á að nemar prófi sig í kennslu og fái tækifæri til að ræða, meta, ígrunda og þróa kennslu sína. Þeir þróa kennsluáætlun byggða á aðalnámskrá grunnskóla og skólanámskrá. Þeir greina atvik úr kennslu sinni og draga lærdóm af þeim. Þeir skoða fjölbreyttar kennsluaðferðir og beita þeim í kennslu á vettvangi.
Vinnulag: Nemendur eru á vettvangi alla önnina á báðum námskeiðum og mæta reglulega í kennslustundir í háskólanum. Byggt er á fyrirlestrum, umræðum, sjálfstæðri vinnu og samvinnuverkefnum. Námsþættir námskeiðsins eru í beinum tengslum við námskeiðið Nám og kennsla - fagmennska. Ýmis álitamál verða skoðuð og rædd með vísun til dæma úr námsþáttunum, bæði efni sem kennarar velja og efni sem nemar viða að sér.
- Haust
- Erfðir og þróunE
- Kennslufræði lífvísindaE
- Óháð misseri
- Rannsóknir og þróun í náttúrufræðimenntun
- Að kenna um bylgjur, ljós, hljóð og umhverfi
- Nám og náttúruvísindi á 21. öldE
- Jörðin og himingeimurinn
- Kennslufræði jarðvísindaE
- Kennslufræði eðlis- og efnafræðiV
- Rými til sköpunar og samþættingar í skólastarfi: Stærðfræði, náttúrugreinar og upplýsingatækniE
- Loftslagsbreytingar og menntunB
Erfðir og þróun (SNU002M)
Fjöllum um hlutverk erfðaefnis í lífverum og hvernig eiginleikar lífvera erfast milli kynslóða. Lærum um litninga og byggingu litninga, frumuskiptingar, lögmál Mendels, umritun og prótínmyndun, erfðamynstur, arfgerðir og svipgerðir ofl. Kynnumst því helsta sem er að gerast í erfðatækni og ræðum gagnsemi þess og galla.
Þróunaröfl (náttúrulegt val, stökkbreytingar, genaflökt, genaflæði o.fl.), stórir viðburðir í sögu lífsins, útrýmingar og ástæður þeirra, þróunarsaga mannsins. Fjölbreytni lífsins. Þróunarsaga mannsins.
Grunnskólakennsla í þróunarlíffræði og erfðafræði. Námskrá, námsefni, möguleikar netsins og hreyfiefnis í kennslu.
Vinnulag: Fyrirlestrar kennara og nemenda - nær og fjær. Umræðutímar á staðnum/netinu.
Kennslufræði lífvísinda (SNU701M)
Í fyrirlestrum og umræðutímum verður fjallað um mikilvægi líffræði í almennri menntun og um rannsóknir á (i) hugtakaskilningi á grunnhugtökum líffræðinnar, (ii) gildi verklegrar kennslu almennt, (iii) gildi útináms og fl. Rýnt verður í námsefni og önnur kennslugögn og rætt verður um aðferðir við námsmat. Í verklegum tímum kynnast nemendur notkun kennslutækja (smásjár, víðsjár, tölvur, myndavélar o.fl.), og fá tækifæri til að beita mismunandi aðferðum í kennslu, bæði í vinnustofu, úti við og í kennslustofu.
Rannsóknir og þróun í náttúrufræðimenntun (SNU004M)
Fjallað verður um rannsóknir á náttúrufræðimenntun, bæði erlendis og hér á landi. Rætt verður um rannsóknir á verklegri kennslu og aðstæðubundnu námi og á viðhorfum og áhuga á náttúrufræði. Einnig verður rætt um þróunarstarf og rannsóknir á upplýsinga- og samskiptatækni í náttúrufræðimenntun. Sérstök áhersla verður lögð á rannsóknir er varða það hvað það felur í sér að læra náttúrufræði. Einnig verður athyglinni beint að tengslum sjálfbærni og náttúrufræði annars vegar og að kennsluháttum í náttúrufræði sem virðast gefa góðan árangur hins vegar. Umræður verða tengdar aðalnámskrá.
Nemendur lesa greinar um rannsóknir og þróun í náttúrufræðimenntun, gera útdrætti úr þeim og fjalla um þær á Netinu og í staðlotum. Áhersla verður lögð á að nemendur afli sér upplýsinga sjálfir úr ýmsum heimildum kynni hugmyndir sínar og verkefni og taki virkan þátt í umræðum. Einnig munu nemendur kynna sér tímarit á sviðinu og ráðstefnur um náttúrufræðimenntun, meðal annars með því að skoða heimasíður slíkra ráðstefna til að greina mikilvægar nálganir í rannsóknum á þessu sviði.
Að kenna um bylgjur, ljós, hljóð og umhverfi (SNU003M)
Í þessu námskeiði verða þátttakendur búnir undir að kenna bylgjur, ljós og hljóð bæði með því að styrkja þekkingu nema á viðfangsefnunum og á kennsluhugmyndum sem þeim tengjast. Jafnframt verður skoðað hvernig fyrirbæri tengd þessum hugtökum birtast í manngerðu og náttúrulegu umhverfi. Mikil áhersla verður lögð á að tengja viðfangsefnin við hugmyndir og reynslu þátttakenda. Fjallað verður um rannsóknir á hugmyndum barna um viðfangsefnin og mögulegar leiðir til að tengja með kennslu þessi viðfangsefni við reynsluheim og hugmyndir grunnskólabarna. Fjallað verður um kennslu náttúrufræðilegra viðfangsefna námskeiðsins, skoðaðar kennslubækur og verklegar athuganir. Náttúrufræðileg viðfangsefni námskeiðsins eru: Sveiflur, bylgjur á streng, öldur á vatni, almennir bylgjueiginleikar, hljóð, myndun þess, útbreiðsla og víxlverkun við efni, ljós, myndun þess, útbreiðsla og víxlverkun við efni, og sjóntæki.
Nám og náttúruvísindi á 21. öld (SNU006M)
Fjallað verður um rannsóknir á áhrifum náttúrufræðináms á þroska barna.
Rædd verða valin þverfagleg viðfangsefni úr vísindastarfi á Íslandi og víðar. Námskeiðið byggist á lestri greina í fag- og vísindatímaritum um nýjungar í náttúruvísindum, verkefnavinnu og kynningum fluttum af vísindamönnum og samnemendum. Einnig verða heimsóttir staðir þar sem kynnt verða verkefni á Íslandi, bæði rafrænt og í raun. Nemi velur lokaverkefni, bæði form og inntak, í samráði við umsjónarkennara.
Námsefni verður valið með hliðsjón af því að nemi kynnist nýjungum á bak við nýjustu rannsóknir.
Viðfangsefni tengjast námi og kennslu í grunn- og framhaldsskólum. Dæmi um viðfangsefni eru: Nanótækni, öreindfræði, erfðafræði, heilsa og matur, tækni, hönnun og smíði, umhverfissálfræði, orkutækni, stjörnufræði, fiskimið, hafið og hlutverk og eðli náttúruvísinda.
Jörðin og himingeimurinn (SNU201M)
Inntak / viðfangsefni:
Hugmyndir barna um náttúrufyrirbæri (staða jarðar í himingeimnum og berg)
Sólkerfið; Staða jarðar í sólkerfinu og hvernig hún hreyfist þar, aðdráttarafl, árstíðaskipti, dægraskipti, kvartilaskipti tunglsins.
Myndun og mótun lands; lagskipting jarðar og landrek, útræn og innræn öfl, bergtegundir, eldgos, jarðskjálftar. Stutt yfirlit yfir jarðsöguna.
Loftslagsbeltin; veður og loftslag; lofthjúpurinn, geislun og orkuskipti, hitafar, loftþrýstingur og vindar, raki og úrkoma, loftmassar, vestanvindar, staðvindar, monsún, fárviðri.
Gróðurbeltin; einkenni gróðursvæða, tengsl við loftslagsflokkun Köppens, einkenni jarðvegsgerða.
Hafstraumar; sjávarföll, heitir og kaldir hafstraumar, fiskimið ofl.
Áhrif manna á umhverfi sitt, verndun og varðveisla umhverfis, mengun, gróðurhúsaáhrif ofl.
Kennsla; Kynntar verða hugmyndir að kennslu ofantaldra viðfangsefna sem og rannsóknir sem þeim tengjast.
Fyrirkomulag byggist á vikulegri kennslu á neti. Farið verður í nokkrar vettvangsferðir og þurfa allir nemendur að mæta í a.m.k. fimm og skila einfaldri skýrslu um hverja þeirra. Nánar um verkefni og próf eru í kennsluáætlun námskeiðsins.
Kennslufræði jarðvísinda (SNU502M)
Unnið verður með hæfniviðmið jarðvísinda fyrir aldurshóp að eigin vali. Áhersla verður á verklegt nám inni og úti, skipulag vettvangsferða, tengingu við hæfnviðmið námskrár og hvernig megi virkja nemendur til að hafa áhrif á eigið nám í jarðvísindum. Þá verður fjallað um rannsóknir á hugmyndum barna um myndun og mótun lands.
Rýnt verður í námsefni og önnur kennslugögn með sérstakri áherslu á notkun upplýsingatækni. Fjallað verður um hlutverk kennara í námi í jarðvísindum og skoðaðir verða möguleikar á tengingu við aðrar námsgreinar.
Verklag byggist meðal annars á vali nemenda á viðfangsefnum, örkennslu og æfingu í skipulagningu og úrvinnslu námsmats.
Kennslufræði eðlis- og efnafræði (SNU504M)
Á námskeiðinu verður fjallað um hugmyndir um nám og kennslu í eðlis- og efnafræði. Gefið yfirlit yfir þá þekkingu og færni sem kennari í þessum greinum þarf að hafa. Áhersla verði lögð á sérstöðu eðlis- og efnafræði sem námsgreina og að þátttakendur þrói hugmyndir sínar um nám og kennslu eðlisvísinda þannig að þeir verði betur í stakk búnir til að kenna þær greinar. Grunnhugmynd í námskeiðinu er að þátttakendur þrói þessar hugmyndir með því að kynna sér hugmyndir um nám og kennslu eðlisvísinda, með því að gera tilraunir í kennslu og með því að rannsaka eigin kennslu og annarra. Kennari mun leiðbeina og aðstoði nema í þessari viðleitni.
Rými til sköpunar og samþættingar í skólastarfi: Stærðfræði, náttúrugreinar og upplýsingatækni (SNU202M)
Á námskeiðinu kynnast þátttakendur leiðum til vinna með sköpun í kennslu stærðfræði, náttúrugreina og upplýsingatækni ásamt því að auka þekkingu sína og skilning á völdum viðfangsefnum þessara sviða. Jafnframt verður unnið með leiðir til að samþætta þessi svið í skólastarfi.
Náttúrufræðileg viðfangsefni námskeiðsins eru stjörnufræði og þróun lífs. Fjallað verður um sögu alheimsins og myndun sólkerfisins og jarðarinnar, ekki síst með áherslu á það hvernig efnafræðilegar og eðlisfræðilegar aðstæður mynduðust fyrir kviknun lífs og viðhaldi þess. Kynntar verða hugmyndir um uppruna lífs og fjallað um sögu lífs á jörðinni.
Stærðfræðileg viðfangsefni námskeiðsins eru annars vegar úr hnitarúmfræði og hins vegar verður fjallað um grundvallaratriði um reiknirit, svo sem notkun breytistærða, falla, lykkja og rökskilyrða í forritun. Kynnt verður hvernig þessi stærðfræði nýtist til þess að smíða einföld grafísk líkön í tölvu, svo sem tölvuleiki eða listaverk.
Áherslur í upplýsingatækni og miðlun snúa meðal annars að möguleikum til að efla nám og kennslu ungmenna með skapandi þverfaglegum verkefnum og nýtingu tækni og búnaðar (s.s. þrívíddarprenturum) sem finna má í nýsköpunarsmiðjum (gerverum, snillismiðjum; e. makerspace, Fablabs). Einnig verða kynnt stafræn umhverfi til sköpunar, samstarfs og leikja með forritun og tilraunum. Nemendur kynna sér rannsóknir og þróunarstarf á þessu sviði hér á landi og erlendis með lestri fræðigreina, vettvangsheimsóknum og viðfangsefnum í nýsköpunarsmiðjum, til dæmis tengdum umhverfismálum og plastmengun.
Loftslagsbreytingar og menntun (SNU203F)
Fjallað verður um orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga eins og þær birtast í náttúrunni heima og á heimsvísu. Tekin verða dæmi af mengun lands og sjávar og sjónum beint að aðgerðum til að vernda náttúruna, endurheimta fyrri landgæði og stuðla að kolefnishlutlausu spori landsins .
Fjallað verður um álitamál tengd loftlagsbreytingum og tekin dæmi af hvernig má vinna með ólíkar hliðar loftslagsbreytinga í skólastarfi í náttúrufræði, stærðfræði og upplýsingatækni.
Þátttakendur vinna verkefni er tengjast aldurshópi að eigin vali, sem eru ýmist einstaklings-, para- eða hópverkefni.
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
Stakkahlíð, 1. hæð í Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.