Skip to main content

Orð og afurðir indíána á Íslandi

Erla Erlendsdóttir, prófessor við Mála- og menningardeild

Súkkulaði, kakó, tómatur, chilipipar, jalapeño og tekíla eru orð sem flestir Íslendingar þekkja, en færri vita að þau eru upprunnin úr indíánamálum í Mexíkó. Maísbaunir og papaja eru hins vegar úr taíno eða arawak, tungumáli sem talað var á Stóru-Antillaeyjum í Karíbahafi og er nú útdautt. Orðin pótetur (kartöflur) og kínóa koma aftur á móti úr tungumálum indíána í Perú og Andesfjöllum, quechua og/eða aimara.

Erla Erlendsdóttir, prófessor í spænsku, hefur undanfarið rannsakað þessi og fleiri tökuorð úr tungumálum indíána í Suður- og Mið-Ameríku og Mexíkó í norðurgermönskum tungumálum. Áhugi hennar á tökuorðum úr tungumálum indíána kviknaði í doktorsnámi við Barcelonaháskóla á Spáni. „Meðal námskeiða í boði voru orðfræði og orðsaga spænskrar tungu. Í framhaldinu vann ég doktorsverkefni sem fjallar m.a. um indíánaorð í Norðurlandamálunum undir handleiðslu dr. Emmu Martinell, prófessors við Barcelona-háskóla,“ segir Erla.

Hún segir rannsóknina bregða ljósi á tökuorð af umræddum uppruna í þeim tungumálum sem eru í brennidepli: íslensku, dönsku, norsku og sænsku. Einnig reyni hún að draga upp leið orðanna frá upprunamáli til viðtökumáls, þ.e. hvernig orð berist frá einu tungumáli í annað og þar með úr einum menningarheimi í annan, alla jafna ásamt fyrirbærinu eða afurðinni sem það stendur fyrir.

Orðin sem sjónum er beint að eiga að baki langt ferðalag. Það hefst í Suður- og Mið- Ameríku og Mexíkó, leiðin liggur þaðan til Suður-Evrópu, alla jafna Spánar, og síðan norður eftir álfunni allt til Íslands.

„Í samstarfi við yfir 20 fræðimenn frá ýmsum evrópskum háskólum er væntanlegt greinasafn þar sem hver og einn þátttakandi fjallar um a.m.k. þrjú orð af þessum uppruna í móðurmáli sínu og lúta þau öll að mat eða afurðum úr jurtaríkinu.“

Erla Erlendsdóttir

Erla fetar ótroðnar slóðir í rannsóknum sínum en enginn virðist hafa með markvissum hætti skoðað orð af þessum uppruna í Norðurlandamálunum. Hún segir fyrstu niðurstöður seinni rannsókna sinna hafa verið reifaðar í greinum sem hafa birst í tímaritum á Íslandi, á Spáni og í þeim löndum Ameríku þar sem spænska er töluð. Í farvatninu er svo bók um orð af þessum uppruna í Norðurlandamálunum.

Matur er mannsins megin, segir máltækið og hann kemur sannarlega við sögu í verkefni sem Erla vinnur að ásamt alþjóðlegum hópi fræðimanna. „Í samstarfi við yfir 20 fræðimenn frá ýmsum evrópskum háskólum er væntanlegt greinasafn þar sem hver og einn þátttakandi fjallar um a.m.k. þrjú orð af þessum uppruna í móðurmáli sínu og lúta þau öll að mat eða afurðum úr jurtaríkinu,“ segir Erla að lokum.