Hegðun æðarkollna í heimi breytinga | Háskóli Íslands Skip to main content

Hegðun æðarkollna í heimi breytinga

Hegðun æðarkollna í heimi breytinga - á vefsíðu Háskóla Íslands

Flestir sem ferðast meðfram ströndum landsins reka augun í æðarfugla á sundi í flæðarmálinu. Æðarfuglinn er enda stór kafönd og algengasta önd landsins. Það er hentugt fyrir manninn sem hefur um aldir nýtt afurð æðarfuglsins, dúninn. 

En æðarfuglinn kafar ekki bara í fjöruborðinu því hann flýgur inn í skáldsögur og ljóð. Nóbelsskáldið Halldór Laxness gefur Úu, einni litríkustu kvenpersónu sinni, nafn í takti við tóna æðarfuglsins. „Þetta er orð úr máli æðarfuglsins heima, úa-úa, hann kendi mér að skilja lífið,“ segir Úa sjálf í Kristnihaldi undir Jökli þar sem sögusviðið er Snæfellsnes. Þar er einmitt rannsóknavettvangur Jón Einars Jónssonar, vísindamanns við Háskóla Íslands. 

„Rannsóknasetrið á Snæfellsnesi var stofnað árið 2006 og æðarfugl hefur verið aðal rannsóknategundin frá upphafi,“ segir Jón Einar. „Fyrir hendi var mikill áhugi fólks í Breiðafirði og víðar á afdrifum æðarfugls. Margir sem stunda æðardúntekju hafa látið í té þekkingu, gögn og upplýsingar sem hafa nýst okkur beint í rannsóknunum.“

Lífslíkur æðarfugls, varpárangur og fæðuval

Framhaldsnám Jóns Einars snerist um stofnvistfræði og atferli andfugla og algengasta andategund Íslands hentar honum því einstaklega vel. Honum fannst strax spennandi að sinna rannsóknum í Breiðafjarðareyjunum. Heimafólk reyndist fúst til samstarfs um rannsóknir og hefur heimilað alls kyns rannsóknasýsl í varplandinu auk merkingar á æðarkollum.

„Starf mitt hjá Rannsóknasetrinu snýst fyrst og fremst um stofnvistfræði æðarfugls, m.a. að kanna lífslíkur varpfugla, færslur hreiðra milli ára, fæðuval og áhrif veðurfars á stofnstærð og búsvæðaval,“ segir Jón Einar. 

Æðarfugl hefur lengi kunnað þokkalega við sig í nábýli við manninn enda hefur hann haft hag af því að vernda varpið vegna dúntekjunnar. „Æðarfuglinn er því afar hentug tegund til rannsókna,“ segir Jón Einar, „hér á ég við ástand einstaklinga, varpárangur, lífeðlisfræðilega þætti og atferli. Innbyrðis tengsl þessara þátta eru líka mjög spennandi.“

„Mig langar að rannsaka landnám æðarfugls á Íslandi út frá gögnum um stærðarbreytileika og erfðafræðilegan skyldleika við aðra æðarstofna. Þá hef ég mikinn áhuga á breytileika í varptíma fugla og hvernig einstaklingar tímasetja varp .“

Merkilegar merkingar á æðarfuglum

Jón Einar lærði að fanga æðarkollur hjá Smára Lúðvíkssyni, æðarbónda í Rifi á Snæfellsnesi, og í kjölfarið vaknaði áhugi hans á að merkja æðarkollur í grennd við Stykkishólm. 

„Tækifærið til merkinga á æðarfugli kom þegar við hófum þátttöku í svokölluðu Seatrack-verkefni árið 2014. Það gengur út á að setja hnattstöðurita á fuglana og endurheimta þá ári síðar. Sú reynsla varð til þess að byrjuðum að nota litmerki á fuglana árið eftir og föngum árlega hundrað til tvö hundruð æðarkollur. Setrack-verkefninu er stýrt frá Noregi en það tekur til ellefu sjófuglategunda og mun standa til a.m.k. ársins 2022.“

Niðurstöðurnar sem Jón Einar færir nú til bókar eru tengdar árvissu langtímaverkefni þar sem fylgst er með merktum æðarkollum. Með árlegum merkingum er fylgst með afdrifum æðarkollna við sunnanverðan Breiðafjörð. „Gögnin eru notuð til að mæla lífslíkur, varpárangur og tryggð fuglanna við hreiðurstæði,“ segir hann.  

Frá 2014 hafa rösklega eitt þúsund kollur verið merktar á en merkt hefur verið á fjölmörgum stöðum í grennd við Stykkishólm, m.a. í Landey, Hjallsey, Stakksey, Þorvaldsey, Sellátri, Rifgirðingum, Elliðaey,Þormóðsey, Hrappsey, Höskuldsey og Gimburey. 

„Markmiðin eru að kanna hvort kvenfuglar færi sig milli eyja, þ.e. sýni mismunandi átthagatryggð milli eyja og ára, að skýra einstaklingsbreytileika í vali á hreiðurstæði og varpárangri auk þess að bera saman varpárangur, dagsetningu varps og álegu milli rannsóknareyjanna, sem eru ólíkar um staðhætti, gróðurfar, afræningja og tegundir varpfugla sem hafa áhrif á öryggi æðarkollnanna. Við viljum líka kanna hvort tryggð við hreiður aukist með hækkandi aldri merktra kvenfugla.“

„Fuglar eru eitt það besta sem við höfum til að fylgjast með hvernig umhverfið breytist og dýralíf lagar sig að því. Við lifum á tímum þar sem menn ganga taumlaust á náttúruna en segjast vilja vernda hana um leið. Æðarfugl er núna á válista bæði á Íslandi og á heimsvísu eftir talsverða fækkun frá aldamótum. Þessi rannsókn leitast við að skýra breytileika meðal einstaklinga og hvaða afleiðingar breytileikinn hefur fyrir afkomu og varpárangur,“ segir Jón Einar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Snæfellsnesi.

Æðarfugl er á válista

Þar sem um langtímarannsókn er að ræða liggja ekki endanlegar niðurstöður fyrir en Jón Einar og samstarfsfólk vonast til að kortleggja hversu oft og hvers vegna æðarkollur skipta um hreiðurstæði og hvernig þær velja hreiðurstæði.

„Fuglar eru eitt það besta sem við höfum til að fylgjast með hvernig umhverfið breytist og dýralíf lagar sig að því. Við lifum á tímum þar sem menn ganga taumlaust á náttúruna en segjast vilja vernda hana um leið. Æðarfugl er núna á válista bæði á Íslandi og á heimsvísu eftir talsverða fækkun frá aldamótum. Þessi rannsókn leitast við að skýra breytileika meðal einstaklinga og hvaða afleiðingar breytileikinn hefur fyrir afkomu og varpárangur.“

Jón Einar segir að rannsóknin hafi einnig samfélagslegt gildi sem felist í þeim áhuga sem Íslendingar hafi almennt á afdrifum fugla. „Í þessu tilfelli er líka mikill áhugi frá fólki sem stundar æðardúntekju. Mjög margir hafa tengingar við þennan heim í gegnum fjölskyldu eða kunningja.“

Rannsóknir á fuglum eru mikilvægar

Fuglar eru Íslendingum hjartfólgnir og koma þar við sögu nokkurs konar ofurkraftar þeirra sem gera þeim kleift að snúa á þyngdaraflið og fljúga. Þess vegna tengja þá margir við frelsið. Þeir boða líka langþráð vor. „Lóan er komin að kveða burt snjóinn,“ orti þjóðskáldið Páll Ólafsson. 

Og rannsóknir á þeim eru líka mjög mikilvægar. „Mikilvægi fuglarannsókna blasir við okkur sé horft eftir því að fuglar eru alls staðar, í öllum heimsálfum og á öllum búsvæðum. Þeir gegna lykilhlutverkum í vistkerfum og skilningur okkar á vistkerfum byggir mikið á fuglarannsóknum. Fyrir fólk eru þeir mikilvægir í listum, trúarbrögðum og afþreyingu,“ segir Jón Einar.  

„Fuglar eru sérlega mikilvægir á Íslandi og eru stór hluti íslenskrar náttúru því annað dýralíf er fábrotið. Áhugi fólks á fuglum hefur stóraukist á undanförnum árum en það eru enn tiltölulega fáir sem stunda rannsóknir. Við höfum skyldum að gegna gagnvart náttúru Íslands og öflun þekkingar er ein þeirra. Rannsóknir og miðlun þekkingar er mikilvæg til að viðhalda meðvitund um náttúruna og þar með skynsamlega vernd og nýtingu.“