Skip to main content

Grjótkrabbi við Ísland

Grjótkrabbi við Ísland - á vefsíðu Háskóla Íslands

Árið 2006 fannst grjótkrabbi (Cancer irroratus) hér við land.  Það var fyrsti fundur krabbans utan Norður Ameríku en náttúruleg útbreiðsla hans er meðfram austurströnd Norður Ameríku frá S-Karólínu norður til Labrador. Að öllum líkindum barst grjótkrabbinn hingað til lands sem lirfa í kjölfestuvatni skipa og telst hann því sem framandi tegund í lífríki Íslands. Grjótkrabbinn er tiltölulega stór krabbategund sem getur orðið um 15 cm að skjaldarbreidd. Hann nýtir sér búsvæði frá fjöru og niður á allt að 750 metra dýpi.

Frá því að grjótkrabbinn fannst fyrst hér við land árið 2006 hefur Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum staðið að rannsóknum á honum sem beinast m.a. að útbreiðslu hans við landið, búsvæðavali, tímgun, lirfuþroskun, lirfuþéttleika í uppsjó, stofnstærðarmati, uppruna stofnsins og erfðabreytileika innan stofnsins. Náttúrustofa Suðvesturlands er helsti samstarfsaðili setursins í rannsóknum á grjótkrabba.