Dregið úr hættu frá jökulhlaupum | Háskóli Íslands Skip to main content

Dregið úr hættu frá jökulhlaupum

Baldur Bergsson, MS frá Líf- og umhverfisvísindadeild

„Jökulhlaup eru flóð sem koma undan jöklum og eru nánast árviss viðburður hér á landi. Þau orsakast aðallega af uppsöfnun vatns frá jarðhitakerfum undir jökli en líka vegna eldgosa undir jökli.“

Þetta segir Baldur Bergsson sem lagði í meistaraprófsverkefninu sínu í landfræði mat á þá hættu sem steðjað getur að ört vaxandi fjölda ferðamanna við Sólheimajökul.

„Ég lagði sérstaka áherslu á að kanna svokölluð smáhlaup sem hingað til hafa ekki verið talin með hefðbundnum jökulhlaupum. Í þeim tilvikum er það ekki endilega vatnsflaumur sem veldur mestri hættu heldur gasmengun tengd jarðhita.“
 

Baldur Bergsson

„Ég lagði sérstaka áherslu á að kanna svokölluð smáhlaup sem hingað til hafa ekki verið talin með hefðbundnum jökulhlaupum. Í þeim tilvikum er það ekki endilega vatnsflaumur sem veldur mestri hættu heldur gasmengun tengd jarðhita.“

Baldur Bergsson

Baldur valdi sér þetta rannsóknarefni sökum þess að ferðaþjónusta hefur algjörlega sprungið út við Sólheimajökul á síðasta áratug en að hans dómi hafði lítið verið hugað að hættum sem tengst geta minni háttar hlaupum úr jöklinum. „Ferðaþjónustufyrirtækin við jökulinn bjóða ferðafólki upp á jöklagöngur og því er afar mikilvægt að rétt sé brugðist við þegar slík flóð eiga sér stað,“ segir Baldur.

„Segja má að neistinn sem kveikti áhuga minn á þessu viðfangsefni hafi komið sumarið 2014. Þá fór ég að Sólheimajökli ásamt Melissu Anne Pfeffer, samstarfskonu minni hjá Veðurstofu Íslands og leiðbeinenda í verkefninu. Okkar starf fólst í að mæla gasmengun úr smáhlaupi. Mikil brennisteinsmengun reyndist þá á svæðinu sem var langt fyrir ofan öll heilsufarsleg viðmið. Svæðið var þrátt fyrir það opið almenningi.“

Baldur segir að rannsóknin hafi einnig snúist um að greina hversu tíð smáflóð af þessum toga séu og hversu meðvitaðir fulltrúar helstu ferðaþjónustufyrirtækjanna á svæðinu hafi verið varðandi hættuna af slíkum hlaupum. „Við tókum viðtöl við öryggisfulltrúa fjögurra stærstu ferðaþjónustufyrirtækjanna á svæðinu og við lögregluna til að meta skilning þessara aðila á hættunni. Við könnuðum einnig þær viðbragðsáætlanir sem til staðar voru. Almennt reyndist þekking öryggisfulltrúanna ekki nægjanleg gagnvart jökulhlaupum en einnig kom í ljós að smáhlaup undan Sólheimajökli eru tíðari en áður var talið. Fjögur slík hafa orðið á síðustu átta árum.“

Baldur segir að ferðaþjónustuaðilarnir séu í framhaldi af verkefninu meðvitaðri um helstu fyrirboða hlaupa, sem skipti verulegu máli. „Fyrirboðarnir eru fólgnir í breytingum á lit vatnsins sem sprettur undan jöklinum og í meiri brennisteinsfnyk. Ferðaþjónustuaðilar hafa einnig kynnt sér rýmingaráætlanir almannavarna og skilaboð þeirra um hættur sem er afar mikilvægt þar sem að tíminn til að forða sér getur verið naumur eftir að hlaup hefst.“

Leiðbeinendur: Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Lífog umhverfisvísindadeild, og Melissa Anne Pfeffer, sérfræðingur á sviði ösku- og efnadreifingar hjá Veðurstofu Íslands.