Skip to main content

Flestir telja stjórnvöld leyna upplýsingum

Jóhanna Gunnlaugsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild

Viðhorf almennings til upplýsingagjafar stjórnvalda er meginefni rannsóknar sem Jóhanna Gunnlaugsdóttir, prófessor í bókasafns- og upplýsingafræði, réðst í fyrri hluta árs 2012. „Mig langaði að kanna hvort almenningur teldi að stjórnvöld leyndu mikilvægum upplýsingum sem vörðuðu almannahag og opinber útgjöld,“ segir Jóhanna.

Kveikjan að rannsókninni var umfjöllun fjölmiðla. „Annars vegar fjölluðu þeir um að stjórnvöld héldu upplýsingum sem vörðuðu eignarhald, sölu á eignum og fyrirtækjum í almannaeigu og ráðstafanir á fé skattborgaranna leyndum fyrir almenningi. Í því sambandi gæti ég til dæmis nefnt að ekki virtust koma fram fullnægjandi skýringar á lögmæti fjárráðstafana vegna nokkurra fjármálafyrirtækja og sömuleiðis fullyrti InDefence-hópurinn að íslensk stjórnvöld hefðu leynt þjóðina ítrekað mikilvægum upplýsingum varðandi Icesave-málið. Hins vegar snertir rannsóknin umfjöllun sem varðaði almannahag og velferðarmál, svo sem iðnaðarsalt í matvælum, gallaða brjóstapúða og kadmíum í áburði sem mældist yfir leyfilegum mörkum. Allt þetta kom fólki í opna skjöldu og almenningur taldi að vara hefði átt við slíku,“ bendir Jóhanna á.

Jóhanna Gunnlaugsdóttir

„Mig langaði að kanna hvort almenningur teldi að stjórnvöld leyndu mikilvægum upplýsingum sem vörðuðu almannahag og opinber útgjöld.“

Jóhanna Gunnlaugsdóttir

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að meginþorri svarenda taldi að upplýsingum sem vörðuðu almannahagsmuni væri oft eða stundum leynt. „Að mati 90% svarenda gerði ríkisstjórnin það, 88% taldi að ráðuneytin gerðu slíkt, 78% sveitarfélögin, 76% þjónustustofnanir á vegum ríkisins og 80% að eftirlitsstofnanir á vegum ríkisins leyndu þess háttar upplýsingum. Einungis 2 til 3% svarenda taldi að það gerðist aldrei,“ segir Jóhanna og bætir við að meginhluti svarenda hafi talið að upplýsingum sem vörðuðu opinber útgjöld væri oft eða stundum leynt. „Það er alvarlegt að almenningur telji að stjórnvöld leyni upplýsingum í svo miklum mæli.“

Jóhanna bendir á að þetta sé í fyrsta sinn sem rannsókn sem þessi hafi verið gerð hér á landi og ekki hafi fundist sambærilegar erlendar rannsóknir. „Niðurstöðurnar gætu orðið stjórnvöldum ábending um að bæta upplýsingamiðlun þannig að samfélagið teldi sig upplýst um mikilvæga málaflokka sem varða almannahagsmuni og opinber útgjöld og almenningur á rétt á að vita um,“ segir Jóhanna að lokum.