Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 3. mars 2022

3/2022
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2022, fimmtudaginn 3. mars var haldinn rafrænn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson og Vigdís Jakobsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson. Siv Friðleifsdóttir boðaði forföll og varamaður hennar einnig.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Drög að rekstrarreikningi Háskóla Íslands 2021.
Jenný Bára gerði grein fyrir framlögðum drögum að rekstrarreikningi Háskóla Íslands fyrir árið 2021. Málið var rætt.

b.    Aldarafmælissjóður og fjármögnun verkefnisstofna stefnu Háskóla Íslands 2021-2026, HÍ26, á árinu 2022, sbr. síðasta fund.
Rektor og Guðmundur gerðu grein fyrir framlagðri tillögu fjármálanefndar um ráðstöfun fjár úr Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands á árinu 2022, þ.m.t. til verkefnastofna HÍ26, sbr. síðasta fund. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma.

Jenný Bára vék af fundi.

c.    Eignir Háskóla Íslands sem eru utan Fasteigna Háskóla Íslands ehf.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs. Rektor, Kristinn og Magnús Diðrik gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi eignir Háskólans sem ekki falla undir Fasteignir Háskóla Íslands ehf. og viðhald þeirra. Málið var rætt. Framkvæmda- og tæknisvið mun fylgja því eftir.
    
d.    Vatnstjón í byggingum Háskóla Íslands, sbr. fyrri fundi.
Inn á fundinn kom Áslaug Magnúsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu rektors, og fór ásamt Kristni yfir framvindu mála í kjölfar vatnstjóns sem varð í byggingum Háskóla Íslands í janúar 2021. Fram kom m.a. að óskað hefur verið eftir yfirmati á umfangi tjónsins. Málið var rætt og svöruðu Áslaug og Kristinn spurningum.

Áslaug og Kristinn viku af fundi.

3.    Tillaga að nýjum reglum um inntöku nemenda í grunnnám, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn komu Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og Gísli Fannberg, verkefnisstjóri hjá kennslusviði, og fóru yfir framlagða tillögu að nýjum reglum um inntöku nemenda í grunnnám í deildum Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Róbert spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Samþykkt samhljóða, en Isabel og Jessý sátu hjá.

Róbert og Gísli viku af fundi.

Fundarhlé.

4.    Stefna Háskóla Íslands 2021-2026, HÍ26.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, og greindi frá stöðu mála varðandi innleiðingu HÍ26 og valinna verkefnastofna stefnunnar. Málið var rætt.

Steinunn vék af fundi.

5.    Málefni siðanefndar Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Trausti Fannar Valsson, dósent, forseti Lagadeildar. Rektor og Trausti Fannar gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi siðanefnd Háskóla Íslands.

Samkvæmt starfsreglum siðanefndar er formaður hennar skipaður af háskólaráði skv. tilnefningu rektors. Félag prófessora og Félag háskólakennara skipa hvort sinn fulltrúa. Siðanefnd sem skipuð var í ársbyrjun 2020 til þriggja ára, þ.e. til ársloka 2022, hefur sagt af sér og því þarf að skipa nýja nefnd út skipunartíma fyrri nefndar. Rektor tilnefnir Aðalheiði Jóhannsdóttur, prófessor, sem formann nefndarinnar til ársloka 2022, og Félag háskólakennara hefur tilnefnt Ármann Höskuldsson, rannsóknaprófessor. Beðið er tilnefningar frá Félagi prófessora.
– Samþykkt einróma.

6.    Tillaga Íslensku- og menningardeildar um kjör tveggja heiðursdoktora.
Fyrir fundinum lá tillaga Íslensku- og menningardeildar um kjör tveggja heiðursdoktora, umsögn heiðursdoktorsnefndar og samþykkt deildarfundar og stjórnar Hugvísindasviðs.
– Kjör tveggja heiðursdoktora við Íslensku- og menningardeild staðfest.

7.    Bókfærð mál.
a.    Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.

– Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. til næsta aðalfundar eru þau Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, formaður, Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri Marel, Kristinn Aspelund, framkvæmdastjóri Ankeri ehf. og stjórnarmaður í Samtökum sprotafyrirtækja, Margrét Helga Ögmundsdóttir, dósent við Læknadeild, og Óli Jón Hertervig, skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg.

b.    Breytt skipan framkvæmdanefndar Háskóla Íslands vegna nýbyggingar fyrir Heilbrigðisvísindasvið, sbr. fund háskólaráðs 6. mars 2020.
– Samþykkt. Framkvæmdanefndin er skipuð þeim Guðmundi R. Jónssyni, framkvæmdastjóra miðlægrar stjórnsýslu, formaður, Kristni Jóhannessyni, sviðsstjóra framkvæmda-og tæknisviðs, Ólafi Pétri Pálssyni, prófessor, fulltrúa í háskólaráði, Ingu Þórsdóttur, forseta Heilbrigðisvísindasviðs, fulltrúa Heilbrigðisvísindasviðs, og Kristjáni Guðmundssyni, fulltrúa stúdenta við Heilbrigðisvísindasvið.
– Samþykkt.

c.    Skipun Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala.
– Samþykkt. Hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala er skipuð þeim Kristni Andersen, prófessor, formaður, tilnefndum af rektor HÍ, Sigríði Ólafsdóttur, lífefnafræðingi, tilnefndri af rektor, og Þorvarði Jóni Löve, prófessor og sérfræðilækni, tilnefndum af forstjóra Landspítala. Skipunartíminn er til 31. mars 2025.

d.    Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Tækniseturs ehf.
– Samþykkt. Stjórn Tækniseturs ehf. er skipuð þeim Margréti Ormslev Ásgeirsdóttur, fjárfestingastjóra hjá Brunni Ventures og frumkvöðli, formaður, Sigurði Magnúsi Garðarssyni, forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ, Ara Kristni Jónssyni, framkvæmdastjóra AwareGo, Ragnheiði Ingu Þórarinsdóttur, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, og Þór Sigfússyni, stjórnarformanni Sjávarklasans. Varamenn eru Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir, verkefnisstjóri á vísinda- og nýsköpunarsviði HÍ, og Alexander Jóhönnuson, frumkvöðull. Aðalfundur er fyrirhugaður 11. mars 2022.

e.    Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands ehf. (RHnet).
– Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands ehf. eru Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor, Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs. Varafulltrúar eru Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, og Ebba Þóra Hvannberg, prófessor.

f.    Frá persónuverndar- upplýsingaöryggisnefnd: Tillaga um stjórnkerfi upplýsingaöryggis.
– Samþykkt.

8.    Mál til fróðleiks.
a.    Framkvæmdanefnd Háskóla Íslands vegna undirbúnings flutnings starfsemi skólans í Sögu og starfshópur Menntavísindasviðs um undirbúning flutningsins.
b.    Fjárveitingabréf mennta- og menningarmálaráðuneytis, dags. 4. febrúar 2022.
c.    Úthlutun nýdoktorastyrkja 2022.
d.    Jafnrétti og háskólastöður. Framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum, janúar 2022.
e.    Ársskýrsla hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala 2021.
f.    Erindisbréf hæfnisnefndar til að undirbúa ákvörðun háskólarektors um ráðningu forseta Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.
g.    Þrjátíu og þrjú verkefni vísindamanna á sviði samfélagsvirkni fá styrk.
h.    Kveðja rektors til kandídata við brautskráningu 19. febrúar 2022.

i.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 22. febrúar 2022.
j.    Styrktarsjóðir Háskóla Íslands – mikilvægi þeirra og áhrif breytinga á skattalögum. Erindi rektors á fræðslufundi fyrir styrktarsjóði og almannaheillafélög, 24. febrúar 2022.
k.    Stofnanir ríkisins. Fjöldi, stærð og stærðarhagkvæmni. Ríkisendurskoðun, desember 2021.
l.    Íslenskir háskólar lýsa yfir stuðningi við Úkraínu.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.25.