Skip to main content
16. febrúar 2022

Þrjátíu og þrjú verkefni vísindamanna á sviði samfélagsvirkni fá styrk

Þrjátíu og þrjú verkefni vísindamanna á sviði samfélagsvirkni fá styrk - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands hefur veitt 33 styrki sem ætlað er að styðja við virka þátttöku akademískra starfsmanna í samfélaginu í krafti rannsókna þeirra og sérþekkingar. Styrkirnir miða að því að skapa akademísku starfsfólki í fullu starfi við Háskólann aukið svigrúm til „samtals við samfélagið“. Þetta er í þriðja sinn sem slíkum styrkjum er úthlutað og greinilegt að mikil þörf er fyrir stuðning við þennan mikilvæga þátt í starfsemi Háskólans. Að þessu sinni var úthlutað rúmlega 45,5 milljónum króna. 

Umsóknir bárust frá öllum fræðasviðum Háskólans auk Stofnunar rannsóknasetra HÍ. Kynjahlutfall styrkþega er nokkuð jafnt, 55 % konur og 45% karlar. 

Verkefnin sem fá styrk að þessu sinni endurspegla þá miklu fjölbreytni sem er í rannsóknastarfi á vegum Háskóla Íslands og ríkan vilja starfsfólks til að deila þekkingu sinni með samfélaginu.  

Meðal verkefnanna eru hlaðvarpsþættir og efni fyrir ýmsa miðla, forvarnir gegn streitu meðal stúdenta, stafræn þjónustugátt fyrir fjölskyldur alvarlegra veikra barna á gjörgæsludeildum, handbók um lýðræði, starfsnám tengt menningarmiðlun, bragðlaukaþjálfun fyrir barnafjölskyldur og skóla, spálíkan um álag á Landspítala vegna COVID-19, efni um líffræðilegan fjölbreytileika, jökla og hvali, handbók um kynheilbrigði og margt fleira sem nýst getur íslensku samfélagi á ýmsan hátt. 

Umsóknirnar voru mjög góðar og sýna það blómlega starf sem fram fer í Háskóla Íslands á sviði samfélagsvirkni og nýsköpunar. 

Háskóli Íslands þakkar öllum umsækjendum fyrir framlag þeirra til verkefna á sviði samfélagsvirkni. Styrkþegum er óskað hjartanlega til hamingju með styrkinn með von um að hann gagnist vel.

Nöfn þeirra sem hlutu styrk er að finna á vef Háskóla Íslands.

""