Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 2. mars 2023

3/2023

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2023, fimmtudaginn 2. mars var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Arnar Þór Másson, Brynhildur Ásgeirsdóttir, Davíð Þorláksson, Hólmfríður Garðarsdóttir, Katrín Atladóttir, Katrín Björk Kristjánsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Silja Bára R. Ómarsdóttir, Vilborg Einarsdóttir og Þorvaldur Ingvarsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson (á fjarfundi).

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og greindi Silja Bára frá því að hún myndi víkja af fundi undir dagskrárlið 5.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.

a.    Staða fjármála Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs. Rektor greindi frá fundum sem hann hefur átt með fulltrúum stjórnvalda um fjárhagsstöðu Háskóla Íslands og fjárveitingar til skólans á næstu árum, en í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er kveðið á um að fjármögnun háskóla á Íslandi skuli vera í samræmi við áætlanir Vísinda- og tækniráðs um að fjármögnun háskólastigsins á Íslandi verði sambærileg við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Þá greindi Halldór frá yfirstandandi vinnu í ráðuneytinu við endurskoðun líkans til að reikna út fjárþörf háskóla. Málið var rætt.

b.    Samstarf háskóla, yfirlit verkefna, sbr. síðasta fund.
Rektor fór yfir stöðu mála varðandi verkefni sem lúta að samstarfi háskóla og styrkt hafa verið af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Fram kom m.a. að verið er að ganga frá samningum um þau samstarfsverkefni sem hlotið hafa styrk og að áformað er af hálfu ráðuneytisins að auglýsa öðru sinni eftir styrkumsóknum á vordögum. Málið var rætt.

Halldór Jónsson vék af fundi.

c.    Kjaramál. Staða samninga, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs, og greindi frá stöðu mála varðandi gerð kjarasamninga við félög starfsfólks við Háskóla Íslands, en núgildandi samningar renna út 31. mars nk. og önnur tengd mannauðsmál. Málið var rætt.

Ragnhildur vék af fundi.

d.    Vatnstjón í byggingum Háskóla Íslands. Staða mála.
Inn á fundinn komu Erla Guðrún Ingimundardóttir, aðallögfræðingur á rektorsskrifstofu, og Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs. Greindu þau frá stöðu mála varðandi endurbætur húsnæðis og möguleg næstu skref í tengslum við bótaábyrgð vegna vatnstjóns sem varð í byggingum Háskóla Íslands í janúar 2021. Málið var rætt.

Erla Guðrún og Kristinn viku af fundi.

3.    Skoðunarferð í nýtt hús íslenskunnar við Suðurgötu.
Þegar hér var komið sögu var gert hlé á formlegri dagskrá fundarins og fulltrúum í háskólaráði ásamt helstu stjórnendum Háskólans boðið í skoðunarferð um nýtt hús íslenskunnar við Suðurgötu sem hýsa mun m.a. námsleið í íslensku í Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs.

4.    Samgöngu- og bílastæðamál á háskólasvæðinu. Staða mála, sbr. fund 12. janúar sl.
Að skoðunarferð lokinni var áfram haldið formlegri dagskrá. Inn á fundinn komu aftur þau Kristinn Jóhannesson og Ragnhildur Ísaksdóttir. Kristinn fór yfir stöðu mála varðandi samgöngu- og bílastæðamál á háskólasvæðinu, þ.m.t. fyrirkomulag og stýringu bílastæða, bættar almenningssamgöngur og uppbyggingu aðstöðu fyrir hjólreiðafólk. Málið var rætt og svöruðu Kristinn og Ragnhildur spurningum. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

Fulltrúar stúdenta lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um fyrirhugaða gjaldtöku, lýsa fulltrúar stúdenta yfir miklum áhyggjum af tímalínu framkvæmdanna. Mikilvægt er að vel verði komið að innleiðingu gjaldtökunnar, að samráð verði við hagaðila í nágrenninnu og góð upplýsingagjöf til bæði stúdenta og starfsfólks verði tryggð. Undirritaðar hafa áhyggjur af því að innleiðing verði ekki farsæl ef sett verður á gjaldtaka um áramót m.a. vegna þess að stúdentar hafa þá þegar gert ráðstafanir fyrir skólaárið og sérstaklega ef innleiðingu U-passa verður frestað. Því tölum við fyrir að gjaldtaka fyrir stúdenta og starfsfólk verði innleidd þegar skýr áætlun liggur fyrir um aðgerðir til að tryggja árangursríka innleiðingu fyrir öll hlutaðeigandi.

Fulltrúar stúdenta ítreka mikilvægi þess að U-passi á viðráðanlegu verði sé stúdentum til boða áður en eða samhliða því að gjaldskylda hefst á háskólasvæðinu, eins og fulltrúar stúdenta hafa áður talað fyrir. Leggjum við þá einkum áherslu á að skýr áform um U-passa, þá verð og tímasetning, verði komin áður en gjaldtaka er kynnt, ásamt öðrum viðeigandi úrræðum fyrir stúdentahópinn.

Fulltrúar stúdenta fagna að sjálfsögðu áformum háskólans í átt að vistvænna háskólasamfélagi og telja einstaklega mikilvægt að vandað verði til verka þannig að hagsmunir stúdenta séu tryggðir að öllu leyti.

Brynhildur Kristín Ásgeirsdóttir
Katrín Björk Kristjánsdóttir“

Kristinn, Ragnhildur og Silja Bára viku af fundi.

5.    Málefni Happdrættis Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Víðir Smári Petersen, dósent við Lagadeild og formaður stjórnar Happdrættis Háskóla Íslands (HHÍ). Greindi hann frá málefnum HHÍ. Málið var rætt.

6.    Bókfærð mál.

a.    Frá kennslusviði og Menntavísindasviði: Tillaga um viðbót við ákvæði til bráðabirgða í 47. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

b.    Frá kennslusviði: Viðbót vegna breytts heitis náms- og starfsráðgjafar, sbr. fund háskólaráðs 12. janúar sl.
– Samþykkt.

c.    Frá Menntavísindasviði: Tillaga að breytingu á heiti námsbrautar í Deild faggreinakennslu.
– Samþykkt.

d.    Tillaga að breytingu á starfsreglum háskólaráðs v/rafrænnar undirskriftar, sbr. fund ráðsins 12. janúar sl.
– Samþykkt.

e.    Frá öryggisnefnd Háskóla Íslands: Tillaga að áætlun um öryggi og heilbrigði.
– Samþykkt.

f.    Stjórn Menningar- og framfarasjóðs Ludvigs Storr.
– Samþykkt. Stjórnin er skipuð þeim David Pitt, framkvæmastjóra, Ebbu Þóru Hvannberg, prófessor, og Ara Karlssyni, lögmanni. Varamaður er Sigrún Nanna Karlsdóttir, prófessor. Skipunartíminn er til 15. mars 2026.

g.    Fulltrúar í stjórn Fasteigna Háskóla Íslands ehf.
– Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórninni eru Daði Már Kristófersson, prófessor, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu Háskóla Íslands, og Silja Bára R. Ómarsdóttir, prófessor og fulltrúi í háskólaráði. Varamaður er Katrín Atladóttir, verkfræðingur og fulltrúi í háskólaráði. Skipunartíminn er til eins árs í senn.

h.    Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. (Rhnet).
– Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. (Rhnet) eru Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor, Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs. Varafulltrúar eru Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, og Ebba Þóra Hvannberg, prófessor. Skipunartíminn er til eins árs í senn.

i.    Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Sprota ehf.
– Samþykkt. Stjórn Sprota hf. er skipuð Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, aðstoðarrektor vísinda, formaður, Arnari Þór Mássyni, ráðgjafa og fulltrúa í háskólaráði, og Elínu Soffíu Ólafsdóttur, prófessor. Skipunartími stjórnar er til eins árs í senn.

j.    Tillaga um að rektor skipi tilnefningarnefnd fyrir stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
– Samþykkt.

k.    Tillaga að viðbótarvottun Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði.
– Samþykkt.

l.    Samráðsnefnd um kjaramál.
– Samþykkt. Nefndin er skipuð Guðmundi R. Jónssyni, framkvæmdastjóra miðlægrar stjórnsýslu, sem kemur úr röðum prófessora, formaður, Ragnhildi Ísaksdóttur, sviðsstjóra mannauðssviðs, og Jenný Báru Jensdóttur, sviðsstjóra fjármálasviðs. Varamenn eru Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor og aðstoðarrektor vísinda (varamaður formanns), og Daði Már Kristófersson, prófessor. Skipunartími nefndarinnar rennur út 30. júní 2023.

7.    Mál til fróðleiks.
a.    Brautskráning kandídata í Háskólabíói 17. febrúar sl.
b.    Ávarp rektors við brautskráningu kandídata í Háskólabíói 17. febrúar sl.
c.    Tilnefning fulltrúa í stjórn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, sbr. síðasta fund.
d.    Viðtal við rektor í Fréttablaðinu 3. febrúar sl.
e.    Upplýsingafundur rektors 16. febrúar 2023.
f.    Háskóladagurinn 5. mars 2023.
g.   Ályktun frá Félagi prófessora við ríkisháskóla og Félagi háskólakennara um fjármögnun háskólastigsins á Íslandi.
h.   Ársskýrsla Gæðaráðs 2022.
i.    Traust til stofnana.
j.    Þakkarbréf frá félags- og vinnumarkaðsráðherra, dags. 1. febrúar 2023.
k.   Framtíðarsýn Aurora um rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins.
l.    Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands styrkir doktorsnema.
m.  Fréttabréf háskólavina, dags. 28. febrúar 2023.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.45.