Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 2. febrúar 2017

2/2017

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2017, fimmtudaginn 2. febrúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Erna Hauksdóttir, Eyrún Fríða Árnadóttir (varmaður fyrir Þengil Björnsson), Guðrún Geirsdóttir, Orri Hauksson, Ragna Árnadóttir, Ragna Sigurðardóttir, Stefán Hrafn Jónsson og Tómas Þorvaldsson. Fundinn sátu einnig Elín Blöndal, Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver hefði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a)    Rekstraryfirlit Háskóla Íslands fyrir árið 2016.
Jenný gerði grein fyrir rekstraryfirliti Háskóla Íslands fyrir árið 2016. Málið var rætt og svaraði Jenný spurningum ráðsmanna.

b)    Staða fjárhagsáætlanagerðar fyrir árið 2017.
Guðmundur gerði grein fyrir stöðu fjárhagsáætlanagerðar fyrir árið 2017. Fyrir fundinum lá minnisblað um viðmið fyrir starf undanþágunefndar, sbr. lið 2 í aðhaldsaðgerðum sem háskólaráð samþykkti á fundi sínum 12. janúar sl. Málið var rætt og lýstu ráðsmenn stuðningi við vinnulag undanþágunefndar.

c)    Greinargerð frá Háskóla Íslands vegna stefnu ríkisaðila í A-hluta fjárlaga til þriggja ára, sbr. 31. gr. laga um opinber fjármál.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, og gerði grein fyrir aðdraganda málsins og stöðu þess.

d)    Áætlun um verklegar framkvæmdir 2017-2024.
Fyrir fundinum lágu drög að framkvæmda- og fjármögnunaráætlun nýbygginga fyrir tímabilið 2015-2024. Guðmundur gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom í máli Guðmundar að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði kallað eftir þessum upplýsingum með skömmum fyrirvara.

3.    Skýrsla nefndar um endurskoðun deililíkans.
Inn á fundinn kom Magnús Lyngdal Magnússon, sérfræðingur hjá rektorsskrifstofu og formaður nefndar um deililíkan Háskóla Íslands og gerði grein fyrir skýrslu nefndarinnar. Málið var rætt og svaraði Magnús spurningum fulltrúa í háskólaráði. Skýrslunni og tillögum nefndarinnar verður beint til fjármálanefndar háskólaráðs til úrvinnslu.

4.    Tillaga að nýrri deildaskiptingu á Menntavísindasviði, sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lá endurskoðuð skýrsla nefndar um deildarskiptingu á Menntavísindasviði, sbr. síðasta fund. Í skýrslunni er gerð tillaga um fjölgun deilda fræðasviðsins úr þremur í fjórar og um heiti hinna nýju deilda. Í tillögunni er gert ráð fyrir að núverandi Kennaradeild verði skipt í tvennt, annars vegar í Deild kennslu- og menntunarfræði, sem leggur áherslu á menntun kennara yngri barna, allt frá leikskólaaldri að miðstigi grunnskólans, auk menntastjórnunar, hins vegar í Deild faggreinakennslu þar sem viðfangsefnið er fyrst og fremst menntun faggreinakennara í grunn- og framhaldsskólum. Þá er lagt til að stofnuð verði ný Deild menntunar og margbreytileika sem muni spanna vítt svið, m.a. uppeldis- og menntunarfræði, foreldrafræðslu, lýðræði, kynjafræði og sjálfbærni í menntun og þroskaþjálfafræði. Loks er gert ráð fyrir nýrri Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda sem hefur tómstunda- og félagsmálafræði, íþrótta- og heilsufræði, fæðuval og heimilisfræði, forvarnir og heilsueflingu að viðfangsefni. Auk þess verður diplómanám fyrir nemendur með þroskahömlun staðsett í deildinni. Til greina kemur að heiti deilda verði endurskoðað síðar. Málið var rætt.

– Tillaga Menntavísindasviðs að skiptingu sviðsins í fjórar deildir, Deild kennslu- og menntunarfræði, Deild faggreinakennslu, Deild menntunar og margbreytileika og Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, samþykkt einróma. Breytingin tekur gildi 1. júlí 2018, í upphafi háskólaársins 2018-2019.

5.    Erindi frá umboðsmanni Alþingis til háskólaráðs, dags. 19. janúar 2017.
Fyrir fundinum lágu drög að svari háskólaráðs við erindi frá umboðsmanni Alþingis, dags. 19. janúar 2017. Elín Blöndal og rektor gerðu grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt að rektor, í samráði við lögfræðing háskólans, gangi frá svari til umboðsmanns Alþingis f.h. háskólaráðs í samræmi við framlögð drög og umræður í háskólaráði.

6.    Málefni fræðasviða Háskóla Íslands. Kynning á starfsemi og áherslumálum Heilbrigðisvísindasviðs.
Inn á fundinn kom Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs og gerði grein fyrir starfsemi og áherslumálum sviðsins. Málið var rætt og svaraði Inga spurningum ráðsmanna.

7.    Málefni fræðasviða Háskóla Íslands. Kynning á starfsemi og áherslumálum Hugvísindasviðs.
Inn á fundinn kom Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs og gerði grein fyrir starfsemi og áherslumálum sviðsins. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum ráðsmanna.

8.    Bókfærð mál.
a)    Tillaga Verkfræði- og náttúruvísindasviðs f.h. Rafmagns- og tölvuverkfræðideildar að breytingu á heiti námsleiðar í tæknifræði, þ.e. að námsleiðin „orku- og umhverfistæknifræði“ fái heitið „iðntæknifræði“.
– Samþykkt.

b)    Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs f.h. Hjúkrunarfræðideildar vegna breytts fyrirkomulags kennslu á vormisseri 3. árs o.fl.
– Samþykkt.

c)    Tillaga Félagsvísindasviðs f.h. Viðskiptafræðideildar um nýja námsleið til MS-prófs í þjónustustjórnun. Samstarf við Líf- og umhverfisvísindadeild.
– Samþykkt.

9.    Mál til fróðleiks.
a)    Dagskrá hádegisfyrirlestraraðar Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands.
b)    Stjórn Sigrúnarsjóðs.
c)    Brautskráning kandídata frá Háskóla Íslands 18. febrúar 2017.
d)    Rafrænt fréttabréf Félagsvísindasviðs, janúar 2017.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.55.