Skip to main content

Hugsjónamaður leggur grunn að safni í kvennafræðum

Á fæðingardegi Bríetar Bjarnhéðinsdóttur hinn 27. september 2007 færði Landsbanki Íslands námsbraut í kynjafræði við Háskóla Íslands að gjöf safn bóka og tímarita um femínisma og kvennabaráttu. Safnið hafði áður verið í eigu Kvennaframboðsins, Kvennalistans og síðar tímaritsins Veru og innihélt það um 500 bækur sem fjalla um kvennafræði og baráttumál kvenna í áranna rás. Margar þeirra eru nú ófáanlegar. Þá geymir safnið einnig öll tölublöð Veru, sem var vettvangur umræðu um konur og kvenfrelsi og kom út á árunum 1982-2005, auk erlendra tímarita sem greindu frá hræringum í alþjóðlegum femínisma á því skeiði sem talið er að hann hafi haft mest áhrif á heimsvísu.     

Stóran hluta safnsins gaf upphaflega Baldur Guðmundsson, sem var öryrki og lést snemma árs 1999. Hann var giftur Ástu Sigurðardóttur skáldkonu síðustu árin sem hún lifði. Baldur hafði þá hugsjón að styrkja íslenska kvennahreyfingu með ráðum og dáð og í því skyni eyddi hann hluta af örorkulífeyri sínum um hver mánaðamót til að kaupa bækur handa kvennahreyfingunni sem gætu nýst í baráttunni, enda áleit hann að meðvitund og menntun væri besta vopnið gegn kúgun og misrétti. Í minningarorðum um hann sögðu starfskonur Kvennalistans að hann hefði verið „einhver mesti og staðfastasti femínisti sem við höfum kynnst og eyddi megninu af tíma sínum og peningum í að útbreiða fagnaðarerindi kvenfrelsisbaráttunnar.“ Hann starfaði með Rauðsokkahreyfingunni, gekk til liðs við Kvennaframboðið og hélt tryggð við Kvennalistann og tímaritið Veru um árabil og hvatti til dáða.   

Baldur Guðmundsson

Úr minningargreinum um Baldur, en hann lést árið 1999.

Safnið er nú geymt í Landsbókasafni og nýtist þar fræðimönnum og nemendum í sagnfræði, kynjafræði og fleiri skyldum greinum m.a. til að rannsaka áherslur í kvennabaráttu hér á Íslandi og þróun hugmynda um kvenfrelsi í alþjóðlegu samhengi.