Skip to main content

Hvernig eflir tæknin skapandi færni barna?

Skúlína H. Kjartansdóttir, doktorsnemi og aðjunkt við Menntavísindasvið

Rannsóknarstofa um upplýsingatækni og miðlun (RANNUM) hefur að undanförnu tekið þátt í stóru alþjóðlegu samstarfsverkefni um börn og notkun stafrænna miðla. Verkefnið ber heitið MakEY (Makerspaces in the early years) og er styrkt af Evrópusambandinu. Óhætt er að segja að verkefnið sé afar viðamikið en þátttakendur koma frá sex Evrópulöndum auk Íslands, þ.e. Danmörku, Þýskalandi, Finnlandi, Noregi, Rúmeníu og Bretlandi, en einnig Bandaríkjunum, Kanada, Kólumbíu og Ástralíu. Fulltrúar í íslenska rannsóknarhópnum eru frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Innoent og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Meginmarkmið verkefnisins eru fjórþætt: Að efla rannsóknir og nýsköpun á sviði stafræns læsis og sköpunarmáttar barna, auka rannsóknarfærni þátttakenda verkefnisins á þessu sviði, þróa tengslanet rannsakenda, starfsfólks í skapandi greinum og geta veitt ráðgjöf um rannsóknir, stefnumótun og þjálfun í því hvernig nýsköpunarsmiðjur fyrir 3-8 ára börn geti þróast í bæði formlegu og óformlegu námsumhverfi.

Strax á unga aldri eru börn orðin vön gagnvirku umhverfi snjalltækja og sitthvað bendir til að notkun slíkra tækja örvi sköpunargáfu barna og ímyndunarafl. „Markmið MakEYverkefnisins er að skoða hvernig tækni- og sköpunarsmiðjur geti eflt stafrænt læsi, hönnunarlæsi og skapandi færni barna á aldrinum 3-8 ára. Einnig að efla rannsóknir og nýsköpun á sviði stafræns læsis og sköpunarmátt barna í þeim tilgangi að auka samkeppnishæfni og hagvöxt í Evrópu,“ segir Skúlína H. Kjartansdóttir, doktorsnemi og aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og ein þeirra sem fer fyrir íslenska rannsóknarhópnum.

„Markmið MakEYverkefnisins er að skoða hvernig tækni- og sköpunarsmiðjur geti eflt stafrænt læsi, hönnunarlæsi og skapandi færni barna á aldrinum 3-8 ára. Einnig að efla rannsóknir og nýsköpun á sviði stafræns læsis og sköpunarmátt barna í þeim tilgangi að auka samkeppnishæfni og hagvöxt í Evrópu.“

Skúlína H. Kjartansdóttir, doktorsnemi og aðjunkt við Menntavísindasvið

Tilurð verkefnisins má rekja til þess að enn eru takmarkaðar upplýsingar til um það stafræna læsi og læsisreynslu sem evrópsk börn eru að tileinka sér. „Það leikur lítill vafi á að ung börn eru að verða fastagestir í stafrænni veröld sem getur haft á þau margvísleg áhrif. Þetta er verðugt athugunarefni fyrir þá sem starfa við menntun því hæfni á þessu sviði er verðmæt fyrir framtíð þessara barna og nauðsynleg fyrir samfélag sem vill byggja á nýsköpun og geta endurskipulagt starfsemi sína í takt við tækniþróun,“ bætir Skúlína við, en ljóst er að verkefni af þessu tagi er afar mikilvægt við stefnumörkun í menntamálum.

Ýmislegt er á döfinni hjá rannsóknarhópnum en áætlað er að verkefninu ljúki árið 2019. „Hópurinn mun halda áfram skiptiheimsóknum til annarra samstarfsaðila en nú þegar hafa nokkrar ferðir verið farnar í þeim tilgangi að að kynna sér starfsemi nýsköpunarsmiðja og hafa samráð við erlent vísindafólk. Hluti hópsins hefur unnið að fræðilegum grunni og útvíkkun rannsókna og þá hefur gögnum verið safnað með könnun meðal kennara ungra barna og fagfólks á söfnum um viðhorf þeirra til nýsköpunarsmiðja þar sem vinna fer fram með stafræna tækni (tæknismiðjur, gerver og snillismiðjur). Enn fremur er gert ráð fyrir að gera nokkrar tilviksrannsóknir á Íslandi um það umhverfi sem gerver spretta úr og uppsetningu þeirra á næstu mánuðum.“