Skip to main content

7. háskólaþing 9. desember 2011

7. háskólaþing Háskóla Íslands

haldið 9. desember 2011 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13.00-15.40

Dagskrá
Kl. 13.00 – 13.05    Rektor setur háskólaþing, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir fundargögnum.
Kl. 13.05 – 13.20    Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands.
Kl. 13.20 – 13.40    Dagskrárliður 2. Framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands.
Kl. 13.40 – 14.20    Dagskrárliður 3. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Drög að sjálfbærni- og umhverfisstefnu.
Kl. 14.20 – 14.40    Fundarhlé.
Kl. 14.40 – 15.40    Dagskrárliður 4. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Mögulegar aðgangstakmarkanir við Háskóla Íslands.
Kl. 15.40    Rektor slítur háskólaþingi.

Kl. 13.00-13.05
Fundarsetning

Rektor setti háskólaþing og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Háskólaþing er haldið í samræmi við lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 sem tóku gildi 1. júlí 2008 og var þetta 7. háskólaþing (sem áður hét háskólafundur) Háskóla Íslands. Sérstaklega bauð rektor velkomna þá fulltrúa sem mættir voru í fyrsta sinn á þingið, gesti frá öðrum stofnunum og fulltrúa stúdenta sem gáfu sér tíma til að sitja þingið þrátt fyrir annir vegna prófa.

Fundargerð síðasta háskólaþings var send fulltrúum fyrir þingið og bárust engar athugasemdir við hana. Þá gerði rektor grein fyrir tímaáætlun og gögnum fundarins og fól Magnúsi Diðriki Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu og gæðastjóra háskólans að vera fundarritari.

Kl. 13.05-13.20
Dagskrárliður 1
Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands

Rektor fór yfir helstu verkefni umliðins vetrar og stærstu mál framundan í starfi Háskóla Íslands.

Aldarafmæli Háskóla Íslands
Hinn 7. janúar var haldinn opinn fundur í Hátíðasal þar sem kynnt var dagskrá Háskóla Íslands á aldarafmælisárinu og jafnframt kynnt ný Stefna Háskóla Íslands 2011-2016. Afmælisdagskráin stóð allt árið og var afar fjölbreytt.

Hátíðarfundur í Alþingishúsinu
Á þjóðhátíðardaginn 17. júní var haldinn sérstakur hátíðarfundur í Alþingishúsinu til minningar um að Háskóli Íslands var stofnaður þar og hafði aðsetur í þinghúsinu í tæp 30 ár. Að loknum hátíðarfundinum var afhjúpaður minningarskjöldur um veru háskólans í húsinu og færði forseti Alþingis rektor f.h. Háskóla Íslands að gjöf glerlistaverk eftir Sigrúnu Ó. Einarsdóttur.

Öndvegisfyrirlesarar
Á aldarafmælisárinu stóðu öll fræðasvið skólans fyrir öndvegisfyrirlestrum með heimsþekktum vísindamönnum. Heilbrigðisvísindasvið reið á vaðið 21. maí með fyrirlestri Elizabeth Blackburn, prófessors við UCSF og nóbelsverðlaunahafa í læknavísindum, og 2. júní hélt  Françoise Barré-Sinoussi, nóbelsverðlaunahafi í líf- og læknavísindum síðari öndvegisfyrirlestur fræðasviðsins. Hinn 1. september var röðin komin að Menntavísindasviði og var öndvegisfyrirlesari þess Linda Darling-Hammond, prófessor við Stanford háskóla, School of Education. Rúmri viku síðar, 9. september, flutti Noam Chomsky, prófessor í málvísindum við MIT og þjóðfélagsrýnir, öndvegisfyrirlestur Hugvísindasviðs fyrir fullu Háskólabíói. Hinn 3. október hélt síðan Robert David Putnam, prófessor við Harvard háskóla, School of Government, fyrirlestur í Hátíðasal og loks flutti Henry Petroski, prófessor í byggingarverkfræði og sagnfræði við Duke háskólann í Norður-Karólínu, síðasta öndvegisfyrirlestur aldarafmælisársins á vegum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs 29. október.

Hátíðarfyrirlestrar rektors
Á árinu voru ennfremur haldnir nokkrir hátíðarfyrirlestrar rektors. Fyrsta fyrirlesturinn flutti Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands, og bar hann heitið “Hönnun manns – hvernig maðurinn skapast af samspili erfða og umhverfis” og var fluttur í Hátíðasal 15. janúar. Annan fyrirlesturinn flutti Hilmar B. Janusson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Össurar hf., 7. maí og var viðfangsefnið “Hreyfing mannsins. Frá hreyfihömlun til afreka. Hvernig geta verkfræðilegar lausnir fyrir hreyfihamlaða orðið hreyfingu allra til framdráttar?” Hinn 28. október var þriðji hátíðarfyrirlestur rektors fluttur og var fyrirlesari Nemat Shafik, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Nefndi hún fyrirlestur sinn “Global Economic Challenges and Fostering Future Prosperity”.

Vísindamiðlun fyrir ungt fólk
Allt afmælisárið var boðið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir börn og unglinga bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Háskóli unga fólksins var starfræktur um vorið á háskólalóðinni og hélt að því búnu í ferð með svokallaðri “Háskólalest” sem hafði viðkomu víða á landsbyggðinni. Um borð í Háskólalestinni voru einnig Vísindavefurinn, Sprengjugengið og valinn hópur vísindamanna háskólans. Um haustið tók Háskóli Íslands þátt í tónvísindasmiðju Bjarkar Guðmundsdóttur í Hörpu og tók þar hópur doktorsnema og vísindamanna þátt í vinnustofum með börnum og unglingum þar sem fléttað var saman listum, vísindum og nýsköpun. Þá voru sýndir þrír vandaðir sjónvarpsþættir í RÚV um vísindastarf í Háskóla Íslands.

Hátíðarmálþing og afmælishátíð í Hörpu
Hápunktur afmælisársins var hátíðarmálþing Háskóla Íslands um “Áskoranir 21. aldar” sem haldið var í Háskólabíói 7. október og afmælishátíð undir yfirskriftinni “Fjársjóður framtíðar” sem fram fór í Hörpu 8. október.

Úthlutanir úr styrktarsjóðum Háskóla Íslands
Í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands var tvívegis á árinu úthlutað styrkjum til doktorsnema, úr Háskólasjóði h/f Eimskipafélags Íslands. Fóru úthlutanirnar fram við hátíðlega athöfn 19. maí og 11. október og var heildarfjárhæð styrkjanna samtals 100 m.kr.

Af úthlutunum úr öðrum styrktarsjóðum má nefna Menningar- og framfarasjóð Ludvigs Storr og Þórsteinssjóð.

Hátíð brautskráðra doktora 1. desember 2011
Á fullveldisdaginn, 1. desember, var í fyrsta sinn efnt til sérstakrar hátíðar brautskráðra doktora frá Háskóla Íslands. Fór athöfnin fram í Hátíðasal og var öllum brautskráðum doktorum á tímabilinu frá 1. desember 2010 til 1. desember 2011 boðið til hennar ásamt leiðbeinendum þeirra og öðrum boðsgestum. Fengu nýdoktorarnir m.a. afhent gullmerki Háskóla Íslands. Er gert ráð fyrir að hátíð brautskráðra doktora verði árlegur viðburður framvegis.

Hátíðarhöld 1. desember
Að vanda var efnt til fjölmargra viðburða á fullveldisdaginn 1. desember. Um morguninn lögðu stúdentar krans á leiði Jóns Sigurðssonar í kirkjugarðinum við Suðurgötu og að því búnu var haldin messa í kapellu Háskóla Íslands í Aðalbyggingu. Síðar um daginn fór svo fram athöfn í Aðalbyggingu þar sem borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, tilkynnti að í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands myndi Reykjavíkurborg færa skólanum lóð undir framtíðaruppbyggingu hans á svonefndu Fluggarðasvæði í Vatnsmýrinni.

Aldarafmælissjóður Háskóla Íslands
Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, tilkynnti á hátíðarfundi Alþingis 15. júní um stofnun Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands. Markmið sjóðsins er að efla rannsóknir og nýsköpun til uppbyggingar atvinnulífs og verðmætasköpunar í þágu íslensks samfélags og þjóðar. Við mat á árlegu fjárframlagi til sjóðsins verður höfð hliðsjón af því hvernig miðar í sókn Háskóla Íslands að markmiðum eins og þau eru sett fram í stefnu skólans. Hinn 1. september skipaði forsætisráðherra síðan starfshóp til að gera tillögur um framlög í aldarafmælissjóðinn til ársins 2020 og tilkynnti ráðherrann um niðurstöðuna á afmælishátíð Háskóla Íslands í Hörpu 8. október. Í meginatriðum er gert ráð fyrir að framlög til sjóðsins fari stighækkandi uns heildartekjur Háskóla Íslands verði orðnar sambærilegar við meðaltal OECD ríkja árið 2016 og sambærilegar við meðaltal Norðurlanda árið 2020. Fjármögnun sem upp á vantar til að ná þessum markmiðum skiptist þannig að ríkisframlög munu nema tveimur þriðju hlutum og Háskóli Íslands aflar sértekna sem nema einum þriðja hluta. Gert er ráð fyrir að samningur um fjárframlög ríkisins í Aldarafmælissjóðinn verði árangurstengdur, sbr. mælikvarða í stefnu Háskóla Íslands 2011–2016 og mælikvarða sem notaðir eru í stefnumótun um samkeppnishæfni ríkja (t.d. World Economic Forum, Denmark in the Global Economy, Competitiveness Report).

Tekin hefur verið ákvörðun um skiptingu stofnframlags úr Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands og greinist hún í meginatriðum í sameiginleg verkefni og sérhæfð verkefni. Meðal sameiginlegu verkefnanna eru stuðningur við umsóknir í samkeppnissjóði, samstarf við erlenda háskóla vegna doktorsnáms, samstarf við erlendar stofnanir vegna sameiginlegra UT-námskeiða og undirbúningur siðfræðináms á öllum fræðasviðum. Meðal sérhæfðu verkefnanna má nefna orkuvísindi, þverfræðilegar rannsóknir og kennslu um málefni norðurslóða, jarðvísindi, samþættingu kennaranáms og sérfræðináms, miðaldafræði, listfræði, tengingu rannsókna- og þróunarverkefna við skólastarf og menntakerfið, lýðheilsu, krabbameinsrannsóknir og lýðræði og dreifingu valds í íslensku samfélagi eftir hrun.

Times Higher Education World University Rankings 2011-2012
Skömmu fyrir afmælishátíð Háskóla Íslands í Hörpu 8. október bárust þau ánægjulegu tíðindi að á nýjasta matslista Times Higher Education World University Rankings fyrir tímabilið 2011-2012 er Háskóli Íslands skráður í 276. sæti yfir bestu háskóla í heimi. Er þetta mikil viðurkenning fyrir skólann, enda eru um 17.000 háskólar í heiminum og Háskóli Íslands því meðal þeirra 2% fremstu.

Fjárlagafrumvarp 2012 – eftir 2. og 3. umræðu
Að endingu vék rektor að fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Íslands fyrir árið 2012. Greindi rektor frá því að eftir 2. og 3. umræðu um frumvarpið væru helstu tíðindi þau að gert væri ráð fyrir hækkun skrásetningargjalds úr 45.000 kr. í 60.000 kr., framlögum í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands og að ritlaunasjóður færðist inn til ríkisháskólanna, samkvæmt samkomulagi þar um, í stað þess að vera sérstakur fjárlagaliður. Á heildina litið mætti gera ráð fyrir að Háskóli Íslands hefði sambærilega fjárveitingu árið 2012 eins og árið 2011 að teknu tilliti til verðlagsbreytinga og miðlægra launahækkana.

Kl. 13.20-13.40
Dagskrárliður 2
Framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016

Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016.  

Yfirlit
•    Stefnumótunarvinna fór fram á árinu 2010
•    Stefna Háskóla Íslands 2011-2016 var samþykkt á háskólaþingi 7. desember 2010 og í háskólaráði 17. desember 2010.
•    Nýja stefnan var kynnt opinberlega í Hátíðasal í upphafi afmælisárs Háskóla Íslands 7. janúar 2011.
•    Nýja stefnan tók formlega gildi 1. júlí og var framkvæmdaáætlun samþykkt í háskólaráði í kjölfarið.
•    Fulltrúar á háskólaþingi fengu sent ítarlegt skjal um framkvæmd stefnunnar fyrir þingið.
•    Í yfirlitinu eru öll 86 markmið og aðgerðir stefnunnar listuð upp og tilgreindir árangursmælikvarðar, tímaáætlun og verklok, frumkvæði, eftirlit, ábyrgð á framkvæmd og upplýsingum og loks útfærsla og staða.

Staða einstakra markmiða og aðgerða
•    Í yfirlitinu er staða hvers markmiðs/hverrar aðgerðar auðkennd með litamerkingu og merkir grænn litur að verkefninu sé lokið, gulur litur að það sé í vinnslu og rauður litur að verkefnið sé enn ekki hafið.
•    Eðli máls samkvæmt tekur skjalið breytingum og er í sífelldri endurskoðun.

Umsjón
•    Ritnefnd heildarstefnunnar fylgist með framkvæmdaáætlun og uppfærir hana:
-    Kristín Ingólfsdóttir, rektor,
-    Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu,
-    Róbert H. Haraldsson, formaður kennslumálanefndar háskólaráðs,
-    Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs,
-    Magnús Diðrik Baldursson, gæðastjóri.
•    Staða mála varðandi framkvæmd stefnunnar verður kynnt og rædd reglulega á háskólaþingi, í háskólaráði, á fundum rektors með forsetum fræðasviða og víðar.

Verkefni fræðasviða og deilda
•    Fræðasvið meti á eigin forsendum hvar þau eru stödd og hvað þau geti lagt af mörkum til heildarstefnu Háskóla Íslands.
•    Verkefni forseta fræðasviða og deildarforseta.
•    Fagleg stefnumótun fræðasviða og deilda, m.a.:
-    Skipulegur alþjóðlegur samanburður.
-    Samþætting kennslu og rannsókna.
-    Samþætting faglegs náms og siðfræði.
-    Aukið formlegt gæðastarf, s.s. um skilgreiningu hæfniviðmiða, mat á námseiningum, námsmat, kennsluhætti, starfsmannasamtöl, stuðning við nemendur, eftirfylgni kennslukönnunar o.fl.
-    Fagleg stefnumótun og skipulegt gæðastarf er reglulegur þáttur í starfi fræðasviða og deilda.
-    Nýtist jafnframt í tengslum við fagúttektir gæðaráðs.
-    Rammi fyrir kennslustefnu fræðasviða og deilda væntanlegur.
-    Mikilvægt að taka frumkvæði og vera vel undirbúin fyrir væntanlegar gæðaúttektir.

Rektor gaf orðið laust.

Kjörinn fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs þakkaði rektor fyrir kynninguna og lýsti ánægju sinni með nýja Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 og skipulega eftirfylgni með henni. Gerði fulltrúinn sérstaklega að umtalsefni kaflann um rannsóknir og nýsköpun og þá áherslu sem þar er lögð á aðstöðu til rannsókna og nýsköpunar. Taldi hann afar mikilvægt að huga vel að stuðningi við þessi markmið og fjárframlög vegna húsnæðis og tækjakosts í tilraunavísindum.

Forseti Matvæla- og næringarfræðideildar vakti máls á markmiði stefnunnar um aukna sókn í innlenda og erlenda samkeppnissjóði vegna rannsókna og hvatti hann til að deildarforsetar legðu á ráðin um hvernig þeir gætu lagt þessu máli lið og hvaða stuðnings þeir mættu vænta.

Rektor svaraði því til að í tengslum við Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands væri gert ráð fyrir sérstökum stuðningi vegna aðstöðu til rannsókna og nýsköpunar og einnig væri þar gert ráð fyrir fjármunum til að efla stoðþjónustu vegna gerðar umsókna um styrki úr samkeppnissjóðum.

Varaforseti Sagnfræði- og heimspekideildar ræddi um markmið stefnunnar og Aldarafmælissjóðsins um samþættingu faglegs náms og siðfræði og spurði hver staða mála væri varðandi framkvæmd þessa markmiðs.

Svaraði rektor að við úthlutun stofnframlags til Aldarafmælissjóðs hefði verið ákveðið að ráðast í framkvæmd þessa markmiðs og yrði í því sambandi væntanlega leitað til Hugvísindasviðs og Siðfræðistofnunar.

Forseti Uppeldis- og menntunarfræðideildar fjallaði um markmið stefnunnar um málefni innflytjenda við Háskóla Íslands. Sagði hún brýnt að styðja við þennan hóp og tryggja að hann hefði aðgang að háskólamenntun.

Að lokum hvatti rektor fulltrúa á háskólaþingi til að koma á framfæri við sig ábendingum um hvernig best væri að standa að framkvæmd einstakra stefnumiða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Már Másson, Inga Þórsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Hanna Ragnarsdóttir.

Kl. 13.40-14.20
Dagskrárliður 3
Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Drög að sjálfbærni- og umhverfisstefnu

Rektor greindi frá því að í Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 væri kveðið á um að Háskóli Íslands myndi setja sér skýra sjálfbærni- og umhverfisstefnu. Málið hefði verið kynnt á síðasta háskólaþingi og hefði þá verið ákveðið að sérstakur starfshópur myndi vinna drög að sjálfbærni- og umhverfisstefnu sem yrði lögð fram á þessu háskólaþingi. Bauð rektor Allyson Macdonald, prófessor við Menntavísindasvið og formann starfshópsins, að kynna afrakstur vinnunnar.

Yfirlit
    Skilningur á sjálfbærni.
    Hugmyndir og heimildir.
    Nálgun (3 x 3).
    Útfærsla – átta efnisflokkar.
    Áhersla á sjálfsmat (8 x 4).
    Til umræðu.

Náttúra – samfélag – efnahagur
•    Tengsl þessara þátta fyrr.
•    Tengslin nú.

Takmörk náttúrunnar og “hið góða líf”
•    Tengsl þessara þátta fyrr.
•    Tengslin nú.

Hugmyndir og heimildir
•    Rannsóknir á sjálfbærni í háskólum.
•    Stefna nokkurra háskóla.
•    Efnisflokkar
-    Talloires spurningarammi.
-    Sjö þættir urðu að átta efnisflokkum.
-    Rammi fyrir sjálfsmat.

Sjálfbærni og umhverfismál eru mál allra!
•    Kennara.
•    Nemenda.
•    Annars starfsfólks.
-    Rektorsskrifstofa.
-    Kennslusvið.
-    Félagsvísindasvið.
-    Markaðs- og samskiptasvið.
-    Heilbrigðisvísindasvið.
-    Starfsmannasvið.
-    RHÍ, Kennslumiðstöð o.fl.
-    Verkfræði- og náttúruvísindasvið.
-    Stofnanir.
-    Fjármálasvið.
-    Menntavísindasvið.
-    Framkvæmda- og tæknisvið.
-    Hugvísindasvið.
-    Vísindasvið.

Hlutverk háskólans
•    Að vera fyrirmynd
•    Að hafa áhrif

Nálgun – Rannsóknir og kennsla
•    Tryggja akademískt frelsi í rannsóknum og kennslu en auka siðferðilega ábyrgð.
•    Þverfræðileg nálgun og dýpt sótt í einstakar fræðigreinar.
•    Nám og kennsla
-    Námsframboð og kennsluhættir

Nálgun – samfélagsleg ábyrgð
•    Daglegt líf háskólaborgara.
-    Lífshættir og vellíðan.
•    Tengsl Háskóla Íslands við samfélagið.
-    Efla samvinnu.

Nálgun – innra skipulag og rekstur
•    Skipulag, hönnun og rekstur.
-    Vistvæn hugsun í verki; vottanir, sorpflokkunarkerfi.
•    Starfsþróun og hvatning
-    Hlúa að starfsfólki og veita því stuðning.
-    Framlag starfsfólks metið að verðleikum.
•    Heildarstefna
-    Byggist á sameiginlegri ábyrgð.

Nálgun – framkvæmd
•    Í framlögðum drögum er reynt að tvinna saman hugmyndafræði og framkvæmd:
-    Hver eining leggur mat á eigin frammistöðu.
-    Nýtum aðferðir og tæki sem gefist hafa vel sem samrýmast hugmyndinni um sameiginlega ábyrgð og tengsl við samfélagið og aðra háskóla víða um heim.

Til umræðu
•    Siðferðileg ábyrgð – hver ber hana?
•    Þróun – hvernig komumst við áfram?
-    Starfsnefnd um sjálfbærni og umhverfismál.
-    Stefnumörkun og þátttaka einstaklinga.
-    Söfnun upplýsinga og upplýsingagjöf.
-    Sjálfsmat og eftirfylgni.
-    Sameiginleg ábyrgð.

Rektor þakkaði Allyson fyrir framsöguna og gaf orðið laust.

Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs þakkaði fyrir kynninguna og óskaði starfshópnum til hamingju með gott starf. Sagði forsetinn stefnuna vera mikilvægt skref en mikið starf væri þó framundan og þörf á vitundarvakningu innan háskólasamfélagsins til að ná markmiðum stefnunnar.

Formaður starfshópsins benti á að stefnunni fylgdi skýr framkvæmdaáætlun sem skilgreindi áfangamarkmið og væri hugsuð sem hagnýt leiðsögn. Eitt mikilvægasta framkvæmdaatriðið væri að efna til fræðslu og umræðu um málefni sjálfbærni og umhverfis og slík umræða gæti með tíð og tíma stuðlað að þeirri vakningu sem forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs hefði vakið máls á.

Fulltrúi úr starfshópnum sagði það vera lykilatriði við framkvæmd sjálfbærni- og umhverfisstefnunnar að skipuð yrði sérstök nefnd sem hefði það hlutverk að fylgja stefnunni eftir. Jafnframt skipti miklu máli að virkja grasrótarstarf alls háskólasamfélagsins, sem væri þó fjarri því að vera auðvelt verkefni. Við undirbúning stefnunnar hefði starfshópurinn m.a. tekið viðtöl við fjölda fólks og hefðu þau leitt í ljós að skilningur fólks á sjálfbærni er afar ólíkur og jafnvel mótsagnarkenndur. Mikilvægt væri því að efna til umræðu og umhugsunar um málaflokkinn.

Forseti Líf- og umhverfisvísindadeildar vakti máls á þeim möguleika að deildir gerðu grein fyrir framlagi sínu til sjálfbærni- og umhverfismála við sjálfsmat í tengslum við fagúttektir gæðaráðs.

Forseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar þakkaði starfshópnum fyrir góða vinnu og sagði hana þarfa og tímabæra. Sagði deildarforsetinn mikilvægt að leggja fram með stefnunni skýra kostnaðaráætlun, því ljóst væri að mörg markmið hennar mætti útfæra á gerólíka vegu sem ýmist kostuðu mikla eða litla fjármuni.

Fulltrúi Félags háskólakennara velti upp þeirri spurningu hvort Háskóli Íslands ætti að stefna að umhverfisvottun sem kennd er við Grænfánann. Þá sagði fulltrúinn það skipta miklu máli að virkja nemendur til að stuðla að framgangi sjálfbærni- og umhverfisstefnunnar og beindi þeirri spurningu til starfshópsins hvað hann hefði hugsað sér í þeim efnum.

Forseti Heilbrigðisvísindasviðs þakkaði starfshópnum fyrir ágæta vinnu. Sagði hann það geta verið gagnlegt að brjóta sjálfbærni- og umhverfisstefnuna niður í skýr verkefni og áætlun um aðgerðir sem allt háskólasamfélagið geti sameinast um. Nefndi forsetinn nokkur áþreifanleg dæmi: Í nýlegu viðtali við arkitekt hefði kom fram að fyrir hvern fermetra húsnæðis flyttu íslenskir byggingaraðilar til 3 tonn af efni, en í öðrum löndum væri aðeins flutt til eitt tonn. Hér gæti Háskóli Íslands tekið forystu við væntanlega nýbyggingar sínar. Þá mætti nýta lóð Háskóla Íslands í ríkara mæli en verið hefur til trjáræktar. Nefndi forsetinn Skeifuna fyrir framan Aðalbyggingu sem dæmi. Í þriðja lagi varpaði forsetinn fram þeirri hugmynd hvort setja mætti upp hjólastanda víðar á háskólalóðinni og láta nemendum og kennurum í té reiðhjól sem þeir gætu tekið á einum stað og skilið eftir á öðrum.

Formaður starfshópsins brást við framkomnum ábendingum og athugasemdum. Sagði hún ekki skipta öllu máli að leggja í mikinn kostnað til að hrinda í framkvæmd markmiðum sjálfbærni- og umhverfisstefnunnar, enda yrði sjálfbærni aldrei keypt með peningum. Mikilvægara væri að reyna að hafa áhrif á viðhorf og daglega breytni hvers og eins. Lítil skref hjá hverjum og einum hefðu mikil áhrif þegar allt kæmi til alls. Af þessum sökum hefði starfshópurinn ekki gert tillögur um kostnaðarsamar aðgerðir heldur væri meðvitað miðað við þann þrönga fjárhagslega stakk sem háskólanum væri sniðinn. Varðandi þátttöku nemenda sagði formaður starfshópsins að þeirra væri getið í tengslum við langflest markmið stefnunnar – og þeir væru sannarlega fólgnir í hugtakinu “háskólaborgarar” sem notað væri í stefnunni.

Forseti Jarðvísindadeildar tók undir með kollega sínum úr Umhverfis- og byggingarverkfræðideild um að gagnlegt væri að setja skýr markmið og snjallar aðgerðir sem allir geti sameinast um, þótt hugarfarið skipti vissulega mestu máli. Þá gerði forsetinn sérstaklega að umtalsefni bílastæðamál á lóð Háskóla Íslands. Sagði hann eina gagnlegustu aðgerð til að draga úr bílastæðaþörfinni vera þá að hvetja til aukinnar notkunar reiðhjóla og í því sambandi þyrfti m.a. að bjóða upp á sturtuaðstöðu í byggingum skólans.

Forseti Hagfræðideildar vék að mikilli pappírsnotkun við Háskóla Íslands og hvatti til þess að sett yrðu markmið um að draga úr henni.

Rektor beindi þeirri spurningu til starfshópsins hvernig unnið væri að framgangi þessa málaflokka á lægri skólastigum á Íslandi.  

Formaður hópsins svaraði því til að sjálfbærni- og umhverfismál væru námsskrárþáttur í grunnskólum landsins og væri það verkefni hvers skóla að útfæra hann nánar. Sagði formaðurinn rannsóknir hafa leitt í ljós að við sömu hindranir væri að etja á öllum skólastigum og alstaðar glímdi fólk við sömu spurningar um sjálfbært verklag.

Rektor þakkaði starfshópnum fyrir góða vinnu, formanninum fyrir kynninguna og þingfulltrúum fyrir góðar umræður. Sagði rektor að þótt háskólanum væri þröngur fjárhagslegur stakkur sniðinn um þessar mundir væri hægt að hefja metnaðarfullt starf á sviði sjálfbærni og umhverfismála með því að nýta það stoðkerfi sem þegar væri fyrir hendi. Benti rektor einnig á að sjálfbærni- og umhverfismál væru mikið rædd í háskólum víða um lönd og því væri sjálfsagt að Háskóli Íslands tæki málið til sín og legði sig jafnframt fram um að læra af því sem best væri gert annarstaðar.

Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu um að drögin að sjálfbærni- og umhverfisstefnu Háskóla Íslands yrðu send til umsagnar í háskólasamfélaginu. Að því búnu myndi starfshópurinn vinna endanleg drög, með hliðsjón af ábendingum á háskólaþinginu og framkomnum umsögnum, svo unnt verði að ganga frá sjálfbærni- og umhverfisstefnu Háskóla Íslands á vormisseri 2012.

- Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk Allyson Macdonald og rektors, þau Kristín Vala Ragnarsdóttir, Karl Benediktsson, Sigurður I. Snorrason, Sigurður Magnús Garðarsson, Eva Benediktsdóttir, Sigurður Guðmundsson, Magnús Tumi Guðmundsson og Þórólfur Matthíasson.

Kl. 14.20-14.40
Fundarhlé

Kl. 14.40-15.40
Dagskrárliður 4
Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Mögulegar aðgangstakmarkanir við Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu og formaður starfshóps háskólaráðs um mögulegar aðgangstakmarkanir við Háskóla Íslands, kynnti málið.

Tillaga starfshóps um mögulegar aðgangstakmarkanir við Háskóla Íslands

Forsaga málsins
•    Í Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 er að finna ýmis markmið og aðgerðir sem stuðla að auknum gæðum náms og þátttöku, ástundun og ábyrgð í námi. Þannig segir m.a. í stefnunni: “Háskóli Íslands endurskoði stefnu sína um inntöku nýnema, inntökukröfur verði endurskilgreindar og markvisst unnið að því að auka námsástundun, bæta námsframvindu og draga úr brottfalli [...].”
•    Starf nefndar um inntöku nýnema og aðgerðir gegn brottfalli úr námi (“brottfallsnefnd”). Nefndin skilaði ítarlegri skýrslu sem var kynnt í háskólaráði 26. júní 2008 og á háskólaþingi 25. september sama ár.
•    Á fundi háskólaráðs 17. september 2009 var málið tekið upp að nýju og kennslumálanefnd, gæðanefnd og gæðastjóra falið að taka saman yfirlit um hvernig staðið er að inntöku nýnema í háskólum í nágrannalöndum okkar.  
•    Á fundi háskólaráðs 17. desember 2010 var ákveðið að skipa starfshóp um mögulegar aðgangstakmarkanir við Háskóla Íslands.

Starfshópur um mögulegar aðgangstakmarkanir við HÍ
•    Jón Atli Benediktsson, formaður hópsins.
•    Ásta Bjarnadóttir, forstöðumaður innlendra háskólasamskipta.
•    Magnús Diðrik Baldursson, gæðastjóri.
•    Róbert H. Haraldsson, formaður kennslumálanefndar.
•    Heimir Hannesson, stúdent (tók við af Sigrúnu Ingibjörgu Gísladóttur).

Tilgangur aðgangstakmarkana við HÍ
•    Einkum þríþættur tilgangur
-    Tryggja gæði náms og kennslu, bæta námsaðstæður.
-    Draga úr brottfalli og bæta námsárangur.
-    Fjárhagslegur.

Tillaga hópsins
•    HÍ taki upp aðgangstakmarkanir í námsleiðir
-    sem hafa verið fjölmennastar á fyrsta ári og
-    þar sem brottfall hefur verið mest.
•    Tilraunaverkefni vorið 2012
•    Meginkostir tillögunnar
-    Aukin gæði náms og kennslu.
-    Komið til móts við gagnrýni í úttektum.
-    Komist hjá óþarfa fjöldatakmörkunum við Háskóla Íslands.
•    Úrlausnarefni: Huga þarf að fjárhagslegri aðlögun.

Inntökupróf
•    Ekkert samræmt stúdentspróf á Íslandi.
•    Vandað inntökupróf notað eigi síðar en 2013.
•    Erlendar fyrirmyndir (t.d. Swe-SAT, SAT).
•    Almennt inntökupróf fæli í sér blöndu af þekkingarprófi (e. achievement) og getuprófi (e. ability) – 3-4 klst. að lengd.
•    Deildir gætu bætt við sértækum viðbótarprófhluta.

Kostnaður
•    Gróf kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir 14 m.kr. kostnaði fyrsta árið.
•    Mun lægri kostnaður á öðru ári (áætlaður 8 m.kr.).
•    Próftökugjald gæti dregið verulega úr kostnaði til frambúðar.

Framkvæmd og umsjón
•    Skriflegt próf færi fram í byrjun júní ár hvert
-    Huga þyrfti að endurtökuprófi og
-    rafrænni útfærslu.
•    Eftirtaldir hópar kæmu að þróunarverkefninu:
-    Þróunarhópur prófs.
-    Starfsmenn við þróun og úrvinnslu.
-    Verktakar við ritun spurninga.
-    Framkvæmdaaðilar við forprófun og fyrirlögn prófs.
-    Framkvæmdaaðilar við inntöku.
-    Stýrihópur fyrir innleiðingu.

Rektor þakkaði Jóni Atla fyrir kynninguna og gaf orðið laust.

Forseti Sálfræðideildar sagði Sálfræðideild vera í hópi þeirra deilda sem glímdu við þann vanda að nokkur hluti nemenda sem hefja nám við deildina stæðist ekki settar kröfur og því fagnaði deildin því að opnað væri fyrir umræðuna um mögulegar aðgangstakmarkanir og inntökupróf. Meginmarkmið aðgangstakmarkana væri að auka gæði náms og kennslu og veita nemendum betri þjónustu. Vissulega kæmi einnig til greina að bregðast við of mörgum nemendum með því að fjölga kennurum, en sökum niðurskurðar fjárveitinga væri ekki raunhæft að gera ráð fyrir því. Hins vegar væri mikilvægt að gera sér grein fyrir því að fækkun nemenda væri engin töfralausn. Miðað við núverandi forsendur hefði fækkun nemenda í för með sér tekjumissi og þar með væri yfirvofandi að markmið aðgangstakmarkananna glataðist. Taldi deildarforsetinn of lítið fjallað um þennan þátt málsins í tillögunum. Vissulega kæmi til greina að vinna gegn þessum áhrifum með því að bæta deildunum upp það fjárhagslega tap sem þær yrðu fyrir, en reynslan kenndi að slíkar aukafjárveitingar hefði tilhneigingu til að hverfa fyrr eða síðar og þá yrði deildin jafnvel enn verr sett en með núverandi nemendafjölda. Þegar öllu væri á botninn hvolft væri því farsælast að endurskoða þann reikniflokk sem sálfræðinámið væri í. Þá sagðist forseti Sálfræðideildar hafa efasemdir um að tímaáætlunin í tillögum starfshópsins um innleiðingu aðgangstakmarkana “í síðasta lagi árið 2013” væri raunhæf. Innleiðing aðgangstakmarkana krefðist mikils og vandaðs undirbúnings og því væri betra að gera ráð fyrir að þær yrðu innleiddar “í fyrsta lagi” árið 2013. Loks benti deildarforsetinn á að mikilvægt væri að allir sem vildu læra sálfræði fengju tækifæri til að spreyta sig á náminu, en það markmið væri í hættu með inntökuprófi, enda sýndi reynslan að geta nemenda í upphafi náms segði ekki alla söguna um námsgetu þeirra heldur styrktust þeir iðulega þegar liði á námið.

Forseti Lagadeildar þakkaði starfshópnum fyrir góða vinnu og fyrir að hafa átt þess kost að hitta hann að máli við undirbúning tillagnanna. Sagði forsetinn Lagadeild vera í hópi þeirra deilda sem hefðu áhuga á að innleiða aðgangstakmarkanir og ættu flest þau rök sem forseti Sálfræðideildar hefði nefnt einnig við um Lagadeild. Sagðist forseti Lagadeildar ekki vilja ræða tæknileg atriði málsins á vettvangi háskólaþings heldur meginhugmyndina. Ef markmiðið með aðgangstakmörkunum væri að auka gæði kennslu yrði það ekki gert nema með hagstæðara hlutfalli á milli fjölda nemenda og kennara. Ef nemendum fækkaði drægjust tekjurnar saman og þá þyrfti að fækka kennurum og viðkomandi deildir væru engu bættari. Varðandi inntökupróf skipti máli að allir sem það vildu fengju tækifæri til að spreyta sig á því og því þyrfti prófið að vera raunveruleg mæling á því sem máli skipti hjá væntanlegum nemendum í lögfræði. Ef unnt væri að vinna gegn ástæðum áhyggna Sálfræðideildar og Lagadeildar væri Lagadeild reiðubúin að taka þátt í þessu verkefni og engin ástæða til annars en að ganga rösklega til verks.

Forseti Viðskiptafræðideildar sagði deildina vera í hópi þeirra sem vildu taka upp inntökupróf. Sagði forsetinn að Hagfræðideild hefði um nokkurt skeið unnið að undirbúningi inntökuprófs og hefði í því sambandi verið talað um sérstakt próf. Viðskiptafræðideild legði hins vegar áherslu á að prófið væri staðlað, enda auðveldaði slíkt fyrirkomulag umsækjendum að fara í annað nám ef þeir kæmust ekki inn í þá námsgrein sem þeir vildu. Einnig skipti miklu máli að prófið yrði notað í öllum skólanum til að koma í veg fyrir að nemendur gætu hafið nám í grein þar sem ekki væri notað inntökupróf og reyndu svo að skipta yfir í grein með prófi. Einnig væri sjálfsagt að nemendur greiddu próftökugjald. Varðandi kostnað væri ekki verið að tala um það háar fjárhæðir að þær skipti verulegu máli. Þá benti forseti Viðskiptafræðideildar á að í Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 væri kveðið á um að auka framvindukröfur til nemenda og hvatti hann til þess að þeirri vinnu yrði áfram haldið.

Forseti Félagsvísindasviðs sagði það vera skynsamlegast að byrja á að innleiða aðgangstakmarkanir sem tilraunaverkefni í Lagadeild og Sálfræðideild. Ekki væri ástæða til að láta tekjumissi deildanna vaxa sér í augum því ekki væri um ýkja háar fjárhæðir að ræða. Þá yrði að hafa hugfast að ekki væri verið að tala um almennar aðgangstakmarkanir og yrði skólinn því áfram opinn í grundvallaratriðum. Jafnframt þyrfti að hafa í huga að með innleiðingu aðgangstakmarkana myndi háskólinn missa þrýstitæki gagnvart stjórnvöldum, þótt auðvitað ætti það að vera verkefni stjórnvalda að móta stefnu um hversu margir nemendur stunduðu háskólanám á Íslandi. Þá vék forseti Félagsvísindasviðs að öðrum mögulegum leiðum til að takmarka fjölda nemenda, s.s. að leyfa öllum sem það vildu að hefja nám og taka svo próf eftir eitt eða tvö misseri sem aðeins hluti hópsins stæðist. Þessi leið, numerus clausus, sem Læknadeild hefði farið áður en hún tók upp núverandi inntökupróf, væri þó ómanneskjuleg í samanburði við inntökuprófin. Að lokum sagði forsetinn nauðsynlegt að hafa hugfast að þótt inntökupróf væru góðra gjalda verð væri ekki sjálfgefið að þau bættu námsástundun og námsframvindu og drægju úr brottfalli. Á Norðurlöndum þar sem inntökupróf hefðu verið innleidd væri eftir sem áður mikið brottfall, jafnvel svipað og hér á landi. Að lokum dró forseti Félagsvísindasviðs mál sitt saman með þeim orðum að hann væri fylgjandi því að innleiða inntökupróf í nokkrum greinum í reynsluskyni en með því væri ekki tekin ákvörðun um innleiðingu almennra aðgangstakmarkana sem væri annað og stærra mál.

Kjörinn fulltrúi Félagsvísindasviðs greindi frá því að þegar aðsókn hefði verið hvað mest í nám við Lagadeild hefðu um 300 manns skráð sig til náms og stór hluti þeirra fallið á fyrsta námsári. Eftirsóknarvert væri að breyta þessu fyrirkomulagi og myndi það koma í veg fyrir mikla tímasóun nemenda – ekki aðeins þeirra sem ekki kæmust inn heldur einnig þeirra sem kæmust inn því nemendafjöldinn á fyrsta ári hefði áhrif á námsaðstæður fyrir allan hópinn. Þá sagðist deildarforsetinn ekki vera sammála því að tekjumissir viðkomandi deilda væri óverulegur og þegar horft væri til nokkurra ára tímabils væri um verulegar fjárhæðir að tefla. Varðandi framkvæmd prófsins sagðist fulltrúinn telja heppilegast að fara blandaða leið með almennum og sértækum prófhluta. Þá sagðist fulltrúinn ekki deila áhyggjum forseta Viðskiptafræðideildar um að nauðsynlegt væri að halda prófið í öllum deildum til að koma í veg fyrir að nemendur kæmust svo að segja bakdyramegin inn.

Forseti Hagfræðideildar sagði að deildin hefði þegar samþykkt fyrir sitt leyti að standa að inntökuprófi fyrir nemendur sem hefja nám haustið 2012. Deildin hefði unnið þá undirbúningsvinnu sem nauðsynleg væri í því sambandi og með það að leiðarljósi að bæta hag hópsins án þess að það bitnaði á öðrum hópum. Markmiðið væri að fá betri nemendur og að tryggja nemendum að þeir væru á réttum stað frá upphafi í stað þess að þeir eyddu dýrmætum tíma í að finna sinn stað. Þá sagði deildarforsetinn það vera skoðun sína að hugtakið “aðgangstakmarkanir” væri ekki réttnefni heldur væri heppilegra að tala um “háskólahæfnipróf” eða eitthvað í þá veru. Lauk forseti Hagfræðideildar máli sínu með því að segja það vera vont fyrirkomulag að leitast við að laða til sín sem flesta nemendur á fyrsta námsár, fella síðan drjúgan hluta þeirra en nota tekjurnar af þeim til að fjármagna síðari árin fyrir hina sem kæmust áfram.

Fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráði sagði það vera skoðun sína að hluti vandans tengdist skipulagi framhaldsskólans og vöntun á samræmingu og samræmdu stúdentsprófi. Í grunnskólum landsins væri stuðst við samræmd próf, PISA-kannanir, Talis-OECD kannanir o.fl., en lítið sem ekkert slíkt væri til staðar í framhaldsskólanum. Ef til vill ætti því ekki að leggja alla þessa vinnu á háskólann heldur að reyna að hafa áhrif á framhaldsskólamálin til að stigið verði skref í átt til samræmdra stúdentsprófa í völdum greinum.

Kjörinn fulltrúi Félagsvísindasviðs sagðist hafa blendnar tilfinningar til málsins. Þegar litið væri á æviferil verðlaunahafa Nóbels kæmi í ljós að stór hluti þeirra lauk aldrei háskólanámi! Þótt vissulega væri mikilvægt að skapa viðunandi hlutfall kennara og nemenda yrði einnig að hugsa um hvaða áhrif það hefði á einstaklingana að komast ekki inn í það nám sem hugur þeirra stæði til. Það væri m.ö.o. nauðsynlegt að velta því fyrir sér í þessu sambandi hvernig háskólinn stuðlaði að því að nemendum sem til hans leituðu líði vel. Brottfallsvandinn væri hluti af miklum menningarlegum breytingum sem enn væri lítið vitað um. Þannig væri t.d. brottfall sífellt að aukast í bandarískum háskólum, nemendur læsu mun minna en áður og hugsuðu öðruvísi en kynslóð kennara þeirra.

Kjörinn fulltrúi Menntavísindasviðs sagði mikilvægt að hafa hugfast að nemendum sem réðu illa við tiltekna námsgrein liði vanalega ekki vel í náminu. Til að vinna gegn þessu þyrfti að tryggja öfluga fræðslu og námsráðgjöf. Þetta ætti sérstaklega við um nemendur sem hefðu ekki sterkan menntunarlegan bakgrunn í félagsfræðilegum skilningi. Loks tók fulltrúinn undir það sjónarmið að vanda þyrfti undirbúning inntökuprófsins og að það væri e.t.v. full mikil bjartsýni að ætla sér að innleiða það árið 2013.

Fulltrúi stúdenta sagðist styðja innleiðingu inntökuprófs því þá myndu nemendur frá upphafi náms vita til hvers væri ætlast af þeim og hvaða kröfur væru gerðar til þeirra. Óþarfi væri að líta á komandi kynslóðir sem viðkvæmar sálir sem þyrfti að meðhöndla með silkihönskum. Þá sagði fulltrúinn það ekki vera góða hugmynd að nota eitt heildarpróf, því nemandi sem t.d. hygðist leggja stund á nám heimspeki hefði allt aðrar forsendur en væntanlegur jarðfræðinemi. Til að koma til móts við þetta væri betra að nota sérhæfð próf. Einnig benti fulltrúi stúdenta á að geta við upphaf háskólanáms hefði iðulega lítið að gera með almenna námsgetu. Oft kynnu nemendur ekki vinnubrögð þegar þeir hæfu nám en tækju svo við sér. Því skipti máli að bjóða nemendum upp á undirbúning fyrir inntökuprófið og viðeigandi kennsluefni.

Forseti Læknadeildar sagði deildina hafa mikla reynslu af því að velja inn nemendur sem læra mætti af. Áður hefði deildin hleypt inn miklum fjölda nemenda og svo hefðu verið haldin samkeppnispróf á fyrsta vetrinum þar sem mikill fjöldi nemenda hefði fallið. Núverandi fyrirkomulag væri hins vegar með þeim hætti að haldin væru samkeppnispróf í júní og kepptu þá um 300 manns um 48 námssæti. Þessi aðferð hefði verið notuð í nokkur ár og gefist vel, a.m.k. frá sjónarhóli deildarinnar. Réttlætingin fyrir breytingunni á sínum tíma hefði verið sú að ekki væru fyrir hendi nógu mörg þjálfunarpláss, t.d. þegar allir nemendur þyrftu að fara inn á fæðingardeild eða barnadeild. Mikið hefði verið rætt um það hversu mörg þjálfunarplássin væru í reynd og hefði niðurstaðan verið að þau væru 48. Auðvitað lægi ekki fólgið í þessu að 49. nemandinn væri endilega lakari en sá 48., en þetta væri leikregla sem menn hefðu komið sér saman um. Þá væri flókið mál að skilgreina hvað inntökuprófið ætti að mæla og hvernig ætti að gera það úr garði. Allt eftir gerð slíkra prófa gætu þau mælt viðhorf, kunnáttu, væntingar o.fl. Í tilviki Læknadeildar hefði verið talið mikilvægast að prófið mældi hversu vel nemendur réðu við þungt raunvísindanám. En jafnframt skipti máli að mennta lækna sem kynnu að tala við fólk og því væru einnig prófaðir almennir þættir. Afdrif nemenda Læknadeildar staðfestu að prófið væri skynsamlega samansett og það væri vitað að nemendum sem stæðust það vegnaði almennt vel og stæðu sig t.d. vel á bandarísku samkeppnisprófi. Engum dytti í hug að hverfa aftur til gamla fyrirkomulagsins þar sem nemendur á fyrsta misseri væru í mikilli innbyrðis samkeppni og liði ekki vel. Mörg dæmi hefðu verið um nemendur sem fóru jafnvel margsinnis í námið og af því gátu jafnvel hlotist harmleikir. Þó hefði þetta fyrirkomulag líka haft sína kosti, t.a.m. hefði það verið undantekning ef nemendur sem stóðust þetta mikla álag í upphafi náms hefðu fallið á síðari stigum námsins, en á þessu hefði orðið nokkur breyting með nýja fyrirkomulaginu.

Forseti Íslensku- og menningardeildar lýsti ánægju sinni með kynninguna og umræðuna. Sagðist forsetinn almennt vera fylgjandi inntökuprófum, ekki aðeins hjá fjölmennum deildum heldur ekki síður fámennum. Nú þegar væri mikið kvartað undan því að nemendur kæmu sífellt verr undirbúnir til háskólanáms og það myndi væntanlega frekar aukast en hitt á næstu árum. Stór hluti vandans væri að hver framhaldsskóli réði því hvernig  hann stæði að náminu og engar samræmdar upplýsingar lægju fyrir um árangur nemenda þegar þeir kæmu í háskóla. Þetta gæti þýtt að til háskólanna kæmu nemendur með aðeins örfáar einingar í helstu kjarnafögum. Inntökupróf væri einhverskonar svar við þessu – og framhaldsskólarnir hefðu kallað eftir því að háskólinn skilgreindi hæfnikröfur til nemenda, þótt þeir hefðu reyndar ekki óskað eftir inntökuprófum. Lýsti deildarforsetinn þeirri skoðun sinni að almennt inntökupróf með sérhæfðum hluta fyrir einstök fræðasvið væri ákjósanlegt fyrirkomulag. Í þessu fælust skýr skilaboð til framhaldsskólanna og til nemenda um hvernig þeir þyrftu að undirbúa sig fyrir háskólanám.

Fulltrúi í starfshópnum sem undirbjó tillögurnar sagði að hér á landi hefði verið ríkjandi viðhorf að allir sem það vildu ættu að geta sótt um nám í stærsta háskóla landsins. Þetta viðhorf væri arfleifð frá þeim tíma þegar það voru fyrst og fremst börn efnafólks sem höfðu stúdentspróf. Þetta hefði hins vegar breyst mikið á síðustu árum og áratugum og nú væru miklu stærri hlutar árganganna með stúdentspróf. Á Norðurlöndum hefði verið brugðist við þessu með inntökuprófum og kvótum og ekki yrði séð hvers vegna ekki ætti að fara eins að hér á landi. Í reynd væru framhaldsskólarnir komnir lengra en háskólinn í þessum efnum því þeir takmörkuðu aðgang nemenda og á Íslandi kæmust á hverju ári nokkur hundruð nemendur ekki í þann framhaldsskóla sem þeir sæktu um nám í. Í ljósi þess sem gert væri á öðrum skólastigum og í öðrum löndum virtust engin skynsamleg rök mæla gegn því að taka ekki einnig upp aðgangstakmarkanir á háskólastigi. Þá væri ástæða til að ætla að innleiðing aðgangstakmarkana í Háskóla Íslands myndi hafa áhrif á framhaldsskólana og að þeir legðu sig fram um að undirbúa nemendur sína þannig að þeir stæðust kröfur prófsins – í stað þess að treysta því að þeir þyrftu ekki að taka sig á fyrr en komið væri í háskóla. Loks sagði fulltrúinn að tillaga starfshópsins miðaði við próf sem skiptist í málfarspróf og próf í talnaleikni og ef vel væri að málum staðið myndi einkunn á slíku prófum spá með mikilli nákvæmni fyrir um árangur í háskóla.

Kjörinn fulltrúi Félagsvísindasviðs sagði frá rannsókn sem gerð hefði verið í Hagfræðideild með því að hópi nemenda hefði verið fylgt eftir í náminu. Hefði rannsóknin leitt í ljós að mikil fylgni væri á milli kunnáttu nemenda í upphafi náms og þess hvernig þeim riði af á síðari stigum þess. Einnig sagði fulltrúinn mikilvægt að gera sér grein fyrir því að nokkurn tíma myndi taka að sníða agnúa af prófinu og því þyrfti að sýna þolinmæði.

Forseti Jarðvísindadeildar sagði það vera slæm rök í umræðunni um inntökupróf að það hefði óæskileg áhrif á fjárhag deilda að fækka nemendum. Þann vanda hlyti að vera hægt að leysa með öðrum hætti. Meiru skiptu skilaboðin til nemenda í framhaldsskóla því að með innleiðingu aðgangstakmarkana og inntökupróf væri skilgreint vel hvað nemendur þyrftu að geta leyst og kunnað ef þeir ætluðu í nám í Háskóla Íslands. Kennarar í framhaldsskóla hefðu líka mikið að segja, því góðir framhaldsskólakennarar gætu örvað nemendur mikið. Því væri mikilvægt að vera í góðu sambandi við þá og upplýsa þá um þær kröfur sem gerðar væru í háskólanum.

Fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráði lagði orð í belg um spurninguna hvort notast ætti við eitt almennt próf eða mörg sérhæfð próf. Sagði fulltrúinn vel koma til greina að nota eitt próf en meta einstaka prófhluta ólíkt eftir greinum. Varðandi tímaáætlun verkefnisins sagði fulltrúinn að Hagfræðideild væri langt komin með undirbúning málsins og hefði m.a. þróað tilraunapróf. Deildin yrði því fyrir miklum vonbrigðum ef hún fengi ekki að fara af stað með þetta verkefni strax í haust. Það gæti einnig orðið til þess að afla mikilvægrar reynslu fyrir aðrar deildir sem vildu innleiða slíkt próf síðar. Loks sagði fulltrúinn að sú kynslóð sem nú væri í framhaldsskóla hefði að mörgu leyti hagnýtari viðhorf til náms en hennar eigin kynslóð hefði haft. Fyrri kynslóðir hefðu lagt minna leggja á sig en þær sem nú eru að vaxa úr grasi og hefðu barist gegn inntökuprófum og nánast litið á það sem mannréttindi að fá BA- eða BS-próf. Íslenskir nemendur í dag horfðu meira til heimsins og vildu að háskólinn þeirra væri samkeppnisfær við bestu erlendu háskólana. Þau vildu umfram allt útskrifast úr góðum háskóla. Sterkir nemendur vildu vera í fámennum námskeiðum og fá að kynnast og vinna í rannsóknum með færustu vísindamönnum.

Formaður starfshópsins þakkaði fyrir góðar umræður og margar góðar ábendingar. Sagði hann mikilvægt að hafa hugfast að Háskóli Íslands væri eini skólinn í landinu sem byði upp á nám í öllum helstu námsgreinum og því væri það stór ákvörðun að takmarka aðgang í þær allar. Tillaga starfshópsins gengi út á að reyna inntökuprófið í nokkrum greinum og taka síðan ákvörðun um framhaldið – slík lausn gengi upp í íslensku samhengi. Æskilegt væri að styðjast við eitt próf sem jafnvel Læknadeild gæti notað. Spurninguna um hvernig ætti að leysa fjárhagslegu leiðina þyrfti að skoða vandlega. Það væri vitaskuld afleit staða að nemendur sem féllu á fyrsta námsári fjármögnuðu að hluta nám þeirra sem næðu prófum. Mikilvægt væri að tryggja áfram sem flestum nemendum einhvern valkost. Þá sagðist formaðurinn ekki taka undir fullyrðingar um grundvallarmun á kynslóðum stúdenta. Einnig kom hann inn á samstarfið við framhaldsskólana og sagði það vera gott og m.a. væri árlega haldinn fundur fulltrúa háskólans með félagi skólameistara framhaldsskóla til að ræða sameiginleg málefni. Framhaldsskólarnir hefðu hingað til ekki sýnt því mikinn áhuga að háskólinn tæki upp almennt inntökupróf, en þetta þyrfti að halda áfram að ræða, einnig hvort e.t.v. yrði aftur innleitt samræmt stúdentspróf. Loks þakkaði formaðurinn stúdentum sérstaklega fyrir gott og málefnalegt samstarf við mótun tillagnanna.

Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu um að rektor, starfshópnum, háskólaráði og forsetum fræðasviða verði falið að vinna málið áfram, með hliðsjón af framkomnum ábendingum á þinginu og undirbúa það til afgreiðslu í ráðinu.

- Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk Jóns Atla Benediktssonar og rektors, þau Daníel Þór Ólason, Róbert R. Spanó, Ingjaldur Hannibalsson, Ólafur Þ. Harðarson, Björg Thorarensen, Þórólfur Matthíasson, Börkur Hansen, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Amalía Björnsdóttir, Anna Marsibil Clausen, Guðmundur Þorgeirsson, Dagný Kristjánsdóttir, Ásta Bjarnadóttir, Helgi Tómasson, Magnús Tumi Guðmundsson, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Jón Atli Benediktsson.

Að endingu þakkaði rektor fulltrúum á háskólaþingi fyrir góðar og málefnalegar umræður og óskaði þeim gleðilegrar aðventu. Sleit rektor háskólaþingi og bauð fundarmönnum að þiggja hressingu í anddyri Hátíðasalar.

Útsend gögn og gögn sem lögð voru fram á 7. háskólaþingi 9. desember 2011:

1.    Dagskrá og tímaáætlun 7. háskólaþings 9. desember 2011.
2.    Listi yfir fulltrúa á háskólaþingi.
3.    Fundargerð 6. háskólaþings 13. maí 2011.
4.    Yfirlit um framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016.
5.    Drög að sjálfbærni- og umhverfisstefnu Háskóla Íslands.
6.    Tillögur nefndar um mögulegar aðgangstakmarkanir við Háskóla Íslands.