Skip to main content

Háskólaráðsfundur 5. mars 2015

03/2015

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2015, fimmtudaginn 5. mars var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Davíð Þorláksson (varamaður Áslaugar Maríu Friðriksdóttur), Ebba Þóra Hvannberg, Eiríkur Rögnvaldsson, Iðunn Garðarsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Margrét Hallgrímsdóttir, Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir, Orri Hauksson, Stefán Hrafn Jónsson og Tómas Þorvaldsson. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Rektor setti fundinn og greindi frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Rektor vísaði í þessu sambandi þó til dagskrárliðar 8. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
a) Á síðasta fundi háskólaráðs kom fram að skömmu fyrir síðustu áramót var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu útboð á framkvæmdum vegna nýbyggingar fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og rann umsóknarfrestur út 10. febrúar sl. Gengið hefur verið til samninga við verktaka og verður fyrsta skóflustunga að byggingunni tekin á alþjóðadegi kvenna, sunnudaginn 8. mars nk., að viðstaddri Vigdísi Finnbogadóttur og mennta- og menningarmálaráðherra.
b) Hinn 17. febrúar sl. undirrituðu rektor og þjóðminjavörður, að viðstöddum forsætisráðherra, samning um afhendingu Loftskeytastöðvarinnar að Brynjólfsgötu 5 til Háskóla Íslands.
c) Brautskráning kandídata fór fram í Háskólabíói 21. febrúar sl. Að þessu sinni fengu um 480 kandídatar afhent prófskírteini að loknu grunn- og framhaldsnámi.
d) Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru afhent á Bessastöðum 22. febrúar sl. Verkefni fimm námsmanna voru tilnefnd til verðlaunanna, þrjú frá nemendum við Háskóla Íslands, og höfðu þau verið valin úr hópi verkefna sem voru unnin fyrir tilstyrk Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Hlutskarpast var verkefni Benedikts Atla Jónssonar, BS-nema í rafmagns- og tölvuverkfræði og ber það heitið „sjálfvirkt gæðamat augnbotnamynda“.
e) Opinn fundur rektors með starfsfólki Háskóla Íslands var haldinn í Hátíðasal 24. febrúar sl.
f) Hinn 26. febrúar sl. var haldið kveðjuhóf fyrir þá sem luku störfum við Háskóla Íslands vegna aldurs á liðnu ári.
g) Árlegt kennslumálaþing Háskóla Íslands var haldið í fjórða sinn 27. febrúar sl. Umfjöllunarefni þingsins að þessu sinni var námsmat og endurgjöf.
h) Háskóladagurinn var haldinn 28. febrúar sl. Fjöldi stúdenta og starfsmanna kynntu starfsemi og námsleiðir við Háskóla Íslands og heimsóttu um 6.000 manns háskólann.
i) Mánudaginn 3. mars sl. hélt rektor opnunarerindi á ráðstefnu norrænna rektora í Osló. Bar erindi rektors heitið „Nurturing talent and meeting needs of new generations“

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a) Drög að ársreikningi Háskóla Íslands 2014.
b) Fjárlagaerindi Háskóla Íslands 2016.
c) Drög að framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands 2015-2024.
d) Aldarafmælissjóður Háskóla Íslands 2016-2018. Staða mála.

Inn á fundinn komu þau Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs. Fyrir fundinum lágu drög að ársreikningi Háskóla Íslands 2014, bréf til mennta- og menningarmálaráðherra vegna fjárlagaerindis háskólans fyrir árið 2016, dags. 16. febrúar sl., drög að framkvæmda- og fjármögnunaráætlun skólans vegna nýbygginga á tímabilinu 2015-2024. Guðmundur og Jenný Bára gerðu grein fyrir málunum. Fyrir fundinum lá einnig áætlun um ráðstöfun Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands 2016-2018 og gerði rektor grein fyrir henni. Málin voru rædd ítarlega og svöruðu Guðmundur, Jenný og rektor spurningum ráðsmanna.

Inn á fundinn kom Elín Blöndal, lögfræðingur Háskóla Íslands.

3. Vísindagarðar. Samningur við Alvotech hf.
Inn á fundinn komu Hilmar B. Janusson, formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., og Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri félagsins. Fyrir fundinum lá minnisblað til háskólaráðs frá Vísindagörðum Háskóla Íslands ehf. um fyrirliggjandi drög að samningi milli félagsins og Alvotech hf. Hilmar Bragi gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt og svöruðu þeir Hilmar Bragi og Eiríkur spurningum fulltrúa í háskólaráði. 
– Samþykkt einróma að ganga til samninga á grundvelli ákvæða sem fram komu í minnisblaðinu.

4. Skipan millifundanefndar háskólaráðs til að fara yfir umsóknir um embætti rektors og undirbúa ákvörðun ráðsins um það hvaða umsækjendur uppfylla skilyrði um embættisgengi.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Fyrir fundinum lá tillaga um skipun millifundanefndar háskólaráðs sem fari yfir umsóknir um embætti rektors og undirbúi ákvörðun ráðsins um það hvaða umsækjendur teljast uppfylla skilyrði um embættisgengi rektors, sbr. 2. mgr. 6. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma að millifundanefnd háskólaráðs til að fara yfir umsóknir um embætti rektors verði skipuð þeim Ebbu Þóra Hvannberg, sem verði formaður, Áslaugu Maríu Friðriksdóttur, Iðunni Garðarsdóttur og Tómasi Þorvaldssyni.

Jafnframt ákvað háskólaráð að halda rafrænan aukafund (með tölvupósti) 10. mars nk. til að ganga frá skipun kjörstjórnar.

5. Erindi frá samráðsnefnd háskólaráðs.
a) Breyting á 5. gr. verklagsreglna um greiðslur vegna aukastarfa innan Háskóla Íslands sem kostuð eru af öðru fé en opinberum fjárveitingum til Háskóla Íslands, sbr. reglur nr. 605/2006 um starfsskyldur og  reglur um aukastörf nr. 1096/2008. Varðar leyfilegt hámark sértekjugreiðslna.

Fyrir fundinum lá tillaga að breytingu á 5. gr. verklagsreglna um greiðslur vegna aukastarfa innan Háskóla Íslands. Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma.

Davíð Þorláksson þurfti að víkja af fundi.

6. Reglur um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands, nr. 263/2010, sbr. síðasta fund. Tillaga að breytingu.
– Frestað.

7. Erindi frá jafnréttisnefnd háskólaráðs.
Fyrir fundinum lá erindi frá jafnréttisnefnd háskólaráðs um kynjaskiptingu í starfsnefndum háskólaráðs og um vægi atkvæða starfsmanna háskólans með og án háskólaprófs í rektorskjöri sem og drög að svari til nefndarinnar. Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Framlögð drög að svari til jafnréttisnefndar háskólaráðs samþykkt.

8. Undirbúningur ráðningar háskólarektors fyrir tímabilið frá 1. júlí 2015 til 30. júní 2020.
Fyrir fundinum lágu tvö erindi til háskólaráðs frá Einari Steingrímssyni, umsækjanda um starf rektors Háskóla Íslands, dags. 24. febrúar sl. og 3. mars sl. Einnig lágu fyrir fundinum tvö lögfræðiálit, annars vegar frá Gesti Jónssyni hrl. og Ólafi Frey Frímannssyni hdl. og hins vegar frá Ásgerði Ragnarsdóttur hdl.

Áður en málið var rætt gerði rektor grein fyrir þeim hluta erindisins er varðar mögulegt vanhæfi rektors til að fjalla á vettvangi háskólaráðs um málefni tengd væntanlegu rektorskjöri við Háskóla Íslands. Aflað hefði verið álits tveggja utanaðkomandi lögmanna.

Rektor vék af fundi áður en fjallað var um erindi Einars og tók Ebba Þóra Hvannberg, varaforseti háskólaráðs, við fundarstjórn.

Málið var rætt og var það einróma niðurstaða fulltrúa í háskólaráði að á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga og meginreglna stjórnsýsluréttar um hæfi sé rektor ekki vanhæf til að fjalla um mál tengd rektorskjöri.

Að því búnu voru rædd drög að svörum ráðsins við öðrum spurningum í erindum Einars sem rektor hafði áður svarað. Samþykkt einróma að svara þeim efnislega með sama hætti og rektor hafði gert.

Rektor kom aftur inn á fundinn og tók við stjórn hans. Farið var yfir dagsetningar er varða væntanlegt rektorskjör.

9. Kvörtun Friðriks Eysteinssonar, dags. 19. desember sl. vegna kröfu um rökstuðning frá rektor.
Fyrir fundinum lágu drög að svari háskólaráðs við kvörtun Friðriks Eysteinssonar, dags. 19. desember sl., vegna kröfu um rökstuðning frá rektor.
– Samþykkt einróma að fela lögfræðingi Háskóla Íslands að svara erindi Friðriks Eysteinssonar f.h. háskólaráðs með þeim rökstuðningi sem lá fyrir fundinum.

10. Samningur Háskóla Íslands og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
Fyrir fundinum lágu drög að samningi á milli Háskóla Íslands og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Fyrirliggjandi drög að samningi á milli Háskóla Íslands og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum samþykkt einróma.

11. Bókfærð mál.
a) Tillaga Félagsvísindasviðs f.h. Viðskiptafræðideildar að breytingu á 8. gr. reglna nr. 319/2009 um inntökuskilyrði í deildina.

– Samþykkt.

b) Tillaga Menntavísindasviðs og Verkfræði- og náttúruvísindasviðs um þrjár nýjar námsleiðir í stærðfræði og stærðfræðimenntun.
– Samþykkt.

c) Tillaga Verkfræði- og náttúruvísindasviðs f.h. Jarðvísindadeildar að breytingu á 24. gr. reglna nr. 319/2009 um inntökuskilyrði í deildina.
– Samþykkt.

d) Samstarfssamningur um aðstöðu og þjónustu Keilis vegna tæknifræðináms á vegum Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

e) Formaður nefndar um skipulag og framkvæmdir á lóð Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá tillaga um að Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, taki við sem formaður nefndar um skipulag og framkvæmdir á lóð Háskóla Íslands út skipunartímabil nefndarinnar til 31. október 2015 vegna fráfalls Ingjalds Hannibalssonar. Aðrir í nefndinni eru Helga Bragadóttir arkitekt, Hrund Ólöf Andradóttir dósent og Inga Jóna Þórðardóttir viðskiptafræðingur.
– Samþykkt.

f) Stjórn Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá tillaga um að stjórn Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands verði skipuð þeim Sólveigu Önnu Bóasdóttur, prófessor við Hugvísindasvið, sem verði formaður, Eyvindi G. Gunnarssyni, prófessor við Félagsvísindasvið, Vilborgu Lofts, rekstrarstjóra Heilbrigðisvísindasviðs, Janusi Guðlaugssyni, lektor við Menntavísindasvið og Oddnýju G. Sverrisdóttur, prófessor við Hugvísindasvið. Varamenn verði Anni G. Haugen, lektor við Félagsvísindasvið, Kesara M. Jónsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Stefán Þ. Sigurðsson, dósent við Heilbrigðisvísindasvið, Edda Kjartansdóttir, forstöðumaður við Menntavísindasvið, og Jón Axel Harðarson, prófessor við Hugvísindasvið. Skipunartími stjórnar er til febrúarloka 2018.
– Samþykkt.

12. Mál til fróðleiks.
a) Ræða rektors við brautskráningu kandídata 21. febrúar 2015.
b) Bréf Háskóla Íslands til Friðriks Eysteinssonar um nýtt netfang vegna stjórnsýslulegra erinda.
c) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, febrúar 2015.
d) Tímarit Háskóla Íslands 2015.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.35.