Skip to main content
1. nóvember 2021

Ótal tækifæri til náms og starfa á Alþjóðadögum HÍ

Ótal tækifæri til náms og starfa á Alþjóðadögum HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kynningar á möguleikum á námi og störfum erlendis, karókí, ljósmyndasamkeppni og tækifæri fyrir nemendur og starfsfólk innan Aurora-samstarfsins er meðal þess sem í boði verður á Alþjóðadögum HÍ sem hefjast 2. nóvember og standa út vikuna. Hápunktur þeirra er Alþjóðatorgið á Háskólatorgi 4. nóvember.

Alþjóðadögum hefur verið fagnað um árabil í Háskóla Íslands en markmið þeirra er að vekja athygli á alþjóðlegu samstarfi Háskólans og þeim fjölmörgu tækifærum sem standa nemendum og starfsfólki til boða um allan heim.

Tækifæri nemenda felast í bæði skiptinámi, sumarnámi og starfsþjálfun og verða kynningar á þessum möguleikum alla dagana, bæði á íslensku og ensku. Starfsfólki standa til boða ferðastyrkir til kennara- og starfsmannaskipta, bæði innan og utan Evrópu, og verða kynningar á þessum möguleika 3. og 5. nóvember.

Þá verður sérstök áhersla lögð á að kynna þau tækifæri sem felast í þátttöku Aurora-samstarfsins fyrir bæði nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands en háskólarnir ellefu í samstarfinu verða m.a. með viðburðaröð á netinu undir yfirskriftinni „Get to know your Aurora university study abroad partner destinations“. Anne-May Janssen, framkvæmdastjóri Aurora, verður svo gestur á málstofunni „Aurora for Academics: How can it enrich your teaching?“ þann 4. nóvember.

Hápunktur Alþjóðadaganna er Alþjóðatorgið sem verður í hádeginu fimmtudaginn 4. nóvember á Háskólatorgi. Þar geta gestir og gangandi m.a. rætt við fyrrverandi og núverandi skiptinema, fulltrúa frá sendiráðum og fjölmörgum íslenskum stofnunum og félögum um hvaðeina sem snertir nám og störf erlendis. Fulltrúar sviða og deilda innan HÍ og starfsfólk Alþjóðasviðs verða einnig á staðnum og veita upplýsingar um námsdvöl erlendis.

Stúdentakjallarinn verður jafnframt einn af miðpunktum Alþjóðadaga þar sem fjörið mun ráða ríkjum. Þar verður m.a. boðið upp á karókíveislu, spjall við fyrrverandi skiptinema og lifandi tónlist á kvöldin.

Auk þess verður hægt að fá innsýn í líf skiptinema á samfélagsmiðlum Háskólans og nemendur geta tekið þátt í ljósmyndasamkeppni á Instagram þar sem vegleg verðlaun eru í boði. 

Hægt er að kynna sér metnaðarfulla dagskrá Alþjóðadaga á vef HÍ.

Loftbelgir á ferð