Menntakerfið mætti margháttuðum áskorunum á tímum faraldursins | Háskóli Íslands Skip to main content
17. apríl 2021

Menntakerfið mætti margháttuðum áskorunum á tímum faraldursins

Menntakerfið mætti margháttuðum áskorunum á tímum faraldursins - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Það blasir við hversu öflugt og sveigjanlegt menntakerfi við eigum og hvað við búum að miklum mannauð í þessu kerfi. Kennarar, skólastjórnendur og annað fagfólk í menntakerfinu var sérlega lausnamiðað og hugsaði út fyrir boxið,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, en heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur haft gríðarleg áhrif á skóla- og frístundastarf um allan heim.

Vísindamenn við Menntavísindasvið stóðu fyrir könnunum til að rannsaka áhrif samkomutakmarkana á skólastarf vorið 2020. „Flestar fjölskyldur fundu fyrir því með einhverjum hætti hvernig skólastarf raskaðist og það sama má segja um störf sem í ríkari mæli færðust inn á heimilin. Niðurstöðurnar benda til þess að börn sem stóðu félagslega höllum fæti fyrir heimfaraldurinn, s.s. börn af erlendum uppruna og fötluð börn, hafi einangrast enn frekar á tímum samkomubanns og það er vissulega mikið áhyggjuefni. Þetta kemur fram í gögnum á öllum skólastigum. Við þessu þarf að bregðast því það er mikið í húfi fyrir samfélagið að við stuðlum að farsælli skólagöngu, velferð og þátttöku allra barna,“ segir Kolbrún og undirstrikar að rannsóknirnar séu mikilvægt framlag til að auka skilning okkar á þeim áhrifum sem faraldurinn hefur haft á menntakerfið, bæði til skemmri og lengri tíma. 

Leikur barna blómstraði í leikskólum

Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir lektor og Svava Björg Mörk aðjunkt, báðar við Háskóla Íslands, unnu að rannsókn á áhrifum takmarkana á leikskólahald með sérstakri athygli á leik barna og hlutverk starfsfólks. Algengt var að leikskólar skipulögðu starf sitt á þann veg að börnin skiptust á að mæta í leikskólann. Svör bárust úr 172 leikskólum. 

Helstu niðurstöður

 • Áhrif fækkunar í barnahópum hafði jákvæð áhrif á leik barna. Börnin nutu sín betur og leikurinn varð dýpri.
 • Það dró úr hávaða og áreiti, sem leiddi til aukinnar vellíðunar hjá börnum. Rólegra andrúmsloft varð til þess að minna var um árekstra í barnahópum. 
 • Margir nefndu að börn, sem alla jafna væru hlédræg, stigu fram og blómstruðu undir þessum kringumstæðum.
 • Neikvæðu áhrifin voru helst þau að sum börnin söknuðu vina sinna þegar búið að var að skipta þeim upp í smærri hópa.  
 • Börn af erlendum uppruna sóttu leikskólann síður en önnur börn.

„Við sjáum í þessum gögnum að auka má tækifæri barna í leikskólum með því að draga úr stífu dagsskipulagi. Fjölmargar rannsóknir sýna að börn á þessum aldri læra best í gegnum leik og því ætti þetta að vera eftirsóknarvert markmið. Það er einnig mikilvægt að gefa börnum tækifæri til að njóta augnabliksins, rannsaka umhverfi sitt og upplifa – á eigin forsendum,“ segir Ingibjörg Ósk. Hún bætir við að starfsfólk í leikskólum upplifði sig í framlínusveit í samfélaginu meðan á samkomubanninu stóð en sumir urðu óöruggir um eigin heilsu.

Skýrslan í heild sinni.

Tengsl milli heimila og grunnskóla trosnuðu lítið

„Það kom á óvart að meirihluta stjórnenda fannst gaman að glíma við þær áskoranir sem COVID-19 færði þeim. Að mínu mati tel ég þetta vera til marks um fagmennsku og metnað stjórnenda í grunnskólum sem hlífa sér hvergi,“ lýsir Kristín Jónsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, sem fór fyrir rannsókn sem beindist að samstarfi heimila og skóla. 92% íslenskra grunnskóla voru opnir yfir þetta tímabil, þó með takmörkunum í takt við gildandi sóttvarnarreglur. Rannsóknin byggist á svörum frá 183 stjórnendum úr 118 grunnskólum. 

Helstu niðurstöður

 • Gagnkvæmur stuðningur ríkti milli skólastjórnenda og foreldra. Nærri 75% stjórnenda sögðu að samstarfið við foreldra hefði verið auðvelt. 
 • Ríflega 43% stjórnenda sögðu að foreldrar hefðu leitað til þeirra eftir ráðgjöf og stuðningi og skólastjórnendur virðast hafa lagt rækt við samstarf við foreldra. 
 • Foreldrar höfðu misjafnar forsendur til að aðstoða börn sín við námið heima en fengu samtímis betri innsýn inn í það flókna starf sem kennarar standa frammi fyrir í skólunum. Skapa þarf foreldrum fjölbreyttari tækifæri til taka þátt í námi barna. 
 • Börn í viðkvæmri stöðu voru þau fyrstu til fjarlægjast skólastarfið og kennarar og stjórnendur höfðu verulegar áhyggjur af því. 
 • Meirihluta skólastjórnenda fannst líklegt að kófið muni hafa áhrif á kennsluhætti til frambúðar. 

„Sérstaklega vil ég draga fram áhrifin á börn af erlendum uppruna og mikilvægi þess að við styrkjum tengsl við heimili þar sem móðurmál barna er annað en íslenska,“ bendir Kristín á. Þess má geta að hún hlaut nýverið styrk úr samfélagsverkefnasjóði Háskóla Íslands til að gera fræðsluefni fyrir foreldra grunnskólabarna af erlendum uppruna. 

Niðurstöður í vefforriti

Næra þarf félagsleg samskipti í framhaldsskólum

„Framhaldsskólakennarar upplifðu meiri streitu, vinnuálagið jókst og starf kennara var óskýrara og flóknara en áður. Flestir kennarar tileinkuðu sér nýjungar í kennslu í flóknum aðstæðum heima“ segir Guðrún Ragnarsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, sem er í hópi rannsóknarteymis sem kannaði áhrif faraldursins á starfsfólk í framhaldsskólum. Líkt og mörgum er kunnugt, færðist öll kennsla í framhaldsskólum yfir á netið meðan á samkomutakmörkunum stóð í fyrstu bylgju faraldursins. Svör bárust úr 33 skólum frá 1.028 framhaldsskólakennurum, stjórnendum, ráðgjöfum og öðru fagfólki á framhaldsskólastigi.

Helstu niðurstöður

 • Nærri 90% framhaldsskólakennara stunduðu vinnu sína alfarið eða að mestum hluta annars staðar en í skólabyggingu.
 • Rúmlega 70% kennara töldu sig hafa næði til að sinna starfi sínu. 
 • Tæplega 70% kennara fundu fyrir mun meiri eða nokkuð meiri streitu í starfi á meðan skólar voru lokaðir
 • Þriðjungur framhaldsskólakennara taldi starfsskyldur sínar óskýrari í samkomubanni. 
 • Rúmlega helmingur framhaldsskólakenna byggði kennsluna meira en áður á einstaklingsframlagi og tæplega 40% gekk verr en áður að beita fjölbreyttum kennsluaðferðum og 64% gekk verr en áður að leggja áherslu á samvinnu nemenda.

„Einn lærdómurinn sem draga má af þessum niðurstöðum er að mikilvægt er að þróa betur samvinnunámsaðferðir í fjarkennslu og næra með markvissari hætti félagsleg samskipti nemenda,“ segir Guðrún.

Skýrslan í heild sinni

Lesa má um fleiri niðurstöður rannsóknanna í nýjasta sérriti Netlu, meðal annars um áhrif heimsfaraldursins á stafræna þróun og fjarkennslu, hlutverk þroskaþjálfa á tímum samkomubanns og um áhrif á starfsemi frístundaheimila og félagsmiðstöðva. Öflugur hópur fræðafólks hefur þegar birt niðurstöður á innlendum og erlendum vettvangi og ljóst er að niðurstöðurnar smunu nýtast til að skapa frekari þekkingu á námi og kennslu til frambúðar.

Nýtt vefforrit um COVID-rannsóknir

Menntavísindastofnun hefur látið hanna vefforrit þar sem hægt er að skoða niðurstöður úr könnunum á áhrifum COVID-19 á menntakerfið. Vefforritið er aðgengilegt öllum en er sérstaklega ætlað fræðimönnum, kennurum og stjórnendum í skóla- og frístundastarfi. 

Skoða vefforritið

Tengdar fréttir: 

""