Skip to main content
23. október 2020

Horft í áhrif kófsins á starfsaðstæður Háskólans

""

Nærri helmingur starfsmanna Háskóla Íslands fann fyrir auknu álagi í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins í vor. Vinnuaðstæður fólks heima fyrir voru misjafnar og um þriðjungur starfsfólks var ekki með sér vinnuherbergi á heimili sínu. Þá gekk samhæfing vinnu og einkalífs verr hjá fólki með börn á heimilinu og akademísku starfsfólki. Meirihluti þeirra sem sinnir kennslu telur að reynslan sem skapaðist vegna samkomutakmarkana muni hafa varanleg áhrif á kennsluaðferðir í framtíðinni. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri rannsókn á áhrifum faraldursins á störf og vinnuaðstæður starfsfólks Háskólans.

Samkomutakmarkanir vegna COVID-19 hafa haft í för með sér víðtæk áhrif á stóran vinnustað eins og Háskóla Íslands. Samkomubann var sett á hér á landi þann 16. mars síðastliðinn í fyrsta sinn í íslenskri lýðveldissögu. Í kjölfarið færðist öll kennsla á háskólastigi yfir á rafrænt form á einni nóttu og þurfti starfsfólk að hafa hraðar hendur við að finna lausnir og aðlagast nýjum aðstæðum. Margir þurftu að flytja vinnustöðvar sínar alfarið yfir í heimahús, bæði vegna takmarkaðs aðgengis að skólabyggingum og vegna barna sem sinna þurfti sökum skertrar starfsemi leik- og grunnskóla. 

Til að varpa ljósi á áhrif samkomubannsins á störf starfsmanna Háskóla Íslands var rafræn könnun send til 1.732 starfsmanna skólans í lok maí. Svarhlutfall í könnuninni var 41% og var meirihluti svarenda konur. Ríflega helmingur þátttakenda var á aldrinum 40-60 ára og var tæpur meirihluti með eitt eða fleiri börn á heimilinu. 

Háskólinn leggur ríka áherslu á að gera starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur og fjölskylduábyrgð eins og fram kemur í stefnu HÍ-21. Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, er ein þeirra sem stóð að könnuninni ásamt starfsfólki Menntavísindastofnunar. „Könnunin staðfestir að flestir upplifðu meira álag í samkomubanni, einkum starfsfólk með börn. Það sem kom helst á óvart í gögnunum var að þó nokkuð stór hópur starfsfólks kom meiru í verk en áður og voru þar barnlausar konur í meirihluta. Að sama skapi fann um þriðjungur starfsfólks fyrir minni streitu en áður og um fimmtungur sagði að álagið í starfi minnkaði,“ lýsir Kolbrún.

Helstu niðurstöður könnunarinnar voru eftirfarandi:

  • Samhæfing vinnu og einkalífs gekk verr hjá fólki með börn á heimilinu og akademísku starfsfólki.
  • Vinnuaðstæður heima fyrir voru mismunandi. Þriðjungur svarenda var ekki með sér vinnuherbergi og suma vantaði tól á borð við skrifborðsstól, skrifborð, lyklaborð og auka tölvuskjá.
  • Nærri helmingur akademískra starfsmanna sögðu að álag hafi aukist í samkomubanninu og um 40% þeirra sem voru með börn á heimilinu fundu fyrir auknu álagi.
  • Starfsfólk með börn á heimilinu sagðist vinna fleiri vinnustundir en áður.
  • Karlar án barna virtust finna fyrir minnstum breytingum varðandi vinnuálag.
  • Rannsóknarvirkni dróst saman og 40% svarenda sögðust telja að ástandið hafi áhrif á söfnun rannsóknarstiga og launaþróun.
  • Flestir töldu að tæknilegur stuðningur vegna kennslu hafi verið nægur en um 16% hefði viljað meiri aðstoð. 
  • Meirihluti þeirra sem stunda kennslu telja reynsluna sem skapaðist í samkomubanninu muni hafa varanleg áhrif á kennsluaðferðir framtíðarinnar.
  • Flestir sögðust upplifa öryggi á vinnustaðnum og voru sammála því að vel hafi verið gætt að sóttvörnum.

Síðustu mánuði hefur starfsfólk Háskólans verið ötult við að rannsaka ýmsa þætti heimsfaraldursins enda gefur farsóttin einstakt tækifæri til rannsókna. „Könnun á áhrifum faraldursins á starfsfólk skólans er liður í þessari mikilvægu þekkingarsköpun og draga má dýrmætan lærdóm af niðurstöðunum sem nýta mætti til að bæta starfsumhverfið til frambúðar. Frekari greining á gögnunum mun auka skilning okkar, ekki hvað síst á þeim jákvæðu áhrifum sem samkomubannið hafði í för með sér“, segir Kolbrún að lokum.

Háskóli Íslands er ábyrgðaraðili rannsóknarinnar en Menntavísindastofnun sá um gagnasöfnun. Skýrslu með helstu niðurstöðum má finna HÉR. Áhugasamir geta kynnt sér rannsóknina nánar á vef Menntavísindastofnunar.

Á öllum fræðasviðum Háskóla Íslands er unnið að rannsóknum á áhrifum heimsfaraldursins á ýmsa þætti samfélagsins. Yfirlit yfir rannsóknirnar má nálgast á vef skólans. 

Samkomutakmarkanir vegna COVID-19 hafa haft í för með sér víðtæk áhrif á stóran vinnustað eins og Háskóla Íslands. Myndin er tekin á Háskólatorgi í samkomubanni en torgið iðar yfirleitt af lífi. MYND/Kristinn Ingvarsson