Kafað ofan í kófið og menntakerfið | Háskóli Íslands Skip to main content
14. september 2020

Kafað ofan í kófið og menntakerfið

„Menntakerfið hefur sannarlega ekki farið varhluta af þeim hræringum sem upphófust af örlítilli veiru sem í upphafi smitaði eina manneskju. Það er fæstum okkar eðlislægt að forðast annað fólk, við manneskjur erum félagsverur sem þroskumst og nærumst á samskiptum við annað fólk. Samskipti og aðgangur að samfélagi jafningja eru mikilvægur hluti af námi og menntun. Þess vegna höfum við öll haft miklar áhyggjur af takmörkuðu aðgengi barna og ungs fólks að menntastofnunum, og því miður eru vísbendingar um að börn og ungmenni sem eru í viðkvæmri stöðu, hafi farið verr út úr samkomubanni og skertu skólastarfi en önnur,“ sagði Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, í ávarpi sínu á rafrænu málþingi um kófið og menntakerfið sem fór fram í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í síðustu viku.

Fræðimenn við Menntavísindasvið kynntu þar frumniðurstöður á viðamiklum könnunum á framkvæmd skóla- og frístundastarfs á tímum samkomubanns vorið 2020. Tilgangur þessara kannana var að varpa ljósi á hvaða áhrif samkomubann og takmarkanir á skólahaldi höfðu á fyrirkomulag kennslu, þjónustu og stuðning við börn, ungmenni, nemendur, kennara og annað starfsfólk. 

Áskoranir og tækifæri

Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir lektor fjallaði um áhrif samkomubanns á nám barna í leikskólum og hlutverk kennara. Niðurstöður byggja á spurningakönnun sem send var á leikskólastjórnendur síðastliðið vor og viðtölum við stjórnendur og starfsfólk leikskóla. Í langflestum leikskólum þurfti að fækka börnum í hverjum hóp, með skerðingu viðverudaga eða styttingu viðveru í takt við sóttvarnarreglur. Fækkun barna í hópum hafði þau jákvæðu áhrif að leikskólabörnin nutu sín betur, leikurinn varð dýpri, andrúmsloftið varð rólegra, minna var um árekstra og hlédrægu börnin blómstruðu. Niðurstöðurnar gefa til kynna að tækifæri eru fólgin í því draga úr hraða og stífu dagskipulagi með því að fækka börnum í hverju rými.

Kristín Jónsdóttir dósent skoðaði áhrif fyrstu bylgju COVID-19 á grunnskólastarf og samskipti við foreldra. Niðurstöður sýna að skólastjórnendur í grunnskólum telja foreldra frekar hafa haft áhyggjur af líðan barna sinna en námsárangri þeirra. Huga þarf enn betur að viðkvæmum nemendum og skapa foreldrum fjölbreyttari tækifæri til taka þátt í námi barna. Meirihluta stjórnenda fannst gaman að glíma við þær áskoranir sem COVID-19 færði þeim og þeir telja líklegt að áhrifin á kennsluhætti í skólunum verði til frambúðar. 

Ársæll Már Arnarsson prófessor greindi frá reynslu stjórnenda félagsmiðstöðva og frístundaheimila af skipulagi frístundastarfs á tímum samkomubanns. Samkomubann hafði mikil áhrif á félagslega þátttöku og samskipti við jafningja enda sýndu gögnin að mun færri börn mættu en ella. Um fjórðungur félagsmiðstöðva og frístundaheimila buðu upp á rafrænt starf af einhverju tagi. Mikill meirihluti þeirra sem notuðust við rafrænt frístundastarf báru því vel söguna. Nokkuð vel gekk fá börn til þátttöku en þó var erfiðara að ná til barna í viðkvæmri stöðu.

Guðrún Ragnarsdóttir lektor kynnti niðurstöður könnunar sem lögð var fyrir starfsfólk í framhaldsskólum. Nærri 90% þeirra kennara sem svöruðu könnuninni sinntu fjarkennslu alfarið eða að mestu utan skólans á tímum samkomubanns. Niðurstöðurnar sýna að margir töldu vinnuumhverfið óskýrara og flóknara en áður, vinnuálagið jókst og streita færðist í vöxt. Samhliða þessum flóknu starfsaðstæðum tileinkuðu þó flestir framhaldsskólakennarar sér nýjungar í kennslu. Mikilvægt sé að þróa betur samvinnunámsaðferðir í fjarkennslu og næra með markvissari hætti félagsleg samskipti nemenda.

Sólveig Jakobsdóttir prófessor sagði frá niðurstöðum um tækninotkun í grunn- og framhaldsskólum. Meirihluti kennara sagði notkun sína á stafrænni tækni hafa aukist og taldi kennsluhætti hafa breyst verulega. Meirhlutinn taldi skóla vel búna tækjum og aðgengi nemenda að tækni duga vel til samskipta og fjarnáms. Þó lýstu margir grunnskólakennarar áhyggjum af litlu aðgengi sumra barna að tækni og litlum stuðningi foreldra á sumum heimilum. Allmargir framhaldsskólakennarar sögðu að erfitt hefði verið að ná til allra nemenda og halda þeim við efnið og að vinna þeirra hefði aukist umtalsvert. Margir kennarar sögðust hafa lært á nýja tækni sem ætti eftir að ýta undir fjölbreytni við kennslu, námsmat og verkefnaskil og sumir töldu hópa nemenda hafa blómstrað. Margir töldu sjálfstæði og ábyrgð grunnskólanema hafa aukist.

Ruth Jörgensdóttir aðjunkt greindi frá rannsókn á reynslu þroskaþjálfa í grunn- og framhaldsskólum af áhrifum samkomubanns á þjónustu við nemendur. Þroskaþjálfar starfa í auknum mæli í grunn- og framhaldsskólum og starfa með nemendum sem þurfa stuðning. Niðurstöður benda eindregið til að þjónusta skertist mest hjá þeim sem þurfa mestan stuðning. Börn sem áttu félagslegt samskiptanet fyrir heimsfaraldurinn viðhéldu því og jafnvel styrktu, sérstaklega á netmiðlum. Niðurstöður benda til þess að börn sem voru félagslega jaðarsett fyrir samkomubann hafi einangrast enn frekar. Brýnt er að tryggja virka þátttöku og menntun allra og nýta fagþekkingu þroskaþjálfa enn betur.

Traust samvinna lykillinn að árangri

„Rannsóknir af þessum toga eru gríðarlega mikilvægar, bæði til að draga upp ákveðna mynd af stöðunni – en einnig til að greina lærdóminn og tækifærin sem í umbreytingum felast,“ lýsir Kolbrún og bætir við að framundan sé áframhaldandi úrvinnsla gagna og nú þegar séu í bígerð fjölmargar fræðigreinum. Stefnt er að því að sérrit Netlu um COVID-19 og menntakerfið komi út á næstunni.

 „Traust samvinna er lykillinn að því að við náum árangri og ég er sannfærð um að það er einn af styrkleikum þeirra kannana sem kynntar voru að sjónum er beint að viðhorfi og reynslu ólíkra fagstétta, þ.e. kennara, stjórnenda, þroskaþjálfa, náms- og starfsráðgjafa og stjórnenda í frístundastarfi. Allar þessar fagstéttir og fleiri til leika lykilhlutverk í lífi barna og ungmenna og mynda saman grunnstoðir menntakerfisins,“ sagði Kolbrún að endingu.

Málþingið er hið fyrsta í röð viðburða sem haldnir verða haustið 2020 til þess að ræða áskoranir og tækifæri í menntakerfinu á tímum heimsfaraldursins. Að málþinginu standa mennta- og menningarmálaráðuneyti, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga.
 

 „Traust samvinna er lykillinn að því að við náum árangri og ég er sannfærð um að það er einn af styrkleikum þeirra kannana sem kynntar voru að sjónum er beint að viðhorfi og reynslu ólíkra fagstétta, þ.e. kennara, stjórnenda, þroskaþjálfa, náms- og starfsráðgjafa og stjórnenda í frístundastarfi. Allar þessar fagstéttir og fleiri til leika lykilhlutverk í lífi barna og ungmenna og mynda saman grunnstoðir menntakerfisins,“ sagði Kolbrún að endingu.