Skip to main content
26. febrúar 2021

Helgarkveðja

Helgarkveðja - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (26. febrúar):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Tvennt bar hæst í Háskóla Íslands í vikunni sem nú er að líða. Annars vegar urðu mjög jákvæðar tilslakanir heilbrigðisyfirvalda á reglum um samkomubann sem hafa í för með sér aukið svigrúm í starfi okkar hér í Háskóla Íslands. Hins vegar hófst á miðvikudagsmorgun mjög öflug jarðskjálftahrina á Reykjanesi sem hefur eðlilega valdið mörgum ugg í brjósti og kvíða. 

Ef við beinum sjónum fyrst að sóttvörnum þá búum við hér við þá sérstöðu að vera það Evrópuríki sem hefur fæst kórónuveirusmit á hverja 100 þúsund íbúa. Þessar tölur ná til síðustu tveggja vikna. Þetta getum við m.a. þakkað viðbrögðum okkar allra við þeim reglum sem settar hafa verið af sóttvarnayfirvöldum. Ég hvet ykkur öll til að halda áfram á sömu braut. 

Mikilvægt er að kynna sér vandlega nýju reglurnar frá heilbrigðisráðuneytinu sem varða starf háskóla. Ég bendi ykkur, kæru nemendur, líka á að deildir Háskóla Íslands, námsleiðir og einstakir kennarar útfæra fyrirkomulag kennslu á grundvelli þessara reglna.

Þegar jörð skelfur eins og við höfum upplifað í vikunni kemur enn og aftur í ljós hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem þjóð að eiga vel menntaða sérfræðinga á sviði jarðvísinda. Vísindamenn okkar hafa bent á þann möguleika að losun spennu í jarðskorpunni á Reykjanesi, sem byggst hefur upp í áratugi, auki líkur á frekari skjálftum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Hús hér á landi eru almennt byggð til að þola jarðskjálfta eins og á Reykjanesskaga. En þegar kemur að nærumhverfinu kemur til okkar kasta. Við viljum því hvetja fólk til að huga að vinnuumhverfi sínu með þetta í huga. Hafa t.d. ekki þunga hluti efst í bókahillum. Sérstaklega ætti að athuga hillur og skápa þar sem efni eru geymd auk þess sem mikilvægt er að gaskútar séu festir kyrfilega. Ég hvet ykkur öll til að skoða viðbrögð við jarðskjálftum á vef Almannavarna. Einnig vek ég athygli á sálfræðiþjónustu skólans varðandi stuðning vegna mögulegs kvíða sem tengist atburðum vikunnar. 

Ég hef áður sagt að þekkingin er gjaldmiðill framtíðarinnar og það á svo sannarlega við á stafræna Háskóladeginum sem haldinn er á morgun, laugardag. Þá geta landsmenn kynnt sér námsframboð allra háskóla landsins á hundruðum fjarfunda í beinu streymi. Gríðarlegur undirbúningur hefur farið fram síðustu vikurnar hér í Háskóla Íslands þar sem fjöldi nemenda og starfsfólks hefur lagt mikilvæg lóð á vogarskálarnar. Stór hluti þessa fólks mun svo kynna námið á morgun og sitja fyrir svörum á opnum stafrænum fundum. Fyrir þetta mikilvæga framlag vil ég þakka af heilum hug. Með stafrænum Háskóladegi gerum við tilraun á tímum COVID-19 en í þessu felast líka ný og spennandi tækifæri þar sem fólk getur nú kynnt sér nám án tillits til staðsetningar á landinu. Ég óska ykkur öllum velgengni á þessum mikilvæga degi okkar á morgun. 

Á morgun verðum við líka með spjallþátt í beinu streymi sem hefur fengið heitið Vísindi á mannamáli. Fjöldi fræðafólks úr Háskólanum mætir þá í Hátíðasal til að ræða starf sitt og rannsóknir ásamt því að spjalla um áhugamál sín á persónulegum nótum. 

Ég hvet ykkur til að horfa og þakka öllum þeim sem taka þátt í þessu verkefni. 

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Það er annasöm helgi fram undan hjá mörgum okkar en ég beini því til ykkar að fara varlega og huga að því jákvæða í tilverunni. 

Góða helgi, 
Jón Atli Benediktsson, rektor“

nemendur á Háskólatorgi