Skip to main content

Þýska

Þýska

Hugvísindasvið

Þýska

MA gráða – 120 einingar

Meistaranám í þýsku er einstaklingsmiðað framhaldsnám með sérhæfingu á sviði málvísinda, bókmennta eða þjóðlífs og menningar þýska málsvæðisins. Í náminu fá nemendur þjálfun í sjálfstæðum fræðilegum vinnubrögðum.

Skipulag náms

X

Málnotkun og framsetning: Þýska (ÞÝS703F)

Hagnýtar æfingar í málfræði, textagreiningu, ritun og munnlegri framsetningu fyrir nemendur í meistaranámi.

X

Þýsk menningarsaga A (ÞÝS104F, ÞÝS702F)

Veitt verður yfirlit yfir þýska menningarsögu frá Bach til samtímans. Sýnt verður hvernig hugmyndasagan endurspeglast í bókmenntum, tónlist, myndlist og vísindum og byggist greiningin á hinum þverfaglegu tengslum þessara sviða. Lögð verður áhersla á ákveðna hugsuði, skáld og listamenn sem  dæmigerða fulltrúa fyrir tilteknar stefnur (t.d. barokk og rómantík). Nemendur skrifa fræðilega ritgerð um valið efni en nemendum í hagnýtri þýsku stendur til boða að velja í staðinn verkefni sem lýtur að miðlun íslenskrar menningar til þýskumælandi markhópa.

Þeir nemendur sem þegar hafa lokið námskeiðinu ÞÝS702F Þýska og þvermenningarleg tjáskipti þurfa ekki að taka þetta námskeið, en nemendur í námsleiðunum MA í þýsku og MA-nám í þýsku í ferðaþjónustu og miðlun geta þó tekið það sem valnámskeið.

X

Einstaklingsverkefni í þýskum þýðingum A (ÞÝS103F)

Þýðing valins texta með tilheyrandi textagreiningu, hugleiðingu um þýðingaraðferðir og athugasemdum.

X

Á slóðum bókmennta og menningar í Austurríki, Þýskalandi og Sviss (ÞÝS701M)

Í námskeiðinu verður fjallað um menningu og bókmenntir þýskumælandi landa þar sem áhersla er lögð á þætti sem reynast vel í ferðaþjónustu og miðlun.

X

Ritstjórn og fræðileg skrif (ÍSL101F)

Þjálfun í ýmsum þáttum er varða ritun fræðilegs efnis og ritstjórn. Ólíkar gerðir fræðilegra ritsmíða skoðaðar og metnar. Þjálfun í því að gera athugasemdir við skipulag og framsetningu á fræðilegum texta og í öðrum þáttum ritstjórnar. Áhersla lögð á ritun fræðilegra greina, en einnig hugað að samningu smærri verka (ráðstefnuútdrátta, ritdóma) og stærri (M.A.-ritgerða, doktorsritgerða, bóka). Fjallað um rannsóknaráætlanir, frágang handrita og ritstuld. Tekin dæmi af textum um ýmis efni, einkum málfræðileg,  bókmenntaleg og sagnfræðileg. Stuðst við bókina Skrifaðu bæði skýrt og rétt (Höskuldur Þráinsson 2015).

Námskeiðið er opið nemendum á mörgum námsleiðum í MA-námi á Hugvísindasviði skv. reglum viðkomandi greina. Nemendur á MA-stigi í íslenskum bókmenntum, íslenskri málfræði, íslenskum fræðum og íslenskukennslu geta fengið námskeiðið metið sem hluta af þeirri skyldu sem þeir þurfa að uppfylla í meistarastigsnámskeiðum í íslenskum bókmenntum eða íslenskri málfræði. Nemendur í MA-námi í íslenskukennslu geta þó ekki haft þetta námskeið sem eina málfræði- eða bókmenntanámskeiðið á MA-ferlinum.

X

Tungumál og menning I (MOM301F)

Viðfangsefni námskeiðsins eru margvísleg tengsl menningar og tungumála út frá hugmyndasögulegum, félags- og málvísindalegum forsendum. Gömul og ný heimsmál verða kynnt, tilurð þeirra, áhrif og afleiðingar. Fjallað verður um talmál og ritmál: Hvað er skrifað, hvers vegna og hvernig? Reglur og ólík viðhorf til tungumála eru rædd og velt verður upp spurningum um tengsl mannsins við hugsun og tungumál.

X

Þýðingafræði (ÞÝÐ027F)

Inngangsnámskeið í fræðunum þar sem farið verður yfir helstu kenningar tuttugustu aldar á þessu sviði. Nemendur lesa lykiltexta úr fræðunum (sem sumir eru nú til í íslenskri þýðingu), flytja erindi um einn höfundinn og verk hans, þýða einn slíkan fræðitexta og einn bókmenntatexta að eigin vali.

X

Þýðingar og þýðingatækni (ÞÝÐ028F)

Þetta námskeið er helgað þeirri tækni sem þýðendur og aðrir geta notað til við störf sín. Þýðingaminni verða skoðuð og þjálfuð notkun þeirra og gerð samsíða textasafna. Notkun orðabóka, rafrænna og annarra, gagnabanka og internetsins og annarra hjálpargagna. Málstefna og íðorðafræði. Starfsvið þýðenda. Nýtt verður verður reynsla þeirra í hópnum sem hafa starfsreynslu fyrir. Nemendur halda fyrirlestur um tiltekið svið, vinna við orðtöku og kynna nýjustu tækni í vinnuhópi.

X

Stjórnkerfi, saga og menning: Þýska (ÞÝS804F)

Umfjöllun um stjórnkerfi, sögu og menningu þýskumælandi landa. Gert er ráð fyrir að nemendur búi þegar yfir grunnþekkingu á þessum sviðum.

X

Blitz aus heiterem Himmel: Hagnýtur samanburður á íslensku og þýsku (ÞÝS808M)

Umfjöllun um valin svið íslenskrar og þýskrar tungu á samanburðargrundvelli með hagnýtt gildi að leiðarljósi.

X

Þýska sem erlent tungumál á Íslandi (ÞÝS003F)

Í námskeiðinu verður lögð áhersla á að dýpka þekkingu nemenda á grunnaðferðum í þýsku sem erlends máls og hagnýtri beitingu þeirra. Einnig verður skoðað hvernig aðferðafræði í þýskukennslu hefur breyst og þróast með tilkomu nýrra nálgana. Þessar breytingar lúta að nýjum tegundum verkefna, nýrri nálgun í námsmati og gerð prófa, aukinni áherslu á tjáningarhæfni sem og nýrri nálgun í þvermenningarlegu og sjálfstýrðu námi. Einnig verður rætt hvaða efni og aðferðir höfði helst til íslenskra nemenda. Vinna í námskeiðinu byggist á hópumræðum og samspili kynninga og umræðna.

X

Einstaklingsverkefni í þýskum þýðingum B (ÞÝS203F)

Þýðing valins texta með tilheyrandi textagreiningu, hugleiðingu um þýðingaraðferðir og athugasemdum.

X

Íslensk og erlend setningagerð (ÍSM703F)

Markmið þessa námskeiðs er að efla skilning þátttakenda á setningafræði með því að bera valin atriði í íslenskri setningagerð saman við hliðstæð fyrirbæri í öðrum málum, bæði skyldum og óskyldum. Gert er ráð fyrir því að allir nemendur hafi nokkra undirstöðuþekkingu í setningafræði en að öðru leyti verður reynt að koma til móts við mismunandi bakgrunn og væntingar nemenda, jafnvel með því að skipta hópnum í einstökum tímum eftir undirstöðu og áhugasviði nemenda. Námskeiðið á þannig bæði að geta nýst framhaldsnemum í íslenskri málfræði og málvísindum, sem hafa fyrst og fremst fræðilegan áhuga á íslenskri setningagerð, en einnig framhaldsnemendum í öðrum tungumálum, nemendum á menntavísindasviði og nemendum í þýðingafræði, enda hafi þeir allir einhverja undirstöðuþekkingu á setningafræði.

X

Tungumál og menning II: Evrópsk menntahefð (MOM402M)

Evrópsk mennta- og umræðuhefð einkennist af sterkum tengslum háskóla og samfélags. Margir áhrifamestu hugsuða Evrópu á 19. og 20. öld störfuðu utan háskólanna og margir þeirra sem áttu hefðbundinn starfsferil innan háskólanna voru líka virkir samfélagsgagnrýnendur, skiptu sér af stjórnmálaumræðu dagsins og höfðu jafnvel talsverð áhrif. Í námskeiðinu lítum við á verk nokkurra valinna evrópskra hugsuða sem eiga það sameiginlegt að hafa verið áhrifamiklir jafnt í fræðunum sem á vettvangi samfélagsumræðunnar. Um leið hugleiðum við stöðu hins „evrópska“ – að hvaða leyti verk þessara hugsuða eru í eðli sínu evrópumiðuð og að hvaða marki við sjáum skilning á menningarlegri óvissu koma fram.

X

Orðræðugreining, þýðingar og túlkun (ÞÝÐ029F)

Markmiðið með þessu námskeiði er að nota aðferðir málvísinda og þýðingafræða til að rannsaka mállegan grunn samfélagsins, hvaðan hann kemur og hvað mótar þá orðræðu sem myndar hann og myndast af honum. Með aðferðum orðræðugreiningar verða frumtextar og þýðingar lagatexta, viðskiptatexta, fjölmiðlatexta o.fl. greindir og síðan litið til þess hvernig þær þýðingar sem þar fara fram skila sér inn í almennari orðræðu samfélagsins. Í tengslum við þetta verða tekin fyrir praktísk verkefni á sömu sviðum þar sem nemendur spreyta sig á þýðingum skjala, samninga, vottorða og annarra nytjatexta og verða niðurstöður ræddar í vinnuhópum.

X

Þýðingasaga (ÞÝÐ030F)

Fjallað um sögu þýðinga, einkum á Vesturlöndum og svo á Íslandi. Farið verður yfir helstu hátinda þýðingasögunnar frá fornöld til nútíma. Litið verður á valda texta sem markað hafa þáttaskil í þýðingasögu eins og reyndar bókmennta- og mannkynssögunni (Cicero, Hóras, Hierónymus, Erasmus, Lúther, Oddur, Dolet o.fl.). Einkum verður litið til röksemda og verka þýðenda á sömu sviðum til samanburðar, t.d. biblíuþýðenda, ljóðaþýðenda o.s.frv. Nemendur taka fyrir einn fræðimann eða stefnu og halda erindi auk þess sem þýddur verður texti á því sviði. Einnig þýða nemendur bókmenntatexta frá því fyrir 1900. Námskeiðinu lýkur síðan með málstofu í þýðingarýni þar sem nemendur rýna í eina þýðingu að eigin vali.

X

Sumarnámskeið í Þýskalandi (ÞÝS007F)

Nemendur velja sér sumarnámskeið við háskóla eða viðurkenndan málaskóla í þýskumælandi landi í samráði við kennara í þýsku. Námskeiðið þarf að vera á færnistigi C1 hið minnsta og spanna að jafnaði a.m.k. 80 (45 mínútna) kennslustundir. Ekki er tekið þátt í kostnaði við þátttöku í námskeiðinu.

X

Þáttagerð. Vinnsla fræðilegs efnis fyrir útvarp (í samvinnu við RÚV) (BLF201M)

Markmiðið með námskeiðinu er að gefa nemendum tækifæri til að koma rannsóknum sínum og annarra á framfæri við hlustendur Ríkisútvarpsins, jafnframt því að rýna í samfélag og menningu á fræðilegum forsendum. Nemendum gefst um leið tækifæri til að kynnast útvarpinu sem miðli, fá reynslu af þáttagerð og kynnast verklagi reynds fjölmiðlafólks.

Á meðal þess sem rætt verður um á námskeiðinu er: Ríkisútvarpið sem miðill, útvarp sem farvegur fræða, gerð fléttuþátta fyrir útvarp, viðtöl við fræðimenn, hvernig nýta megi eigin sérfræðiþekkingu við dagskrárgerð og krafturinn sem býr í hinu ósagða.  Rætt verður um talmál og tónlist í safni Ríkisútvarpsins. Lögð verður áhersla á hvernig tækni hefur þróast varðandi varðveislu og afspilun og hvernig hægt er að flétta eldri upptökur inn í nýja dagskrá.

Auk þessa fræðast nemendur um handritsgerð, viðtöl og vinnu í hljóðstofu. Þættir nemenda verða á dagskrá Ríkisútvarpsins á komandi vetri.

X

Meistararitgerð í þýsku (ÞÝS441L, ÞÝS441L, ÞÝS441L)

Meistararitgerð í þýsku.

X

Meistararitgerð í þýsku (ÞÝS441L, ÞÝS441L, ÞÝS441L)

Meistararitgerð í þýsku.

X

Meistararitgerð í þýsku (ÞÝS441L, ÞÝS441L, ÞÝS441L)

Meistararitgerð í þýsku.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hafðu samband

Þjónustuborð Hugvísindasviðs
s.525 4400 hug@hi.is.
Opið virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.

3. hæð Aðalbyggingar.
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík.

Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér þjónustuborð á Háskólatorgi.

Fylgstu með Hugvísindasviði

 Instagram   Youtube 
 Facebook

Aðalbygging Háskóla Íslands

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.