Skip to main content

Stjórnun og hönnun þjónustu

Stjórnun og hönnun þjónustu

Félagsvísindasvið

Stjórnun og hönnun þjónustu

MS gráða – 90 einingar

Framhaldsnám í Stjórnun og hönnun þjónustu til MS gráðu (áður MS í þjónustustjórnun) er í senn hagnýtt og fræðilegt nám fyrir þau sem vilja öðlast þekkingu og skilning á þeim sértæku úrlausnarefnum er tengjast stjórnun í þjónustufyrirtækjum eða stofnunum.

Skipulag náms

X

Stjórnun þjónustu (VIÐ174F)

Með námskeiðinu fá nemendur tækifæri til að afla og tileinka sér góða og hagnýta þekkingu á stjórnun þjónustu. Í námskeiðinu er farið yfir lykilatriði kenninga um stjórnun þjónustu, ekki síst varðandi hönnun og veitingu þjónustu. Mikil áhersla er á að vinna með dæmi í samhengi við hagnýt úrlausnarefni. Kennslan er umræðumiðuð með áherslu á vendikennslu og yfirferð raundæma. Árangur og ánægja nemenda veltur á undirbúningi fyrir tímana og virkni í umræðu sem tekur mið af lesefni, dæmisögum og raunverkefnum. Nemendur vinna bæði viðamikið hópverkefni og einstaklingsverkefni þar sem áhersla er lögð á bæði fræðilega og hagnýta nálgun í tengslum við atvinnulífið. Verkefnin er kynnt í tíma á bæði vinnslustigi og lokastigi. Lögð er rík áhersla á virkni og þátttöku nemenda í námskeiðinu.

X

Fólk, form og ferlar (VIÐ1A8F)

Útgangspunktur námskeiðsins er Servuction líkanið en það fjallar um þá þætti, jafnt áþreifanlega sem óáþreifanlega, sem hafa áhrif á upplifun og reynslu viðskiptavina af veittri þjónustu. Óáþreifanlegir þættir eru þau kerfi, stefna og fyrirkomulag sem tengjast þjónustunni á meðan að áþreifanlegir þættir snúa að umgjörðinni, þjónustuvettvanginum og því fólki sem að framkvæmd þjónustunnar kemur.

X

Eigindleg aðferðafræði (VIÐ184F)

Markmið námskeiðsins er að gefa nemendum yfirsýn yfir eigindlegar aðferðir, sem notaðar eru til að safna og greina gögn um einstaklinga og skipulagsheildir. Nemendur munu fá þjálfun í að skilgreininga vandamál og semja rannsóknarspurningu. Þá munu nemendur skipuleggja og framkvæma gagnasöfnun, úrvinnslu gagna og greina frá niðurstöðum skriflega. Nemendur munu kynnast veikum og sterkum hliðum  mismunandi aðferða innan eigindlegra rannsóknaraðferða, þannig að þeir geti valið þá aðferð, sem best hentar til að leysa tiltekið vandamál.

X

Þjónustugæði og þjónustumat (VIÐ284M)

Í námskeiðinu er lögð áhersla á að nemendur hafi fræðilegar forsendur til að vinna með aðferðir þjónustumælinga hvort sem er út frá fræðilegu sjónarhorni eða hagnýtu. Nemendur vinna að framkvæmd þjónustumælinga í samráði við fyrirtæki eða stofnun og vinna skýrslu þar sem fram kemur rökstudd tillaga um með hvaða hætti á að forgangsraða úrbótaþáttum. Samhliða þessu verkefni vinna nemendur að fræðilegu yfirliti um eitthvert það viðfangsefni er tengist þjónustugæðum og þjónustumælingum.

X

Stefnumiðuð stjórnun (VIÐ265F)

Námskeiðið miðar að því gegnum fyrirlestra og kennsluefni að nemendur tileinki sér þekkingu af hinum fjölbreytta fræðilega grunni sem til er í faginu. Gegnum vinnu með dæmisögur og íslensk raundæmi, bæði í fyrirlestrum og í verkefnavinnu námskeiðsins, er markvisst ýtt undir leikni og hæfni nemenda. Í námskeiðinu er horft á stefnumiðaða stjórnun út frá nokkrum sjónarhólum og út frá mismunandi gerðum fyrirtækja. Kennslan tekur mið af því að nám er ferli til að bæta kunnáttu þar sem saman fer inntak námskeiðsins, samhengi þess og framvinda lærdóms með hliðsjón af tilgangi og markmiðum þeirra aðila sem að ferlinu koma. Allt starf í námskeiðinu miðast að því að nemendur nái sem bestum árangri – en námsárangurinn veltur að sjálfsögðu á virkni og ástundun nemandans.

X

Hönnun þjónustu og viðskiptaráðgjöf (VIÐ298F)

Námskeiðið gerir nemendum kleift að afla og tileikna sér góða og hagnýta þekkingu á aðferðum við hönnun þjónustu og færni til að veita viðskiptatengda ráðgjöf við hönnun og þróun þjónustu. Meginmarkmiðið er að nemandi nái góðum tökum á þróun þjónustu með aðferðum hönnunar og viðskiptaráðgjafar. Í námskeiðinu er farið yfir lykilatriði kenninga og aðferða á sviði hönnunar þjónustu (service design thinking) og á sviði viðskiptaráðgjafar (business consulting). Mikil áhersla er á að vinna með hagnýt úrlausnarefni gegnum aðgerðamiðað vinnuferli. Kennslan er umræðumiðuð með áherslu á sýnidæmi og yfirferð raundæma. Árangur og ánægja nemenda veltur á undirbúningi fyrir tímana og gegnum þátttöku í tímum. Nemendur vinna bæði viðamikið hópverkefni og einstaklingsverkefni þar sem áhersla er lögð á bæði fræðilega og hagnýta nálgun í tengslum við atvinnulífið. Verkefnin er kynnt í tíma á bæði vinnslustigi og lokastigi. Lögð er rík áhersla á virkni og þátttöku nemenda í námskeiðinu.

X

MS ritgerð (ÞST401L)

Meistaraprófsritgerð skal valin í samráði við leiðbeinanda (leiðbeinendur) úr hópi fastra kennara Viðskiptafræðideildar.
Ritgerðin skal vera 30 einingar og kynna nemendur niðurstöður rannsókna sinna.
Ritgerð skal skilað rafrænt í samræmi við auglýsingu þar að lútandi hverju sinni. Kennari og prófdómari skulu meta meistaraprófsritgerð til einkunnar samkvæmt almennum prófreglum Háskóla Íslands.

Ath.! Skv. reglum Háskóla Íslands eiga allar MS ritgerðir eiga að vera opnar eftir að þeim hefur verið skilað til Háskólabókasafns.
Æski stúdent þess að MS ritgerð hans verði lokuð í tiltekinn tíma, að lokinni brautskráningu, ber honum að senda rökstudda beiðni til sviðsstjóra Kennslusviðs HÍ og fá skriflegt samþykki hans. Æskilegt er að sótt sé um heimildina áður en ritgerðaskrif hefjast.

Umsókn um lokun meistararitgerða.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

María Jóna Samúelsdóttir
Lísa Björg Ingvarsdóttir, viðskiptastjóri GoPro
Heiður Ýr Guðjónsdóttir
María Jóna Samúelsdóttir
MS í þjónustustjórnun

Ég valdi Háskóla Íslands því námið er mikils metið á vinnumarkaði, góðir kennarar og fræðimenn starfa við skólann. Námið er skemmtilegt og fjölbreytt og mikið er unnið með raundæmi úr atvinnulífinu. Námsleiðirnar eru spennandi og ný námsleið, meistaranám í Þjónustustjórnun vakti sérstakan áhuga minn. Ég er viðskiptafræðingur í grunninn og hef allan minn starfsferil starfað við sölu, markaðsmál og vörumerkjastjórnun. Mikilvægi þjónustu vegur sífellt þyngra í starfsemi fyrirtækja og því finnst mér þessi námsleið góður valkostur fyrir mig, þar sem grunnur minn og starfsreynsla nýtast gríðarlega vel sem undirstaða fyrir þetta nám. Með náminu mun ég útvíkka sérhæfni mína og mögulegur starfsvettvangur mun stækka verulega.

Lísa Björg Ingvarsdóttir, viðskiptastjóri GoPro
MS í þjónustustjórnun

Ég hóf nám í mannauðsstjórnun haustið 2015 með vinnu, en skipti svo yfir í þjónustustjórnun þegar boðið var fyrst upp á þá námsleið árið 2017 og útskrifaðist úr þjónustustjórnun á mannauðslínu í febrúar 2019. Ég valdi að læra við Háskóla Íslands, þar sem ég hafði bakgrunn þaðan og ég vissi að hjá skólanum starfa mjög færir fræðimenn og kennarar sem kunna sitt fag. Mér fannst námið mjög vel skipulagt og alveg frábær grunnur fyrir stjórnendur og starfsfólk sem vinnur í þjónustufyrirtækjum, sem og í annars konar rekstri. Námið er faglega uppsett, skemmtilegt og eru stór verkefni unnin með fyrirtækjum í atvinnulífinu sem er mjög praktískt og lærdómsríkt. Ég hlakka til að taka þá þekkingu sem ég aflaði mér í náminu og nýta hana í atvinnulífinu.

Heiður Ýr Guðjónsdóttir
MS í þjónustustjórnun

Ég valdi þjónustustjórnun því að ég vissi að það væri nám sem gæti komið mér að góðum notum þar sem þjónustumál fyrirtækja og stofnana hafa rými til að vaxa hér á landi. Námið er nýtt og því spennandi að sjá hvernig það þróast áfram. Mikill lærdómur er fólginn í því að hlusta á kennara, aðra nemendur og þá einstaklinga sem nemendur fá tækifæri til að hitta á vinnumarkaðnum út frá verkefnavinnu. Kennslan er fjölbreytt og skemmtileg og í nokkrum fögum er unnið með raundæmi sem kenna nemendum hvernig hægt er að samtvinna akademíuna og atvinnulífið sem ég tel mjög mikilvægt.

Hafðu samband

Nemenda- og kennsluþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500 
Netfang: nemFVS@hi.is

Opið virka daga frá 09:00 - 15:00 
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík

Bóka viðtal við nemenda- og kennsluþjónustu Félagsvísindasviðs

Viðskiptafræðideild á samfélagsmiðlum

 Instagram    Facebook

Gimli, Háskóli Íslands

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.