Starfstengd leiðsögn og kennsluráðgjöf, M.Ed.


Starfstengd leiðsögn og kennsluráðgjöf
M.Ed. gráða – 120 einingar
Náminu er ætlað að efla leiðsagnarhæfni þeirra sem veita kennaranemum og nýliðum leiðsögn eða starfstengda ráðgjöf á sviði menntunar, í leik-, grunn- og framhaldsskólum.
Með sérhæfingunni er komið til móts við brýna þörf á sérstakri menntun fyrir kennara sem annast starfstengda leiðsögn í skólum.
Skipulag náms
- Haust
- Starfstengd leiðsögn – leiðsagnarhlutverkið
- Þróunarstarf í menntastofnunum
- RáðgjafarkenningarB
- Vor
- Leiðsögn og samvinna
- Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðum
- Inngangur að megindlegum rannsóknaraðferðum
- StarfendarannsóknirB
- Kenningar um nám: Hagnýting og rannsóknirB
Starfstengd leiðsögn – leiðsagnarhlutverkið (STM104F)
Námskeiðið er ætlað kennurum á öllum skólastigum og öðrum sem annast starfstengda leiðsögn á sviði uppeldis og menntunar. Námskeiðið er grunnnámskeið á námssviðinu/námsleiðinni Starfstengd leiðsögn á sviði uppeldis og menntunar en einnig er hægt að taka það sem stakt valnámskeið.
Tilgangur námskeiðisins er að nemendur öðlist þekkingu og skilning á starfstengdri leiðsögn, markmiðum með slíkri leiðsögn, leiðsagnarhlutverki kennara og leiðsagnaraðferðum, og geti beitt þekkingunni í starfi. Stefnt er að því að nemendur geti nýtt sér helstu kenningar um starfstengda leiðsögn og fræðileg hugtök til að ræða og skipuleggja eigið starf sem leiðsagnarkennarar. Áhersla er lögð á að nemendur verði meðvitaðir um hvernig starfstengd leiðsögn getur eflt faglega starfshæfni einstaklinga og hópa, m.a. nemenda í vettvangsnámi, nýliða í kennslu, reyndra kennara og annars fagfólks. Lögð er áhersla á hagnýta þjálfun í starfstengdri leiðsögn sem leið til aukinnar fagmennsku og hugað er að ábyrgð og samstarfi leiðsagnarkennara og þeirra sem njóta leiðsagnarinnar.
Þróunarstarf í menntastofnunum (STM110F)
Markmið þessa námskeiðs er að þátttakendur öðlist hagnýta og fræðilega þekkingu á einkennum þróunarstarfs og þáttum í menningu menntastofnana sem stuðla að umbótum eða hindra þær. Jafnframt öðlist þeir leikni í að skipuleggja og leiða þróunarstarf, starfsþróunartækifæri og móta þróunaráætlanir. Byggt er á kenningum um faglegt lærdómssamfélag sem gerir ráð fyrir að faglegt nám og þróun stofununar séu nátengd.
Í lok námskeiðsins eiga nemendur að:
- hafa skilning á helstu hugtökum og kenningum um þróun menntastofnana og skóla sem og frístundastofnana sem lærdómssamfélags,
- geta tekið faglegar ákvarðanir um leiðir í starfs og skólaþróun sem og þróun frístundastofnana og rökstutt þær,
- geta aflað fjölbreyttra gagna um þróunarstarf og metið gildi þeirra,
- geta beitt hugtökum, kenningum, líkönum og aðferðum á raunveruleg viðfangsefni,
- geta átt frumkvæði og haft forystu um rannsóknar- og þróunarverkefni í mennta- og frístundastofnunum til að efla fagmennsku,
- geta greint leiðir til að efla kennara og starfsfólk frístundastarfi í með þátttöku alls samfélagasins.
Námskeiðið er skipulagt í lotum með fjarnámssniði, staðlotur (skyldumæting er í fyrri staðlotu) eru tvær auk kynninga á lokaverkefnum. Þess á milli fer fram lestur fræðilegs efnis, verkefnavinna og samræður þátttakenda. Auk þess býðst nemendum að taka þátt í umræðutímum um viðfangsefnin. Verkefni námskeiðsins eru hagnýt og tengjast þróunarstarfi og leiðsögn við raunverulegar aðstæður. Lögð er áhersla á samræðu og samstarf nemenda samhliða sjálfstæði í vinnubrögðum og frumkvæði auk virkni í umræðum og lestri fræðilegs efnis.
Námsmat byggir á fjölbreyttum verkefnum sem ýmist eru unnin í samvinnu við aðra eða eru einstaklingsverkefni.
Ráðgjafarkenningar (NSR007F)
Í námskeiðinu er farið yfir helstu ráðgjafarkenningar og hvernig hægt er að nýta þær til að greina samskipti og viðfangsefni í ráðgjöf og skipuleggja frekari aðstoð. Hugmyndasaga ráðgjafarkenninga er rakin frá sálgreiningu til síðnútíma. Einnig er fjallað um sögu náms- og starfsráðgjafar. Síðustu þrjá kennsludagana verður umfjöllun um starfsferilskenningar hafin og henni haldið áfram á vormisseri. Rýnt verður í áhrif fjölmenningar og kynferðis á kenningasmíð og ráðgjöf. Nemendur greina einnig eigin ráðgjafarstíl og starfsferil.
Leiðsögn og samvinna (STM215F)
Tilgangur námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu og skilning á leiðsögn og samvinnu í skólastarfi þar sem stefnt er að starfsmenntun kennara, skólaþróun og öflugu foreldrasamstarfi, og að þeir geti beitt þekkingunni í starfi. Nemendur kynnast helstu rannsóknum og kenningum um starfstengda leiðsögn, og er stefnt að því að þeir geti nýtt sér þær á gagnrýninn og markvissan hátt sem leiðsagnarkennarar nýrra kennara og leiðtogar í teymisvinnu, jafningjaleiðsögn og þverfaglegu samstarfi í hópum. Einnig er lögð áhersla á hlutverk kennara í foreldrasamstarfi og í því að efla tengsl heimila og skóla. Kynnast þeir helstu kenningum og rannsóknum á því sviði, og tengja þær við eigin reynslu í starfi. Nemendur vinna með æfingar og verkefni sem miða að því að efla samskiptahæfni þeirra, einkum hæfni í leiðtoga- og leiðsagnarhlutverki, og í faglegum samskiptum við samstarfsfólk og foreldra.
Námskeið er kennt í fjarnámi með þremur staðbundnum lotum. Gert er ráð fyrir mætingu í staðbundnar lotur. Fyrirlestrar, umræður, einstaklings- og hópverkefni.
Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðum (MVS212F)
Fjallað verður um ólíkar rannsóknarstefnur og tengsl þeirra við uppbyggingu og útfærslu rannsókna. Einnig um siðfræði vísinda með áherslu á hagnýt atriði og um gæðahugtök, s.s. réttmæti, trúverðugleika og ólíka sýn á þessi hugtök. Í námskeiðinu beinist athyglin að eigindlegum aðferðum. Kynnt verða algeng rannsóknarsnið eigindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemar fá nokkra þjálfun í að beita algengum aðferðum rannsókna m.a. vettvangsathugunum, viðtölum og heimildaathugunum. Þá vinna nemar með öflun, skráningu, flokkun, greiningu og túlkun gagna, og með framsetningu þeirra og gera heildstæða rannsóknaræfingu.
Fyrirlestrar, umræður og verkefni. Skyldumæting er í staðlotum.
Inngangur að megindlegum rannsóknaraðferðum (MVS213F)
Markmiðið er að nemendur
- hafi innsýn í megindlega aðferðafræði á sviði rannsókna í uppeldis- og menntunarfræði
- þekki helstu rannsóknaraðferðir og hugtök sem þeim tengjast
- geti beitt algengum rannsóknaraðferðum og þannig aflað gagna, unnið úr þeim og túlkað á agaðan og viðurkenndan hátt
- séu færir um að rýna í rannsóknir og nýta sér niðurstöður þeirra
- hafi tileinkað sér rannsakandi hugarfar og gagnrýna hugsun
Kynnt verða algeng rannsóknarsnið megindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemendur nota tölvuforrit til að reikna algenga tölfræðistuðla og halda utan um og vinna úr gögnum. Sérstök áhersla verður lögð á þjálfun í túlkun matsniðurstaðna sem líklegt er að verði á vegi þeirra hópa sem taka námskeiðið.
Fyrirlestrar á vef, umræður og verkefni. Námskeiðið er kennt vikulega en fyrirlestrar verða eingöngu á vef. Verkefnatíma verða ekki teknir upp. Ekki er mætingarskylda í námskeiðið en nemendur eru hvattir til að mæta í kennslustundir.
Nemendur verða að hafa Jamovi (sjá nýjustu útgáfu á https://www.jamovi.org) uppsetta á fartölvum sem þeir mæta með í kennslustundir.
Lesefni: Kaflar 1-11 í Navarro DJ and Foxcroft DR (2019). Learning statistics with jamovi: a tutorial for psychology students and other beginners. (Version 0.70). DOI: 10.24384/hgc3-7p15. Rafræn ókeypis kennslubók sem hala má niður á síðunni https://www.learnstatswithjamovi.com.
Starfendarannsóknir (MVS011F)
Inntak / viðfangsefni
Á námskeiðinu verður farið yfir tilurð og þróun starfendarannsókna í ýmsum löndum, m.a. Japan, Ástralíu, Bandaríkjunum og Bretlandi. Rýnt verður í hugmyndafræði slíkra rannsókna og hinar margvíslegu myndir sem þær hafa tekið á sig og birtast í ólíkum orðum sem notuð eru um slíkar rannsóknir, t.d. starfendarannsóknir (action research), kennararannsóknir (teacher research), kennslurýni (lesson study), starfstengd sjálfsrýni (self-study) og practitioner research. Sérstök áhersla verður lögð á starfendarannsóknir í skólum og öðrum vettvangi menntunnar, þar á meðal á Íslandi og ákveðin dæmi skoðuð í því sambandi. Megináherslan í námskeiðinu er á að þátttakendur geri rannsókn á eigin starfi/starfsháttum og kynni hana í námskeiðinu. Ekki er skilyrði að nemendur séu í starfi þegar þeir taka námskeiðið.
Vinnulag
Námskeiðið er vettvangs- og samstarfsmiðað. Grunnhugmyndin er sú að þátttakendur geri rannsókn í tengslum við eigið starf í samráði við kennara og aðra þátttakendur í námskeiðinu og vinni úr henni í nánu samstarfi við kennara og aðra þátttakendur, t.d. í gegnum ígrundanir, kynningar og samræður. Nemendur halda leiðarbók eða rannsóknardagbók um rannsókn sínar og gera lestrardagbók í tengslum við lestur fræðigreina. Að auki taka þeir þátt í ýmis konar verkefnum og umræðum á netinu.
Kenningar um nám: Hagnýting og rannsóknir (STM207F, MVS009F)
Markmið
Markmið námskeiðsins er þríþætt. Í fyrsta lagi, að nemendur fái innsýn í valdar námskenningar, einkum þær sem hafa haft áhrif á uppeldis- og skólastarf á okkar tímum. Í öðru lagi, að nemendur öðlist skilning á hvernig nýta megi kenningarnar í framkvæmd við uppeldi, kennslu og skipulagningu náms fyrir fólk á öllum aldri. Í þriðja lagi, að nemendur þekki til rannsókna á áhrifum mismunandi kennslunálgana og hverjar þeirra teljast gagnreyndar til að ná tilteknum námsmarkmiðum.
Inntak / viðfangsefni
- Fjallað verður um nokkrar af meginkenningum um nám svo sem atferlishyggju (behaviourism), hugfræðilega nálgun (cognitive psychology) og félags- menningarkenningar (socio-cultural theories)
- Áhersla er lögð á helstu hugtök sem beitt er í ofangreindum kenningum og að þær geta byggt á ólíkum skilgreiningum á námi
- Nemendur lesa rannsóknargreinar þar sem þessum kenningum er beitt í uppeldis- og skólastarfi og þjálfast í að skilja notkun hugtaka og kenninga í rannsóknum á vettvangi
- Fjallað verður um hvað gerir aðferðir gagnreyndar (evidence-based) og hvernig er hægt velja viðeigandi og áhrifaríkar aðferðir til að stuðla að námi fjölbreytts hóps á ólíkum sviðum.
- Nemendur gera áætlun um námsferli á vettvangi uppeldis- og skólastarfs þar sem þeir beita viðeigandi kenningum að eigin vali og dýpka þar með þekkingu sína í einhverri af þeim kenningum sem fengist er við í námskeiðinu. Áhersla er lögð á tengsl áætlunar við rannsóknir og kenningar í verkefninu og að sama tíma sé hugað að hagnýtingu og útfærslu.
Megindlegar rannsóknaraðferðir I (MVS302F, MVS301F)
Markmið
Að nemendur þekki og geti beitt algengustu tölfræðiaðferðum við úrvinnslu gagna og geti metið tölfræðilegar niðurstöður. Að nemandi hafi kunnáttu og þekkingu til þess að greina og miðla tölulegum upplýsingum skv. APA útgáfustaðlinum (t.d. í lokaritgerð) og geti sýnt frumkvæði við tölfræðilega úrvinnslu gagna. Einnig að nemendur kynnist helstu rannsóknarsniðum í megindlegri aðferðafræði.
Inntak og viðfangsefni
Fjallað verður um megindlegar rannsóknaraðferðir og rannsóknarsnið. Í tölfræði verður mest áhersla lögð á fylgni og aðhvarfsgreiningu. Einnig verður farið í aðferðir dreifigreiningar og þáttagreiningar. Að lokum verða nemendur kynntir fyrir grunnhugsun Bayesískrar tölfræði og mati á heildarvillu (e. Total survey error). Nemendur læra að vinna greiningar með tölfræðiforriti. Mikil áhersla verður á túlkun og miðlun megindlegra niðurstaðna skv. APA útgáfustaðlinum.
Vinnulag
Námskeiðið verður kennt vikulega á fjarfundum. Tvær staðlotur eru á önninni. Skyldumætingu er í staðlotunum. Þeir sem eiga um langan veg að fara geta tekið þátt í staðlotunum í fjarfundi. Nemendur verða að hafa nýjustu stöðugu (e. solid) útgáfu af Jamovi (sjá jamovi.org) uppsetta á fartölvum sem þeir mæta með í kennslustundir.
Eigindlegar rannsóknaraðferðir I (MVS302F, MVS301F)
Í námskeiðinu verða teknar fyrir eigindlegar rannsóknaraðferðir, einkenni þeirra og saga. Rauður þráður í gegnum námskeiðið verður gildi og hlutverk rannsókna við þróun skólastarfs og tengsl við fagmennsku í uppeldis-, menntunar- og þjálfunarstörfum. Kynntar verða helstu rannsóknarleiðir eða nálganir innan eigindlegar aðferða, s.s. etnógrafía, fyrirbærafræði. Fjallað verður um aðferðir við gagnasöfnun og mismunandi tegundir gagna, s.s. vettvangsathuganir, áhorfsathuganir, viðtöl af ýmsum gerðum, vettvangsnótur og fyrirliggjandi gögn bæði sjónræn og textar. Kynntar verða mismunandi leiðir til að túlka og greina gögnin t.d. þema-, frásagnar- og orðræðugreining og nemendur þjálfaðir í að koma niðurstöðum frá sér á skipulegan og vandaðan hátt.
Vinnulag:
Fastir kennslutímar verða vikulega. Tímarnir (fyrir utan staðlotur) verða teknir upp og verða aðgengilegir fjarnemum. Kennslan samastendur af fyrirlestrum, umræðum og/eða verkefnum. Nemendur vinna virkniverkefni saman sem þeir skila vikulega. Staðnemar vinna þau í tímum en fjarnemar vinna þau saman í hópum. Einnig er gert ráð fyrir umræðum um efni fyrirlestranna á facebook.
Lokaverkefni (STM441L)
Lokaverkefni til M.Ed.-prófs er einstaklingsverkefni sem nemandi vinnur sjálfstætt undir leiðsögn leiðbeinanda. Nemendur skulu hafa samráð við formann námsbrautar um val á leiðbeinanda, sem að jafnaði er valinn úr hópi fastra kennara Menntavísindasviðs.
Val viðfangsefnis er fyrst og fremst á ábyrgð nemandans en í samráði við leiðbeinanda. Þess skal gætt að verkefnið tengist vettvangi og því sérsviði sem nemandi hefur valið, það er viðfangsefnum viðkomandi námsleiðar og einnig kjörsviði/sérsviði, þar sem það á við. Verkefnið getur verið af ólíku tagi, til dæmis fræðileg ritgerð, sjálfstæð rannsókn, starfstengt þróunar- eða matsverkefni, námskrár- eða námsefnisgerð og fleira.
Að öllu jöfnu tekur undirbúningur og vinna lokaverkefnis a.m.k. tvö misseri. Nemendur skulu fylgja nánari leiðbeiningum og reglum um verklag við M.Ed.-verkefni sem birtar eru á innri vef Menntavísindasviðs, Uglu: Fræðasvið >> Menntavísindasvið >> Lokaverkefni til meistaraprófs.
- Heilsársnámskeið
- Forysta á nýjum tímum: Ný og breytt viðfangsefni, áskoranir og kreppurVE
- Haust
- Stærðfræði fyrir allaVE
- Mál og lestrarerfiðleikarV
- Leiðtogar í skóla án aðgreiningar í fjölmenningarsamfélagiV
- Kynjajafnrétti í skólastarfiV
- Sjálfbærnimenntun og forystaV
- Greining á fræðsluþörfumVE
- Upplýsingatækni í menntun og skólaþróunV
- Vor
- Stjórnun og menntun - reynsla af vettvangiV
- Námskrá og skólaþróun í framhaldsskólumV
- Þróun stærðfræðihugmynda ungra barnaV
- Hegðun og tilfinningar barna: Áskoranir og úrræðiV
- Fjölbreyttir kennsluhættir - nemendamiðað námVE
- Hlutverk millistjórnendaV
- Trúarbrögð og lífsgildi í fjölmenningarsamfélagiV
Forysta á nýjum tímum: Ný og breytt viðfangsefni, áskoranir og kreppur (STM030F)
Námskeiðið er í samstarfi við skólastjórafélögin á Íslandi og erlent fræðafólk. Markmið námskeiðsins er að veita þátttakendum innsýn inn í framtíðarfræði sem rannsóknarvettvang og sérstaka fræðigrein með áherslu á menntakerfi, skóla, krísustjórnun og félagslega nýsköpun.
Á námskeiðinu verður leitast við að:
- skapa í sameiningu aðstæður sem gera leiðtoga í skólastarfi færa um að takast á við kreppur og tækifæri framtíðarinnar,
- kynna og beita verkfærum félagslegrar nýsköpunar (e. Social Innovation) og hönnunarhugsunar (e. Design Thinking),
- læra af fjölbreyttu alþjóðlegu og staðbundnu samhengi sem mótar skólastarf og menntakerfi þjóða,
- stuðla að þróun mælikvarða sem mun auðvelda alþjóðlegan samanburð á reynslu skólastjórnenda til að auka faglega rödd þeirra á heimsvísu,
- vera hluti af alþjóðlegu samfélagi rannsakenda sem skuldbindur sig til að endurnýja samfélagssáttmála menntunar eins og gert er ráð fyrir í Education 2050 Learning to Become að frumkvæði UNESCO.
Viðfangsefni:
Helstu viðfangsefni námskeiðsins eru kenningar, hugtök og rannsóknir um beina og óbeina forystu innan menntakerfa og skóla framtíðarinnar. Unnið verður með hugmyndir og praktíska reynslu um forystu, teymisvinnu, gildi og aðferðir lýðræðislegra starfshátta. Þátttakendur greina helstu áhrifaþætti breytinga með það að markmiði að skilja betur núningsfleti og átakapóla. Jafnframt prófa þátttakendur verkfæri og safna saman hugmyndum sem reynst hafa vel í samstarfi stjórnenda með starfsfólki, nemendum og öðrum hagaðilum. Þátttakendur fá að auki rými til að ígrunda og þróa eigin kenningar um breytingar og væntanlega framtíð.
Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt í tveimur staðbundnum lotum. Fyrsta lotan fer fram á ensku í samstarfi við erlent fræðafólk og unnið verður út frá hugmyndafræði nýsköpunarsmiðja (e. Social Innovation Design Labs) þar sem þátttakendur deila reynslu sinni og ímynda sér framtíðarmöguleika skólastjórnenda með samstarfsfólki, nemendum og öðrum hagaðilum. Á námskeiðinu vinna þátttakendur fjölþætt verkefni á einstaklingsgrunni og í hópi og kynna svo afrakstur og áætlanir um framtíðina með fjölbreyttum hætti í seinni staðlotu. Námskeiðið er unnið í samstarfi við innlenda og erlenda fræðimenn.
Stærðfræði fyrir alla (KME111F)
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur kynnist kenningum og rannsóknum á því hvernig nemendur læra stærðfræði og geti beitt kennsluaðferðum sem henta við stærðfræðikennslu nemenda sem hafa ólíkar forsendur til náms.
Viðfangsefni
Þátttakendur kynna sér rannsóknir á stærðfræðinámi og hvernig skilningur á stærðfræði þróast. Þeir læra að greina þekkingu og skilning nemendahópsins og meta námsferli þeirra. Þeir kynna sér hvernig erfiðleikar í stærðfræði birtast, áhrif þeirra á nám nemenda og aðferðir við að greina þá. Þátttakendur afla sér þekkingar á kennsluaðferðum og námsúrræðum fyrir nemendur með ólíkar forsendur til náms, þ.m.t. með fjölbreyttan tungumála- og menningarlegan bakgrunn.
Vinnulag
Áhersla er lögð á að þróa námssamfélag sem allir taka virkan þátt í að móta. Hægt er að taka þátt á staðnum, með fjarfundabúnaði og á vefsvæði námskeiðsins. Haldnir verða fyrirlestrar, málstofur og umræðutímar. Nemar lesa fræðilega texta og leita svara við áleitnum spurningum um efnið. Þeir framkvæma rannsóknir, gera grein fyrir niðurstöðum og draga af þeim ályktanir. Þeir setja fram hugmyndir um hvernig byggja má upp og þróa námsumhverfi og stærðfræðikennslu.
Mál og lestrarerfiðleikar (KME108F)
Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist helstu kenningum og rannsóknum á lestrarörðugleikum og geti lagt mat á þær. Skoði uppruna og tengsl lestrarörðugleika við mál- og taugasálfræðilega þætti og samspil við kennslu og kennsluaðferðir.
Viðfangsefni: Farið verður ítarlega í kenningar um tengsl lestrar- og málerfiðleika, þróun lesturs og lestrarlíkön verða rædd. Fjallað verður um helstu birtingarform mál- og lestrarörðugleika, og þær afleiðingar sem slíkir erfiðleikar geta haft á sjálftraust einstaklingsins, nám og námsárangur. Fjallað verður um helstu rannsóknir og kenningar á orsökum og einkennum dyslexíu og lagt mat á skilgreiningar. Skoðað verður hvernig meta má stöðu barna í lestri með hliðsjón af fræðikenningum og hvernig hægt er að draga úr og fyrirbyggja lestrarerfiðleika með snemmtækri íhlutun og einstaklingsmiðaðri kennslu í leikskóla og fyrstu bekkjum grunnskóla. Nemendur hljóta þjálfun í að meta stöðu eins eða fleiri nemenda í lestri (í leikskóla, grunnskóla eða framhaldsskóla) með tilliti til umskráningar og lesskilnings, kynnast aðferðum við að skima í áhættuhópa og leggja mat á kennsluaðferðir og kennsluefni með hliðsjón af rannsóknum og fræðikenningum.
Vinnulag: Fyrirlestrar og ígrundun fræðitexta með þátttöku nemenda, umræður, vettvangsathuganir, kannanir, hópverkefni, einstaklingsverkefni.
Leiðtogar í skóla án aðgreiningar í fjölmenningarsamfélagi (STM015F)
Tilgangur námskeiðsins er að búa þátttakendur undir að leiða skólastarf sem byggir á fræðilegri sýn á menntun án aðgreiningar í fjölmenningarlegu samfélagi (inclusive intercultural education), þ.e. þátttöku fjölbreytts nemenda hóps í skólastarfinu. Grunnþættir námskeiðsins eru leiðtogahlutverkið, lýðræði, mannréttindi, samvinna og viðurkenning á auðlindum nemenda, þ.e. að þeir byggja á ólíkri reynslu og læra á mismunandi hátt. Áhersla er lögð á þróun leiðtoga sem byggir á samstarfi þar sem hlustað er eftir röddum nemenda, foreldra og samstarfsfólks um sýn þeirra á skólastarf.
Markmiðið er að þátttakendur öðlist færni í að greina og meta stöðu menntunnar án aðgreiningar í sínu starfsumhverfi og geti brugðist við þörfum skólasamfélagsins með lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi.
Rýnt verður í framkvæmd og þróun á þessum sviðum og hvernig þessi áhersla hefur tekið á sig ólíkar myndir. Einnig munu þátttakendur greina eigin starfsvettvang, meta viðhorf, þekkingu og færni starfsfólks og gera aðgerðaáætlun sem tekur til uppbyggingar menntunar án aðgreiningar.
Námskeiðið fer fram með fyrirlestrum, umræðum, samstarfi og sjálfstæðri vinnu þátttakenda. Námskeiðið er vettvangs- og samstarfsmiðað. Áhersla er lögð á að þátttakendur greini eigin viðhorf og skoðanir um leið og þeir kynna sér hugmyndir annarra. Þeir halda námsdagbók um athuganir sínar, lestur fræðigreina og ígrundun.
Kynjajafnrétti í skólastarfi (KME101F)
Í námskeiðinu verður fjallað um kynjafræði og hvernig helstu hugtök þeirra, svo sem kyn, jafnrétti, kyngervi, kynhlutverk, samtvinnun, hinsegin fræði, kynímynd, staðalmyndir, kynbundið ofbeldi, kynfræðsla, karlmennska og kvenleiki, nýtast til að skilja og skipuleggja skólastarf. Þá verður kynnt löggjöf um kynjajafnrétti og kynjajafnréttisfræðslu og fjallað um tengsl kynjajafnréttis og annars jafnréttis, sbr. aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla. Sérstök áhersla er lögð á að nemendur í námskeiðinu geti greint námsumhverfi, aðferðir og námsefni frá kynjasjónarhorni. Einnig að þeir geti greint val leikja í leikskóla og í frímínútum og skólaíþróttum.
Nemendur þurfa að mæta í lok nóvember til að kynna lokaverkefni sitt í námskeiðinu.
Í námskeiðinu verður gengið verður út frá því grundvallarsjónarmiði sem kemur fram í aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla að menntun um jafnrétti kynjanna feli í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu í því augnamiði að kennarar geti kennt börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra á forsendum kyns.
Námsmat mun felast í lestrardagbókum, hugtakakönnun og hagnýtum verkefnum tengdum skólastarfi á viðkomandi skólastigi. Skyldumæting er í kynningu lokaverkefnis.
Sjálfbærnimenntun og forysta (SFG003F)
Megintilgangur þessa námskeiðs er að veita þátttakendum tækifæri til að skilja sjálfbærni og sjálfbærnimenntun út frá sjónarhorni stofnana eða heilla kerfa. Kennslutímar og umræður á milli þeirra byggjast á upplýstri rökræðu. Unnin verða fá stærri verkefni og krafist virkrar þátttöku í umræðum, skipulagningu kennslustunda og því að leiða umræður. Námskeiðið er kennt á neti aðra hverja viku (til skiptis á íslensku/ensku). Krafist er að lágmarki 80% mætingar í kennslustundir. Til að standast námskeiðið þarf að fá að lágmarki einkunnina 5,0 fyrir hvert verkefni námskeiðsins og uppfylla lágmarkskröfur um mætingu og þátttöku í tímum. Nánari útfærsla og upplýsingar um kennslufyrirkomulag verður á Canvas.
Dæmi um viðfangefni:
- Formleg og óformleg sjálfbærnimenntun (t.d. á vinnustöðum)
- Forysta í vinnu með sjálfbærni (t.d. í heildstæðum breytingum og þróun í skóla eða í frístundastarfi)
- Tengsl náttúrufræði og sjálfbærni (t.d. út frá kerfisbundinni nálgun eða út frá grunndvallarsýn)
- Þróun dreifbýlis og sjálfbærni
- Mótun sameiginlegra gilda (t.d. í samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja)
- Námskrárbreytingar
Greining á fræðsluþörfum (NAF201F)
Eitt fyrsta skrefið við skipulagningu náms fyrir fullorðna er að greina þörf væntanlegra þátttakenda fyrir fræðslu. Það gerirst æ algengara að fræðsluaðilar ýmiskonar þurfa að vinna með væntanlegum viðskiptavinum sínum, fyritækjum, stofnunum eða félagasamtökum að þróun sérsmíðaðra námstilboða sem taka mið af menningu og þörfum viðkomandi viðskiptavinar. Markmið þessa námskeiðs er að þátttakendur geti greint námsþarfir fullorðinna og sett niðurstöðurnar þannig fram að þær nýtist þeim sjálfum eða öðrum við skipulagningu námskeiða.
Vinnulag:
Námskeiðið verður kennt á formi sem er kallað "Valvíst nám". En það þýðir að þátttakendur geta valið hvort þeir mæta í skólann, taka þátt í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma eða hlusta á upptökur og taka virkan þátt í samvinnu þátttakenda á netinu milli reglulegra funda.
Á námskeiðinu eru tvær "vinnulotur" þar sem allir þátttakendur vinna saman í heilan dag í tengslum við efni namskeiðsins. Þátttakendur eru hvattir til að mæta í húsnæði Menntavísindaseviðs við Stakkahlíð í vinnuloturnar. Þar verða teknar mikilvægar ákvarðanir um námskeiðið, þátttakendur kynnast vel og það styður við samvinnu þeirra á námskeiðinu, þá reynum við að beita aðferðum sem nýtast vel í fullorðinsfræðslu, þannig að þátttakendur upplifa ýmsar aðferðir sem þeir geta síðan nýtt við skipulagningu náms og kennslu.
Síðan hittast þeir vikulega í húsnæði skólans eða á netinu.
Á milli funda og vinnulota fer samvinnan fram á vef námskeiðsins.
Upplýsingatækni í menntun og skólaþróun (SNU007F)
Í námskeiðinu er fjallað um:
- áhrif upplýsingatækni á menntun og skólastarf
- námskrá og stefnumótun á sviði upplýsingatækni í skólastarfi
- hugtök, kenningar og rannsóknir sem tengjast notkun upplýsingatækni í námi og kennslu
- innleiðingu tölva og upplýsingatækni í skólastarf
- kennsluhætti, símenntun kennara, hugbúnað og stafrænt námsefni
- stafræna hæfni nemenda og kennara og læsi á upplýsingar, miðla, tölvur og tækni
- hlutdeild upplýsingatækni í lífi fólks innan og utan skóla
Vinnulag:
Lestur og umræða um námskrá og stefnu, fræði, nýjar rannsóknir og athuganir á vettvangi. Þátttakendur vinna einir eða í smærri hópum að efnissöfnun og kynningum á efni sem tengist áhugasviði þeirra. Þeir miðla hugmyndum sínum og reynslu af notkun upplýsingatækni í námi og kennslu og leggja sitt af mörkum við að byggja upp öflugt náms- og fagsamfélag.
Stjórnun og menntun - reynsla af vettvangi (STM029F)
Markmið námskeiðs er að nemendur öðlist innsýn í dagleg störf og umhverfi skólastjórnenda og stjórnenda á vettvangi frítímans. Það gætu verið skólastjórar, aðstoðarskólastjórar og deildarstjórar i leik- grunn- og framhaldsskólum, stjórnendur frístundamiðstöðva, frístundaheimila og félagsmiðstöðva eða stjórnendur á sviði æskulýðsmála. Markmiðið er að nemendur geti fjallað um dagleg störf og umhverfi í fræðilegu samhengi, að þeir kynni sér áhrif námskráa, laga og reglugerða á störf stjórnenda og skipulag og innihald skóla- og frístundastarfs.
Námskeiðið tekur til þátta er tengjast daglegum störfum skólastjórnenda og stjórnenda á vettvangi frítímans, s.s. rekstri, starfsmannasjórnun og faglegri forystu, starfsþróun og mati á skólastarfi. Nemendur fylgja einum stjórnanda í 4-5 daga sem dreifast á 4-6 vikur. Á vettvangi safna nemendur gögnum sem nýtast við vinnslu verkefna námskeiðsins. Nánari leiðbeiningar verða veittar við upphaf námskeiðsins.
Áður en nemendur fara á vettvang hafa þeir samband við umsjónarkennar sem í samráði við nemanda finnur stjórnanda til að fylgja. Í lok námskeiðs kynna nemendu verkefni sín á málstofu.
Námskrá og skólaþróun í framhaldsskólum (KEN213F)
Í námskeiðinu er fjallað um námskrárfræði og menntastefnu með áherslu á námskrár, nemendur og þróunarstarf í framhaldsskólum.
Viðfangsefnum í námskeiðinu er ætlað að þjálfa fagmannlegt verklag við mótun menntastefnu, námskrárgerð og skólaþróun í framhaldsskólum á Íslandi.
Þróun stærðfræðihugmynda ungra barna (KME203F)
Markmið að nemendur:
- Þekki rannsóknir á stærðfræðilegri hugsun ungra barna og hugmyndum þeirra um stærðfræðileg fyrirbæri.
- Geri sér grein fyrir hverjar eru meginstoðir þeirrar stærðfræðilegu þekkingar sem nemendur þróa með sér fyrstu átta æviárin.
- Geti kannað stærðfræðilegar hugmyndir ungra barna með athugunarverkefnum og viðtölum.
- Séu færir um að nýta niðurstöður rannsókna á stærðfræðinámi ungra barna við skipulagningu skólastarfs í leikskóla og í fyrstu bekkjum grunnskóla.
Viðfangsefni:
Nemendur kynnast nýlegum rannsóknum á stærðfræðilegri hugsun ungra barna. Þeir kynna sér þróun þekkingar og skilnings barna á mismunandi inntaksþáttum stærðfræðinnar. Sjónum verður beint að því stærðfræðinámi sem fram fer fyrstu æviárin og sem er mikilvægur grunnur fyrir frekara nám á þessu sviði. Áhersla er á hvernig byggja má upp námsumhverfi þar sem nám fer fram í leik og daglegu starfi. Sérstaklega verður skoðað hvaða rannsóknaraðferðum er beitt við að kanna hugmyndir og skilning ungra barna. Nemendur prófa að framkvæma athuganir á stærðfræðilegum skilningi ungra barna og beita við það mismunandi aðferðum. Hugað verður að því hvernig nýta má rannsóknarniðurstöður til að skipuleggja þróunarstarf sem hefur það að markmiði að stærðfræðileg hugsun barna eflist.
Vinnulag:
Áhersla er lögð á að þróa námssamfélag sem allir taka virkan þátt í að móta. Hægt er að taka þátt á staðnum, með fjarfundabúnaði og á vefsvæði námskeiðsins. Haldnir verða fyrirlestrar, málstofur og umræðutímar. Nemar lesa fræðilega texta og leita svara við áleitnum spurningum um efnið. Þeir framkvæma rannsóknir, gera grein fyrir niðurstöðum og draga af þeim ályktanir. Þeir setja fram hugmyndir um hvernig byggja má upp og þróa námsumhverfi og stærðfræðikennslu fyrir ung börn.
Hegðun og tilfinningar barna: Áskoranir og úrræði (MAL003F)
Markmiðið með námskeiðinu er að gefa þátttakendum kost á að kynnast völdum þáttum, bæði fræðilegum og hagnýtum, sem auðvelda almennum kennurum og sérkennurum að skilja, meta og bregðast við þörfum nemenda sem eiga við hegðunar- og/eða tilfinningavanda að etja. Fjallað verður um aðferðir við skimun og mat, áhrifaþætti og algengi mismunandi hegðunar- og/eða tilfinningalegra erfiðleika, s.s. mótþróa, þunglyndis og kvíða. Einnig verður fjallað um hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika nemenda með athyglisbrest með ofvirkni (ADHD) eða röskun á einhverfurófinu. Sérstök áhersla er á að auka færni þátttakenda í að sníða skólastarf og skólasamfélag betur að þörfum nemenda með hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika og veita kennurum og skólastjórnendum ráð um hvernig unnt er að gera slíkt og fjarlægja hindranir sem útiloka og einangra nemendur með slíkan vanda.
Nemendur hafi aflað sér grunnþekkingar á helstu hugtökum og sjónarhornum þroskasálfræði eða félagsvísinda á námsferli sínum áður en þeir sækja námskeiðið. Reynsla af vinnu með börnum eða ungmennum æskileg.
Helstu efnisþættir
- Mismunandi skilgreiningar á hegðunar- og tilfinningaörðugleikum - alþjóðleg viðmið og flokkunarkerfi.
- Hegðunar- og tilfinningaörðugleikar í samfélagslegu samhengi.
- Helstu kenningar um hegðunar- og tilfinningaörðugleika barna og unglinga (conceptual models).
- Viðbrögð skólasamfélagsins; nemendasýn og skólastefna - skóli án aðgreiningar, sérdeildir eða sérskólar? Ólík sjónarhorn við að skilgreina vandann.
- Sértæk úrræði innan skólasamfélagsins og fræðilegur bakgrunnur þeirra.
- Mismunandi aðferðir við virknimat (functional behavioral assessment) til að ákvarða hvaða þættir ýta undir hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika nemenda.
- Gerð stuðningsáætlunar með margvíslegum aðferðum til að fyrirbyggja erfiða hegðun eða vanlíðan, kenna og styrkja viðeigandi hegðun og bregðast þannig við erfiðri hegðun þannig að dragi úr henni með tímanum og nemendum líði betur.
- Aðferðir til að auka félagsfærni og sjálfstæð vinnubrögð nemenda með hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika.
Vinnulag
Í staðlotum verða fyrirlestrar auk verkefnatíma. Á kennsluvefnum Canvas verða birtar hljóðglærur og kennslubréf, og þar fara fram umræður úr völdum efnisþáttum. Námskeiðið er kennt með fjarnámssniði en mætingarskylda er í staðlotur. Námsmat er að mestu leyti fólgið í hópverkefnum.
Fjölbreyttir kennsluhættir - nemendamiðað nám (KME205F)
Markmið
Meginmarkmið þessa námskeiðs er að þátttakendur efli þekkingu sína á fjölbreyttum kennsluháttum og hæfni sína í að fjalla um þá með fræðilega viðurkenndum hætti.
Viðfangsefni
Á námskeiðinu verður fjallað um kennsluaðferðahugtakið og dæmi kynnt um fræðilega flokkun kennsluaðferða. Rannsóknum á kennsluaðferðum verða gerð sérstök skil, einkum innlendum rannsóknum. Þá verður fjallað um kennsluhætti og kennsluaðferðir sem tengjast hugmyndum um nemendamiðað og lýðræðislegt skólastarf (m.a. opinn skóla, sveigjanlega kennsluhætti, samvinnunám, samkennslu, lausnaleitarnám, heildstæð viðfangsefni, þemanám, samkomulagsnám og sjálfstæð, skapandi viðfangsefni). Efni námskeiðsins verður tengt þróun fjölbreyttra kennsluhátta hér á landi, og erlendis, og áhersla lögð á að þátttakendur ígrundi eigin reynslu af kennslu. Þátttakendum gefst tækifæri til að kynna sér einstaka kennsluhætti og kennsluaðferðir til nokkurrar hlítar og fjalla um það með fræðilegum hætti.
Vinnulag
Byggt er á fyrirlestrum, kynningum, málstofum, umræðum, sjálfstæðri vinnu, hópverkefnum, lestri og upplýsingaleit. Lögð er áhersla á að þátttakendur ígrundi eigið starf og greini, túlki og meti reynslu sína og tengi hana við fræði og rannsóknir. Þáttakendur ræða lesefni námskeiðsins og tengja það kennslustundum og eigin reynslu með aðstoð lestrardagbókar og annarra verkefna. Auk þess vinna nemendur lokaverkefni sem er hópverkefni.
Hlutverk millistjórnenda (STM210F)
Markmið þessa námskeiðs er að þátttakendur öðlist fræðilega þekkingu á hlutverki millistjórnenda í skólum. Þeir öðlist færni í að móta starf millistjórnenda þannig að það efli starfsemi skólans og þjóni nemendum sem best.
Viðfangsefni
Á námskeiðinu er fjallað um hlutverk millistjórnenda og sérstaða þeirra greind og ígrunduð. Einkum verður fjallað um frumkvæði að stefnumótun annars vegar og margvíslega þjónustu sem þeir sinna hins vegar og þá togstreitu sem þessi tvíþætta áhersla getur skapað. Athygli verður sérstaklega beint að teymisvinnu og meðhöndlun ágreinings. Þá verða rannsóknir á millistjórnendum í menntastofnunum kannaðar.
Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt í staðbundnum lotum og fjarnámi. Námskeiðið byggist á fyrirlestrum, umræðum, lestri greina og bóka og verkefnavinnu. Leitast verður við að tengja umfjöllun og úrvinnslu sem mest aðstæðum þátttakenda. Þátttakendur ræða á Netinu um afmörkuð efni.
Trúarbrögð og lífsgildi í fjölmenningarsamfélagi (KME003M)
Námskeiðið miðar að því að nemendur dýpki þekkingu sína á stöðu og áhrifum trúarbragða í fjölmenningarsamfélagi. Fjallað verður um ýmsar kenningar er snerta trúarþörf og trúarreynslu mannsins, trúarlega sjálfsmynd og valda þætti nokkurra helstu trúarbragða heims. Einnig siði og venjur tengdar trúariðkun, einkum er haft geta áhrif á skólastarf. Þá verður fjallað um trúarbrögð og siðfræði, sameiginleg gildi ólíkra trúarbragða, stöðu trúarbragða, menningarleg og trúarleg átök sem eiga sér stað í dag og fordóma og misskilning tengdan trúarbrögðum. Nemendur velja sér trúarbrögð sem þeir dýpka þekkingu sína á, einkum með tilliti til þess að þau endurspegli vaxandi menningarlegan og trúarlegan fjölbreytileika hér á landi og vinna jafnframt vettvangstengd verkefni.
Vinnulag
Fyrirlestrar, samræður, mat og beiting fræða á tiltekin viðfangsefni, samstarf í hópum. Verkefni, m.a. vettvangstengt rannsóknarverkefni, og kynning í málstofum.
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
1. hæð, Stakkahlíð – Enni
s. 525 5950 mvs@hi.is
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Fylgstu með Menntavísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.