Skip to main content

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjöf

Félagsvísindasvið

Náms- og starfsráðgjöf

MA gráða – 120 einingar

Náms– og starfsráðgjafar starfa á fjölbreyttum vettvangi og veita fólki á öllum aldri ráðgjöf og stuðning við að láta drauma sína rætast í námi og starfi. Ráðgjöfin miðar að því að efla sjálfsþekkingu og aðstoða fólk við að bera kennsl á og virkja styrkleika sína og áhugasvið, takast á við breytingar og hindranir og taka ígrundaðar ákvarðanir á ferlinum.

Flest námskeið eru kennd í staðnámi en nemendur utan höfuðborgarsvæðisins geta sótt um að taka þátt í kennslustundum í streymi. Tvisvar á misseri eru staðlotur með skyldumætingu. 

Skipulag náms

X

Ráðgjafarkenningar (NSR007F)

Í námskeiðinu er farið yfir helstu ráðgjafarkenningar og hvernig hægt er að nýta þær til  að greina samskipti og viðfangsefni í ráðgjöf. Hugmyndasaga ráðgjafarkenninga er rakin frá sálgreiningu til síðnútíma. Einnig er fjallað um sögu náms- og starfsráðgjafar á Íslandi. Rýnt verður í áhrif fjölmenningar og kynferðis á kenningasmíð og ráðgjöf.  Nemendur vinna verkefni sem miða að því að móta og greina eigin ráðgjafarstíl.

X

Náms- og starfsferill, inngrip og mat (NSR009F)

Kynntar eru helstu kenningar og nýlegar rannsóknir um farsæla skólagöngu og brotthvarf frá námi í ljósi íslenskrar menntastefnu og margbreytileika nemenda. Jafnframt er fjallað um áætlun í náms- og starfsráðgjöf með áherslu á náms- og starfsfræðslu og horft til framkvæmdar hennar í nágrannalöndunum á undanförnum árum. Nemendur kynnast upplýsingaveitum um nám og störf og mati á skilvirkni náms- og starfsráðgjafar. Auk þess er umfjöllun um stöðu, þróun og framtíðarhorfur á íslenskum vinnumarkaði.

X

Vettvangur I: Samhengi (NSR107F)

Nemendur fá innsýn í störf og hlutverk náms- og starfsráðgjafa á fjölbreyttum vettvangi í fjölmenningarsamfélagi. Sömuleiðis inn í samhengi ólíkra stofnana og samvinnu við aðrar fagstéttir, lagaramma og siðaviðmið. Helstu verkþættir starfs náms- og starfsráðgjafa eru kynntir og innsýn gefin í vinnulag og aðferðir á vettvangi. Grunnur er lagður að starfsþróun nemenda með faglegri ígrundun sem byggir á viðhorfum, persónulegri reynslu, gildismati og menningarlegum uppruna þeirra.

X

Megindleg aðferðafræði (FMÞ001F)

Meginefni námskeiðsins eru megindlegar rannsóknaraðferðir og tölfræði í félags- og menntavísindum. Lögð er áhersla á virka þátttöku nemenda og umfjöllun um þátt rannsókna í samfélaginu. Fjallað er um helstu rannsóknarsnið, úrtaksfræði og gerð spurningalista. Í tölfræðihluta er kennt um lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði og fjallað ítarlega um dreifigreiningu og aðhvarfsgreiningu. Nemendur vinna hagnýt verkefni í tölfræðilegri úrvinnslu gagna með SPSS forritinu samhliða fyrirlestrum. Nemendur geta unnið með eigin gögn.

X

Starfsferilskenningar (NSR023F)

Kenningar um þróun og sköpun starfsferils eru þungamiðja þessa námskeiðs, með sérstakri áherslu á nýjustu hræringar á fræðasviðinu. Farið er ítarlega í fræðilegar undirstöður kenninga um starfsferilinn Áhersla er lögð á hagnýtingu kenninga um þróun starfsferils, og helstu verkfæri kynnt. Rannsóknir tengdar kenningum og hagnýtingu þeirra eru kynntar ásamt helstu álitamálum á fræðasviðinu.

X

Persónulegir og félagslegir erfiðleikar (NSR203F)

Meginviðfangsefni námskeiðsins eru persónulegir og félagslegir erfiðleikar barna og ungmenna og horfur á fullorðinsárum. Kynntar eru helstu skilgreiningar á og algengi hegðunar-,  tilfinninga- og námserfiðleika með tilliti til fræða og alþjóðlegra flokkunarkerfa. Jafnframt er fjallað um áhættu- og vernandi þætti, seiglu og forvarnir. Áhersla er lögð á margbreytileika hópa. Nemendur kynnast viðeigandi úrræðum með áherslu á gagnreyndar aðferðir og samráð fagstétta.

X

Vettvangur II: Samskipti (NSR025F)

Nemendur kynnast starfi og hlutverki náms- og starfsráðgjafa á vettvangi, helstu verkþætti náms- og starfsráðgjafa, skipulag þjónustunnar og aðferðir sem beitt er í námsog starfsráðgjöf. Fjallað er um einkenni upplýsingasamfélagsins, færni og aðferðir við öflun og miðlun upplýsinga um nám og störf. Nemendur kynnast kenningum um áhugahvöt, sjálfsmynd, markmið og vinnubrögðum í námi. Ítarlega er farið í virka hlustun, samband ráðgjafa og ráðþega, samskiptalíkön kynnt og grunnatriði tengd samskiptum í ráðgjöf æfð. Hlutverk náms- og starfsráðgjafar í fjölmenningarsamfélagi er samþætt í alla efnisþætti.

X

Málstofa um meistararitgerð I (NSR027F)

Málstofa

X

MA-ritgerð í náms- og starfsráðgjöf (NSR441L)

MA-ritgerð í náms- og starfsráðgjöf.  

Mælst er til þess að nemendur taki námskeiðið málstofu um meistararitgerð í náms- og starfsráðgjöf.

X

Málstofa um meistararitgerð II (NSR029F)

Málstofa

X

MA-ritgerð í náms- og starfsráðgjöf (NSR441L)

MA-ritgerð í náms- og starfsráðgjöf.  

Mælst er til þess að nemendur taki námskeiðið málstofu um meistararitgerð í náms- og starfsráðgjöf.

X

Eigindlegar rannsóknaraðferðir I (FMÞ103F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist fjölbreytileika og fræðilegum forsendum eigindlegrar rannsóknahefðar í félagsvísindum og öðlist reynslu í að beita eigindlegum aðferðum. Um hagnýtt námskeið er að ræða þar sem hver nemandi vinnur sjálfstætt rannsóknarverkefni sem felst í því að hanna og undirbúa rannsókn, afla gagna, greina þau og skrifa um helstu niðurstöður undir handleiðslu kennara. Í námskeiðinu verður farið ítarlega í undirbúning rannsókna, gerð rannsóknaráætlunar, gagnaöflun, greiningu og skrif.

X

MA-ritgerð í náms- og starfsráðgjöf (NSR441L)

MA-ritgerð í náms- og starfsráðgjöf.  

Mælst er til þess að nemendur taki námskeiðið málstofu um meistararitgerð í náms- og starfsráðgjöf.

X

Vettvangur III: Samfélag (NSR033F)

Fjallað er um samskipti við ráðþega og uppbyggingu samtala. Farið er ítarlega í hugtök sem lögð eru til grundvallar við greiningu á ráðgjafarviðtölum og viðbrögðum ráðþega og þau æfð með markvissum hætti ásamt fjölmenningarlegum nálgunum. Ráðgjafarferlið er nánar kynnt og nemendum kennt að meta eigin frammistöðu í samskiptum við ráðþega og aðra. Fjölbeyttar aðferðir við mat á vanda ráðþega eru kynntar ásamt markmiðssetningu í ráðgjöf. Fjallað er um aðferðir og leiðir í rafrænni ráðgjöf ásamt siðferðilegum álitamálum. Nemendur kynnast hópráðgjöf og ráðgjafarsamskiptum í rafrænum samfélögum Áfram er haldið vinnu nemenda að eigin starfsþróun sem sérfræðingur á sviði náms- og starfsráðgjafar.

X

Vettvangur IV: Handleiðsla (NSR034F)

Meginviðfangsefni námskeiðsins eru tengsl kenninga og fræða við aðferðir í ráðgjöf. Fjallað er um hópráðgjöf, notkun matstækja, siðferðilega fleti starfsins sem og starfsþróun nemenda í faglegu tilliti í fjölmenningarsamfélagi. Að auki verður fjallað um þær stofnanlegu og samfélagslegu hindranir sem verða á vegi fólks við þróun og sköpun starfsferils. Nemendur starfa undir handleiðslu náms- og starfsráðgjafa á vettvangi (grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla, vinnumarkaði) í 200 stundir.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Jóhann Aðalsteinn Árnason
Inga Berg Gísladóttir
Regína Bergdís Erlingsdóttir
Ketil Jósefsson
Anna Lóa Ólafsdóttir
Jóhann Aðalsteinn Árnason, náms- og starfsráðgjafi við Háskólann á Bifröst
Náms- og starfsráðgjöf

Námið var mjög skemmtilegt og krefjandi á sama tíma. Það undirbjó mig vel fyrir fagmennsku í núverandi starfi. Lærði mjög margt í þessu námi bæði fræðilega og um sjálfan mig persónulega. Námið, kennarar og samnemendur hjálpuðu mikið til með hvort tveggja. Eftir námið fannst mér ég vel undirbúinn að hefja störf sem náms- og starfsráðgjafi. Góð blanda af bóklegu námi og svo vettvangsnámi sem var gífurlega mikilvægt. Samheldinn hópur og maður eignaðist vini fyrir lífstíð. 

Inga Berg Gísladóttir
Náms- og starfsráðgjöf

Námið í náms- og starfsráðgjöf var bæði áhugavert og skemmtilegt en um leið krefjandi. Námið er góð blanda af fræðilegum kenningagrunni og þjálfun á vettvangi. Það er mikilvægt í námi sem þessu að fá tækifæri til vettvangsnáms og að fá að stíga sín fyrstu skref inn í starfið undir handleiðslu sérfræðinga. Námið hefur nýst mér mjög vel í fjölbreyttu starfi mínu með háskólanemendum þar sem ég aðstoða meðal annars nemendur við vinnubrögð í námi, námsval og ákvarðanatöku um nám, undirbúning fyrir atvinnulíf og margt margt fleira. Námið getur einnig nýst einstaklingum í störfum á mjög fjölbreyttum starfsvettvangi sem ég tel mikinn kost fyrir þróun á mínum eigin starfsferli. 

Regína Bergdís Erlingsdóttir
Meistaranemi í náms- og starfsráðgjöf

Námið hefur verið skemmtilegt og áhugavert. Kennslan hefur verið mjög góð og haldið er vel utan um nemendur. Frábær reynsla úti á vettvangi fylgir náminu og býður það upp á fjölbreytta atvinnumöguleika sem og skemmtilegan starfsvettvang í framtíðinni.

Ketill Jósefsson, náms- og starfsráðgjafi Vinnumálastofnun
Náms- og starfsráðgjöf

„Fyrir mér er náms- og starfsráðgjöf nauðsynleg í skóla og starfi. Hún er samofin því starfi sem við sinnum eftir bestu getu hjá vinnumálastofnunum um allt land. Við erum að vinna með heill og velferð fólks á aldrinum 18 ára til sjötugs þar sem fagþekkingin skiptir miklu máli.“

Anna Lóa Ólafsdóttir, atvinnulífstengill hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði
Náms- og starfsráðgjöf

Ég útskrifaðist úr náms- og starfsráðgjöf vorið 2008 og hef aðallega unnið við að aðstoða fólk í atvinnuleit, við val á námi og að vera stuðningur þegar einstaklingar eru að takast á við miklar breytingar. Námið reyndist góður undirbúningur varðandi starfsþróun og áhugasvið einstaklinga og þegar kemur að algengum hindrunum í atvinnuleit. Elska starfið mitt og lít oft á það sem forréttindi að fá að vera til staðar fyrir einstaklinga sem eru að taka þessi mikilvægu skref í lífi sínu. 

Hafðu samband

Nemenda- og kennsluþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500 
Netfang: nemFVS@hi.is

Opið virka daga frá 09:00 - 15:00 
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík

Bóka viðtal við nemenda- og kennsluþjónustu Félagsvísindasviðs

Fylgstu með Félagsvísindasviði

 Instagram   Youtube 
 Facebook

Gimli, Háskóli Íslands

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.