Skip to main content

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjöf

Félagsvísindasvið

Náms- og starfsráðgjöf

MA gráða – 120 einingar

Náms– og starfsráðgjafar starfa á fjölbreyttum vettvangi og veita fólki á öllum aldri ráðgjöf og stuðning við að láta drauma sína rætast í námi og starfi. Ráðgjöfin miðar að því að efla sjálfsþekkingu og aðstoða fólk við að bera kennsl á og virkja styrkleika sína og áhugasvið, takast á við breytingar og hindranir og taka ígrundaðar ákvarðanir á ferlinum.

Flest námskeið eru kennd í staðnámi en nemendur utan höfuðborgarsvæðisins geta sótt um að taka þátt í kennslustundum í streymi. Tvisvar á misseri eru staðlotur með skyldumætingu. 

Skipulag náms

X

Ráðgjafarkenningar (NSR007F)

Í námskeiðinu er farið yfir helstu ráðgjafarkenningar og hvernig hægt er að nýta þær til  að greina samskipti og viðfangsefni í ráðgjöf og skipuleggja frekari aðstoð. Hugmyndasaga ráðgjafarkenninga er rakin frá sálgreiningu til síðnútíma. Einnig er fjallað um sögu náms- og starfsráðgjafar. Síðustu þrjá kennsludagana verður umfjöllun um starfsferilskenningar hafin og henni haldið áfram á vormisseri. Rýnt verður í áhrif fjölmenningar og kynferðis á kenningasmíð og ráðgjöf.  Nemendur greina einnig eigin ráðgjafarstíl og starfsferil.

X

Vettvangur I: Samhengi (NSR024F)

Nemendur kynnast starfi og hlutverki náms- og starfsráðgjafa á fjölbreyttum vettvangi, eðli ólíkra stofnana, lagaramma ásamt samvinnu við aðrar stofnanir og starfsstéttir. Farið er í helstu þætti starfs náms- og starfsráðgjafa, skipulag þjónustunnar og er nemendum gefin innsýn í aðferðir sem beitt er í náms- og starfsráðgjöf á vettvangi. Fjallað er um hlutverk náms- og starfsráðgjafar í fjölmenningar samfélagi. Hugað er að viðhorfum, persónulegri reynslu, gildismati og menningarlegum uppruna nemenda ásamt sýn á ráðgjafarstarfið til að leggja grunn að starfsþróun nemenda sem fagmanna og faglegri ígrundun. Nemendur kynnast kenningum um áhugahvöt, sjálfmynd og markmið og vinnubrögðum í námi. Fjallað er um virka hlustun, samband ráðgjafa og ráðþega, samskiptalíkön kynnt og grunnatriði tengd samskiptum í ráðgjöf æfð. Nemendur fara í tvær aðskildar viku heimsóknir á vettvang (skólar og stofnanir).

X

Megindleg aðferðafræði (FMÞ001F)

Meginefni námskeiðsins eru megindlegar rannsóknaraðferðir og tölfræði í félags- og menntavísindum. Lögð er áhersla á virka þátttöku nemenda og umfjöllun um þátt rannsókna í samfélaginu. Fjallað er um helstu rannsóknarsnið, úrtaksfræði og gerð spurningalista. Í tölfræðihluta er kennt um lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði og fjallað ítarlega um dreifigreiningu og aðhvarfsgreiningu. Nemendur vinna hagnýt verkefni í tölfræðilegri úrvinnslu gagna með SPSS forritinu samhliða fyrirlestrum. Nemendur geta unnið með eigin gögn.

X

Lífshlaupið, sjálf og samfélag (FFR302M)

Aðstæður og reynsla fatlaðs fólks er miðlæg í umfjöllun námskeiðsins, þar sem áhersla er á lífshlaupið og þau meginsvið sem snerta daglegt líf, svo sem fjölskyldulíf, menntun, atvinnu og búsetu. Rýnt verður í íslenskar og erlendar rannsóknir um líf og aðstæður fatlaðs fólk og þau fjölmörgu öfl sem móta sjálfsmynd og sjálfsskilning fatlaðra barna, ungmenna og fullorðins fólks. Fræðileg umfjöllun námskeiðsins er tengd við lagasetningar, stefnumótun, þjónustu, velferðarkerfi og félagslegar aðstæður fatlaðs fólks. 

X

Starfsendurhæfing I (FRG120F)

Í námskeiðinu kynnast nemendur sögu starfsendurhæfingar, hugmyndafræði og grunnatriðum er lúta að mati og valdeflandi samvinnu við notendur. Áhersla er á viðtalstækni og beitingu hennar. Nemendur kynnast aðferðum sem fagfólk í starfsendurhæfingu notar til þess að safna upplýsingum og álykta um færni og þátttöku í starfi og rýna í og prófa ýmsar gerðir matstækja og matsaðferða, allt frá skjólstæðingsmiðuðu viðtali til staðalbundins prófs. Þeir rýna í fræðilegar undirstöður mats, mælifræðileg hugtök, túlkun matsniðurstaðna og siðfræðilega þætti er að því lýtur. Unnin eru sjálfstæð verkefni þar sem nemendur tengja fræðilega þekkingu hagnýtu starfi og skapa vitund um viðhorf, eigið gildismat og persónuþætti. Áhersla er lögð á að nemendur séu undirbúnir fyrir siðferðilegar ákvarðanir og meðferð álitamála og geti greint frá þeim í orði og rituðu máli á faglegan máta.

Námskeiðið er forkrafa fyrir námskeiðið Starfsendurhæfing II.

X

Barnavernd - hvað er börnum fyrir bestu? (KME118F)

Markmið námskeiðsins er að auka fræðilega þekkingu og hæfni sérkennara, starfsfólks leik- og grunnskóla og nema í tómstunda- eða uppeldis- og menntunarfræði til að efla hagsmunagæslu, vernd og stuðning við börn.

Námskeiðið tengist Heimsmarkmiðum Sameinuðuþjóðanna nr. 3 (heilsa og vellíðan) nr. 4 (menntun fyrir alla).

Í námskeiðinu er fjallað um réttindi og skyldur starfsmanna, barna og forsjáraðila. Rætt um lög og reglugerðir þessu viðkomandi. Fjallað er um einkenni og vísbendingar þess að velferð barns sé ábótavant, ofbeldi gagnvart börnum sem og mati á slíkum aðstæðum. Sjónum verður beint að farsæld barna og þætti sem geta komið í veg fyrir farsæld.  Fjallað er um gildi þverfaglegs samstarfs þegar unnið er að velferð barna, það tengt forvarnarstarfi og gerð viðbragðsáætlanna. Kennsla er í formi fyrirlestra á upptöku og í staðlotum, umræðna og verkefna. 


Kennsla er í formi fyrirlestra og umræðu í tveimur staðlotum, umræðu innan námshópa yfir önnina og verkefnavinnu. Viðvera í staðlotum er skylda og því forsenda þess að taka þátt í námskeiðinu. Áhersla er á sjálfstæða vinnu nemenda. Nemendur þurfa að skipuleggja lestur sinn og þannig kynna sér efnið sem kennari leggur fram. Krafa er gerð til nemenda að þeir deili þekkingu sinni með samnemendum og eigi í reglulegum samskiptum við aðra nemendur.

X

Börn sem þurfa sérstakan stuðning í námi (KME119F)

Megintilgangur þessa námskeiðs er að þátttakendur þekki og skilji helstu kenningar, hugtök og nýlegar rannsóknir sem taka til áhættuþátta sem tengjast málþróun og læsi (lestrar og lesskilningi, stafsetningu og ritun) og samspil þessara þátta við nám og félagslegar aðstæður barna. Enn fremur að skilja mikilvægi mál- og boðskiptafærni í skólasamfélaginu. Þátttakendur kynnast og þjálfa sig í að beita kenningum og aðferðum snemmtækrar íhlutunar og fyrirbyggjandi kennslu við raunveruleg verkefni í skólum og leikskólum í vinnu með börnum í áhættuhópum. Loks kynnast þeir hlutverkum og starfsemi tengslastofnana og fagfólks sem þeir eru líklegir til að starfa með bæði innan skóla og utan hans.

Viðfangsefni:
Fjallað verður um hvernig mál og málþróun tengist námi og félagslegri þátttöku nemenda í áhættuhópum í skólasamfélaginu og hvernig koma má til móts við þarfir þeirra með því að beita viðeigandi þekkingu, kennsluháttum, þar með talið úrræðum altækrar hönnunar, bæði í kennslu og kennsluskipulagi. Meðal annars verður fjallað um tengsl málfrávika við einhverfu, ADHD, tvítyngi, námserfiðleika o.fl. Lögð er áhersla á úrræði sem efla nemendur í skólasamfélaginu og sem draga úr sérþörfum þeirra og efla þá í náminu, bæði í lestri, lesskilningi, ritun, stærðfræði og félagslegri þátttöku innan og utan skólans. Kynntar verða aðferðir við að finna börn í áhættuhópum, bæði í leikskólum og fyrstu bekkjum grunnskóla með áherslu á inngrip með aðferðum snemmtækrar íhlutunar (m.a. í mál- og tjáskiptavanda), fyrirbyggjandi kennslu og árangursríkum, sannreyndum kennsluaðferðum. Lögð er áhersla á heildræna sýn á nemandann og þarfir hans í samstarfi við foreldra og sérfræðinga.

Vinnulag:
Kennsla fer fram í formi fyrirlestra og umræðna, samhliða í rauntíma á Teams og í kennslustofu.  Margir gestafyrirlesarar koma með sérfræðileg innlegg í tvær staðbundnar lotur á önninni. Nemendur vinna einstaklingsverkefni, og hópverkefni þar sem lögð er áhersla og djúpan skilning á þörfum nemenda og úrræði við hæfi.

X

Markaðssetning fræðslu (NAF005F)

Hvernig fáum við þátttakendur á námskeiðin okkar? Hvernig skipuleggjum við námskeið eða önnur námstilboð þannig að þau höfði til þeirra sem þau eru skipulögð fyrir? Hvernig náum við til "réttu" þátttakendanna? Hvernig er hægt að nota nýja miðla til að ná til þátttakenda?

Þessum spurningum og fleiri svipuðum munu þátttakendur leita svara við á námskeiðinu "Markaðssetning fræðslutilboða fyrir fullorðna"

Bæði markaðsfræðin og kennslufræðin búa yfir kenningum, og aðferðum sem geta hjálpað stjórnendum, skipuleggjendum og kennurum að skipuleggja og kynna námstilboð þannig að þau mæti þörfum væntanlegra þátttakenda, og til þess að þeir sem hefðu gagn af því að nýta sér námstilboðin viti af þeim og geti sótt þau.

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur geti nýtt sér kenningar og aðferðir markaðsfræði og kennslufræði við skipulagningu á fræðslu fyrir fullorðna, einkum við það að velja viðfangsefni, markhópa, námsform, staðsetningu og kynningu. Á námskeiðinu verður fjallað bæði um „innri“ markaðssetningu – þ.e. innan fyrirtækis eða stofnunar sem og markaðssetningu fyrir hinn almenna markað.

Stefnt er að því að þátttakendur muni að námskeiði loknu…

  • hugsa um fræðslustarf fyrir fullorðna frá sjónarhóli væntanlegra þátttakenda.
  • geta nýtt sér hugmyndir markaðsfræði og kennslufræði um s.k. þátttakendamiðun, og markhópamiðun við skipulagningu fræðslu.
  • kunni til verka við að útbúa markaðsáætlun fyrir tiltekin námstilboð,  þjónustu eða fyrir stofnun sína sem heild.
  • geti rökstutt svo kallað val svo kallaðra söluráða fyrir tiltekið námstilboð (þætti eins og markhóp, staðsetningu, kynningu, skipulagningu námskeiðsins sjálfs, hvað þátttakendur fá út úr námskeiðinu ofl. ).
  • hafi haldgóðar hugmyndir um það hvernig megi nýta vefinn og aðra miðla í markaðsstarfi fræðslustofnunar eða deildar

Viðfangsefni
Á námskeiðinu verður fjallað bæði um "innri" markaðssetningu - þ.e. innan fyrirtækis eða stofnunar- sem og "ytri" markaðssetningu - fyrir hinn almenna markað. Til þess að ná markmiðum námskeiðsins kynna þátttakendur sér helstu hugmyndir og kenningar markaðsfræðinnar - einkum í tengslum við markaðssetningu fræðslu. Þá munu þáttakendur einnig kynnast kenningar og nálgunum úr fullorðinsfræðslunni sem tengjast svipuðum viðfangsefnum ss. "þátttakendamiðun fræðslu" og "markhópastarf í fræðslu" og skoða hvernig sjónarhorn markaðsfræðinnar og kennslufræðinnar tengjast og geta nýst saman. Þá kynna þátttakendur sér ýmsar hagnýtar leiðir og aðferðir við markaðssetningu námskeiða. Þátttakendur geta unnið bæði hagnýt og fræðileg verkefni og tengt þau við þær kenningar, hugmyndir og aðferðir sem þeir tileinka sér á námskeiðinu.

Fyrir hverja er námskeiðið?
Námskeiðið hentar sérlega vel öllum þeim sem þurfa eða vilja skipuleggja námstilboð fyrir fullorðna og/eða koma þeim á framfæri við mögulega þátttakendur. Það nýtist t.d. starfsfólki sem kemur að mannauðs- og fræðslumálum fyrirtækja og stofnana, stjórnendum og verkefnastjórum í stofnunum sem bjóða upp á nám og námskeið fyrir fullorðna sem og öðru fólki sem vill koma námskeiðum sínum og öðrum námstilboðum á framfæri við væntanlega þátttakendur.

Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem blandað nám. Það þýðir að þátttakendur hittast (ef aðstæður leyfa) á tvær staðlotur í húsnæði skólans og vinna saman yfir netið þess á milli. Nánari upplýsingar koma þegar nær dregur

Í fjarlotum vinna nemendur saman á vefnum, einstaklingsverkefni, hópverkefni og með öllum hópnum,

Á staðlotum verða stuttir fyrirlestrar kennara og nemenda og umræður, en umfram allt er lögð mikil áhersla á samvinnu þátttakenda um úrvinnslu námsefnisins.

Námsmat
Þátttakendur sem taka námskeiðið til háskólaeininga vinna nokkur einstaklings- og hópverkefni sem verða metin til einkunnar.

Lesefni

  1. Aðal bók námskeiðsins er: Foundations of Marketing 6. útgáfa eða nýrri eftir John Fahy og David Jobber
  2. Reiknað er með að þátttakendur lesi a.m.k. tvær aðrar bækur af þessum lista
  3. Fræðilegar greinar, blogg og vefsíður sem tengjast efninu.
X

Upplýsingafræði og miðlun í samfélagi margbreytileikans (UPP109F)

Í námskeiðinu verður fjallað um sígild viðfangsefni og kynntir helstu straumar og stefnur á sviði upplýsingafræði.  Áhersla verður lögð á að fjalla um fræðilegar skilgreiningar, kenningar og líkön varðandi upplýsingahegðun og upplýsinga- og miðlalæsi, sem og áhrifaþætti við öflun og miðlun upplýsinga og þekkingar. Fjallað verður um eðli og einkenni upplýsinga og þekkingar. Gerð verður grein fyrir þróun rannsókna á sviðinu og hugsanlegri hagnýtingu slíkra rannsókna á starfsvettvangi. Fjallað verður um skilgreiningar og kenningar um upplýsinga- og miðlalæsi. Einnig verður fjallað um upplýsingahegðun út frá mismunandi samfélagshópum og gerð grein fyrir hugtökum og kenningalegri nálgun á því sviði, svo sem upplýsingaþörf , upplýsingasvæði, hindranir við upplýsingaöflun, upplýsingafátækt, hliðvarsla, lögmálið um minnsta fyrirhöfn og mismunandi form upplýsingaleitar.

X

Náms- og starfsferill, inngrip og mat (NSR009F)

Kynntar eru helstu kenningar og nýlegar rannsóknir um farsæla skólagöngu og brotthvarf frá námi í ljósi íslenskrar menntastefnu og margbreytileika nemenda. Jafnframt er fjallað um áætlun í náms- og starfsráðgjöf með áherslu á náms- og starfsfræðslu og horft til framkvæmdar hennar í nágrannalöndunum á undanförnum árum. Nemendur kynnast upplýsingaveitum um nám og störf og mati á skilvirkni náms- og starfsráðgjafar. Auk þess er umfjöllun um stöðu, þróun og framtíðarhorfur á íslenskum vinnumarkaði.

X

Starfsferilskenningar (NSR023F)

Kenningar um þróun og sköpun starfsferils eru þungamiðja þessa námskeiðs, með sérstakri áherslu á nýjustu hræringar á fræðasviðinu. Kynntar verða fræðilegar undirstöður kenninga um starfsferilinn og hvernig rannsóknir eru að knýja áfram nýjungar í kenningasmíð. Í námskeiðinu öðlast nemendur skilning á hagnýtingu kenninganna í náms- og starfsráðgjöf, m.a. með því að skoða hvernig unnt er að örva hugsun um starfsferil og stýra stefnu á eigin starfsferli.

X

Málstofa um meistararitgerð I (NSR027F)

Málstofa

X

Próffræði og mat (NSR202F)

Námskeiðið fjallar um sálfræðileg próf og mat á einstaklingum ásamt umhverfi þeirra. Fjallað er um sögu og hugmyndafræði mats, helstu hugtök og aðferðir. Helstu tölfræðileg hugtök eru kynnt og ítarlega fjallað um áreiðanleika og réttmæti matsniðurstaðna. Fjallað er um notkun matstækja, siðaviðmið og lögð áhersla á hvernig best er að meta gæði matstækja, gagnsemi og aðrar afleiðingar notkunar þeirra. Kynnt verða áhrif menningar og samfélags á sálfræðilegt mat. Fjallað verðu um þróun sálfræðilegra prófa, þýðingar á erlendum matstækjum og um vanda við notkun mats með fjölbreyttum hópum fólks.

X

MA-ritgerð í náms- og starfsráðgjöf (NSR441L)

MA-ritgerð í náms- og starfsráðgjöf.  

Mælst er til þess að nemendur taki námskeiðið málstofu um meistararitgerð í náms- og starfsráðgjöf.

X

Málstofa um meistararitgerð II (NSR029F)

Málstofa

X

MA-ritgerð í náms- og starfsráðgjöf (NSR441L)

MA-ritgerð í náms- og starfsráðgjöf.  

Mælst er til þess að nemendur taki námskeiðið málstofu um meistararitgerð í náms- og starfsráðgjöf.

X

Eigindlegar rannsóknaraðferðir I (FMÞ103F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist fjölbreytileika og fræðilegum forsendum eigindlegrar rannsóknahefðar í félagsvísindum og öðlist reynslu í að beita eigindlegum aðferðum. Um hagnýtt námskeið er að ræða þar sem hver nemandi vinnur sjálfstætt rannsóknarverkefni sem felst í því að hanna og undirbúa rannsókn, afla gagna, greina þau og skrifa um helstu niðurstöður undir handleiðslu kennara. Í námskeiðinu verður farið ítarlega í undirbúning rannsókna, gerð rannsóknaráætlunar, gagnaöflun, greiningu og skrif.

X

Aðhvarfsgreining (FMÞ501M)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning og verklega færni til að beita aðhvarfsgreiningu á eigin spýtur. Fjallað er um þau afbrigði aðhvarfsgreiningar sem hvað oftast eru notuð í rannsóknum á sviði félagsvísinda. Farið er í stjórnun breyta, notkun nafnbreyta, línuleg og ólínuleg líkön, aðferðir til þess að prófa miðlun breyta og samvirkni breyta og aðferðir til að nota breytur sem hafa skekkta dreifingu svo eitthvað sé nefnt. Fjallað er um forsendur aðhvarfsgreiningar og aðferðir til að fást við þær. Einnig er fjallað um "logistic" aðhvarfsgreiningu, þar sem háða breytan er tvígild nafnbreyta. Samhliða þessari umfjöllun verður farið í saumana á ályktunartölfræði, notkun marktektarprófa og túlkun niðurstaðna. Áhersla er lögð á að nemendur fái umtalsverða verklega reynslu af því að greina megindleg gögn. Kennari útvegar könnunargögn sem nemendur nota til þess að prófa þær aðferðir sem kenndar eru. Eftir fremsta megni verður reynt að samþætta fræðilegar spurningar og tilgátuprófun. Tölfræðiforritið SPSS fyrir Windows er notað.

X

Vettvangur II: Samskipti (NSR025F)

Fjallað er um samskipti við ráðþega, uppbyggingu samtala. Farið er ítarlega í hugtök sem lögð eru til grundvallar við greiningu á ráðgjafarviðtölum og viðbrögðum ráðþega. Einnig verða fjölmenningarlegar viðtalsaðferðir þjálfaðar með markvissum hætti. Ráðgjafarferlið er nánar kynnt og nemendum kennt að meta eigin frammistöðu í samskiptum við ráðþega og aðra með áherslu á uppbyggingu ráðgjafarsambands. Fjallað er um einkenni upplýsingasamfélagsins, færni og aðferðir við öflun og miðlun upplýsinga og aðferðir og leiðir í rafrænni ráðgjöf ásamt siðferðilegum álitamálum verða sérstaklega teknar fyrir. Nemendur kynnast hópráðgjöf og kenningum um áhugahvöt, sjálfmynd og markmið. Áfram er haldið vinnu nemenda að eigin starfsþróun sem sérfræðingur á sviði náms- og starfsráðgjafar.

X

Vettvangur III: Handleiðsla (NSR028F)

Meginviðfangsefni námskeiðsins eru tengsl kenninga og fræða við aðferðir í ráðgjöf. Sérstaklega verður fjallað um hópráðgjöf, notkun matstækja, siðlegar hliðar starfsins og starfsþróun nemenda sem fagmanna á sviði náms- og starfsráðgjafar í fjölmenningarsamfélagi. Að auki verður fjallað um þær stofnanlegu og samfélagslegu hindranir sem verða á vegi fólks við þróun og sköpun starfsferils. Nemendur starfa undir handleiðslu náms- og starfsráðgjafa á vettvangi að eigin vali (grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla, vinnumarkaði) í 200 stundir.

X

Persónulegir og félagslegir erfiðleikar (NSR203F)

Meginviðfangsefni námskeiðsins eru persónulegir og félagslegir erfiðleikar barna og ungmenna og horfur á fullorðinsárum. Kynntar eru helstu skilgreiningar á og algengi hegðunar-,  tilfinninga- og námserfiðleika með tilliti til fræða og alþjóðlegra flokkunarkerfa. Jafnframt er fjallað um áhættu- og vernandi þætti, seiglu og forvarnir. Áhersla er lögð á margbreytileika hópa. Nemendur kynnast viðeigandi úrræðum með áherslu á gagnreyndar aðferðir og samráð fagstétta.

X

MA-ritgerð í náms- og starfsráðgjöf (NSR441L)

MA-ritgerð í náms- og starfsráðgjöf.  

Mælst er til þess að nemendur taki námskeiðið málstofu um meistararitgerð í náms- og starfsráðgjöf.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Ketil Jósefsson
Regína Bergdís Erlingsdóttir
Inga Berg Gísladóttir
Jóhann Aðalsteinn Árnason
Anna Lóa Ólafsdóttir
Ketill Jósefsson, náms- og starfsráðgjafi Vinnumálastofnun
Náms- og starfsráðgjöf

„Fyrir mér er náms- og starfsráðgjöf nauðsynleg í skóla og starfi. Hún er samofin því starfi sem við sinnum eftir bestu getu hjá vinnumálastofnunum um allt land. Við erum að vinna með heill og velferð fólks á aldrinum 18 ára til sjötugs þar sem fagþekkingin skiptir miklu máli.“

Regína Bergdís Erlingsdóttir
Meistaranemi í náms- og starfsráðgjöf

Námið hefur verið skemmtilegt og áhugavert. Kennslan hefur verið mjög góð og haldið er vel utan um nemendur. Frábær reynsla úti á vettvangi fylgir náminu og býður það upp á fjölbreytta atvinnumöguleika sem og skemmtilegan starfsvettvang í framtíðinni.

Inga Berg Gísladóttir
Náms- og starfsráðgjöf

Námið í náms- og starfsráðgjöf var bæði áhugavert og skemmtilegt en um leið krefjandi. Námið er góð blanda af fræðilegum kenningagrunni og þjálfun á vettvangi. Það er mikilvægt í námi sem þessu að fá tækifæri til vettvangsnáms og að fá að stíga sín fyrstu skref inn í starfið undir handleiðslu sérfræðinga. Námið hefur nýst mér mjög vel í fjölbreyttu starfi mínu með háskólanemendum þar sem ég aðstoða meðal annars nemendur við vinnubrögð í námi, námsval og ákvarðanatöku um nám, undirbúning fyrir atvinnulíf og margt margt fleira. Námið getur einnig nýst einstaklingum í störfum á mjög fjölbreyttum starfsvettvangi sem ég tel mikinn kost fyrir þróun á mínum eigin starfsferli. 

Jóhann Aðalsteinn Árnason, náms- og starfsráðgjafi við Háskólann á Bifröst
Náms- og starfsráðgjöf

Námið var mjög skemmtilegt og krefjandi á sama tíma. Það undirbjó mig vel fyrir fagmennsku í núverandi starfi. Lærði mjög margt í þessu námi bæði fræðilega og um sjálfan mig persónulega. Námið, kennarar og samnemendur hjálpuðu mikið til með hvort tveggja. Eftir námið fannst mér ég vel undirbúinn að hefja störf sem náms- og starfsráðgjafi. Góð blanda af bóklegu námi og svo vettvangsnámi sem var gífurlega mikilvægt. Samheldinn hópur og maður eignaðist vini fyrir lífstíð. 

Anna Lóa Ólafsdóttir, atvinnulífstengill hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði
Náms- og starfsráðgjöf

Ég útskrifaðist úr náms- og starfsráðgjöf vorið 2008 og hef aðallega unnið við að aðstoða fólk í atvinnuleit, við val á námi og að vera stuðningur þegar einstaklingar eru að takast á við miklar breytingar. Námið reyndist góður undirbúningur varðandi starfsþróun og áhugasvið einstaklinga og þegar kemur að algengum hindrunum í atvinnuleit. Elska starfið mitt og lít oft á það sem forréttindi að fá að vera til staðar fyrir einstaklinga sem eru að taka þessi mikilvægu skref í lífi sínu. 

Hafðu samband

Nemendaþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500 nemFVS@hi.is

Opið virka daga frá 09:00 - 15:00 
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík

Bóka viðtal við nemendaþjónustu Félagsvísindasviðs

Fylgstu með Félagsvísindasviði

 Instagram   Youtube 
 Facebook

Gimli, Háskóli Íslands

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.