Skip to main content

Vísindamenn Háskóla Íslands varpa nýju ljósi á stjórnun taugafrumna

""

Vísindamenn við Lífvísindasetur Háskóla Íslands hafa komist að því að tiltekið stjórnprótín, sem gegnir lykilhlutverki við myndun sortuæxla, hefur einnig áhrif á starfsemi tiltekinna tegunda taugafrumna. Sagt er frá þessari uppgötvun í vísindatímaritinu eNeuro.

Virkni taugafrumna í heilanum stjórnar því hvernig hann starfar en frumurnar virkjast við ýmiss konar áreiti sem við verðum fyrir. Einföld leið til að virkja taugafrumur er t.d. að anda að sér lykt en það örvar lyktarskynfrumur í nefholi. Þær virkja aftur svokallaðar Mítraltaugafrumur í þeim hluta miðtaugakerfisins sem vinnur úr lyktarupplýsingum og sendir þær áfram m.a. til heilabarkar. Ef við þefum t.d. af appelsínu virkjast ákveðnar Mítralfrumur en það eru ekki þær sömu og virkjast þegar við lyktum af banana. Þannig getum við greint á milli mismunandi lyktar. Þetta svæði heilans nefnist lyktarklumba (e. olfactory bulb).

Vísindamenn við Lífvísindasetur Háskóla Íslands hafa um langt skeið sinnt rannsóknum á tilteknu prótíni sem binst DNA í sumum frumum og stjórnar tjáningu gena. Þetta stjórnprótín nefnist á ensku Microphthalmia associated transcription factor (MITF) og er svonefndur umritunarþáttur. MITF-prótínið gegnir lykilhlutverki við þroskun litfruma sem ákvarða m.a. lit á húð, hári og augum. Það stjórnar líka myndun sortuæxla, hættulegustu tegundar húðkrabbameina sem myndast við stökkbreytingu litfrumna.

Í grein vísindamanna Háskólans sem birtist í eNeuro er sagt frá öðru hlutverki þessa stjórnprótíns. Rannsóknir þeirra og tilraunir leiða í ljós að það er einnig nauðsynlegt fyrir eðlilega starfsemi Mítralfrumna í lyktarklumbu músa. Sé MITF-prótínið ekki fyrir hendi í frumunum verða frumur þessar ofvirkar, en það hefur þær afleiðingar að mýs eiga auðveldara með að aðgreina mismunandi lykt. Þessi virkni stjórnprótínsins var áður óþekkt og munu áframhaldandi rannsóknir vísindamannanna miða að því að varpa skýrara ljósi á það hvernig stjórnun MITF-prótínsins í taugafrumunum fer fram.

Að rannsókninni, sem sagt er frá í eNeuro, standa þeir Pétur Henry Petersen dósent og prófessorarnir Eiríkur Steingrímsson og Þór Eysteinsson, sem allir starfa við Lífvísindasetur Háskóla Íslands. Að verkefninu unnu einnig doktorsneminn Diahann Atacho sem nú starfar sem nýdoktor við Lundarháskóla, og meistaranemarnir Hallur Reynisson, sem nú er doktorsnemi við University of New South Wales í Sydney í Ástralíu, og Anna Þóra Pétursdóttur, sem starfar nú hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Virkni taugafrumna skiptir miklu máli fyrir starfsemi líkamans. Flogaveiki má t.d. rekja til röskunar á virkni slíkra frumna og sömuleiðis taugahrörnunarsjúkdóma eins og Alzheimers. Einnig er talið að gallar í stýringu á taugavirkni geti legið að baki einhverfu. Rannsóknir á því hvaða ferli koma að stýringu á tíðni taugaboða hafa því víðtæka þýðingu fyrir skilning okkar á sjúkdómum og geta varpað ljósi á hvað veldur of mikilli eða of lítilli virkni taugafrumna.
 
Að rannsókninni, sem sagt er frá í eNeuro, standa þeir Pétur Henry Petersen dósent og prófessorarnir Eiríkur Steingrímsson og Þór Eysteinsson, sem allir starfa við Lífvísindasetur Háskóla Íslands. Að verkefninu unnu einnig doktorsneminn Diahann Atacho sem nú starfar sem nýdoktor við Lundarháskóla, og meistaranemarnir Hallur Reynisson, sem nú er doktorsnemi við University of New South Wales í Sydney í Ástralíu, og Anna Þóra Pétursdóttur, sem starfar nú hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Rannsóknin naut stuðnings bæði Rannsóknasjóðs Íslands og Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands.

Greinin er birt í opnum aðgangi og má nálgast hana hér