Vinnumenning og kynjatengsl | Háskóli Íslands Skip to main content

Vinnumenning og kynjatengsl

Gyða Margrét Pétursdóttir, doktor í kynjafræði

„Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynskiptur, karlar og konur gegna ólíkum störfum og karlar eru oftar en konur í stjórnunarstöðum,“ segir Gyða Margrét Pétursdóttir aðjunkt. Hún útskrifaðist fyrst allra með doktorsgráðu í kynjafræði frá Háskóla Íslands.

Gyða bar saman þrjú svið á vinnumarkaði og rannsakaði meðal annars kynjaðar væntingar til starfsfólks hjá hugbúnaðarfyrirtækjum, í matvöruverslun, á skyndibitastöðum, bensínstöð og á vinnustöðum Reykjavíkurborgar. „Litið er á karla sem fyrirmyndarstarfsmenn og ætlast er til að þeir eyði sem mestum tíma í vinnunni og konur eru taldar betri í þjónustuhlutverkinu og veljast til slíkra starfa. Þetta birtist skýrt á mörgum vinnustaðanna óháð því hvort fólk hefur aflað sér formlegrar menntunar annars vegar og hvort fólk starfar hjá hinu opinbera eða í einkageiranum hins vegar.

Gyða Margrét Pétursdóttir

„Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynskiptur, karlar og konur gegna ólíkum störfum og karlar eru oftar en konur í stjórnunarstöðum.“

Gyða Margrét Pétursdóttir

„Ljóst er að kyn litar sýn okkar á einstaklinginn,“ segir Gyða. „Störf karla bjóða almennt upp á meiri sveigjanleika en á móti kemur að ætlast er til af körlum að vera fyrirvinnur. „Ég er, því ég vinn,“ er dæmigert viðhorf karla sem hefur áhrif á stöðu þeirra í vinnunni og heima við. „Þrátt fyrir að karlar verji meiri tíma í launaðri vinnu en konur þá fá þeir samt meiri frítíma til að sinna áhugamálum sínum. Konur bera meginábyrgð á heimilisstörfum og umönnun barna en eru frekar í störfum sem bjóða upp á minna sjálfræði en störf karla. Þess vegna er erfiðara fyrir þær en fyrir karla að sinna því hlutverki.“

Fjölmiðlar hafa kynnt niðurstöður rannsóknarinnar og verkalýðsfélög og einstaklingar hafa keypt ritgerðina. „Svo hef ég kynnt niðurstöðurnar á ráðstefnum og á kynningum og mér verið boðið í heimsókn til faghópa. Síðast en ekki síst nýtist rannsóknin nemendum mínum í HÍ,“ segir Gyða.

Leiðbeinandi: Þorgerður Einarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild.