Skip to main content

Viðhorf til umhverfismála hafa lítil áhrif á ferðamáta fólks

bílar í umferð

Áróra Árnadóttir, doktorsnemi við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild

Viðhorf fólks til umhverfismála virðist lítil áhrif hafa á ferðamáta þess, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar. „Það sem við höfum séð bæði í Helsinki og Reykjavík er að umhverfisviðhorf hefur ekki marktæk áhrif á hversu mikið fólk ferðast til útlanda eða hvort það keyri eða hjóli í vinnuna. Þeir sem eru mest miðsvæðis menga minna dagsdaglega með því að hjóla, labba eða taka strætó en fólk í úthverfum sem keyrir meira. En svo snýst þetta algjörlega við þegar kemur að ferðum til útlanda því þá fara þeir sem búa miðsvæðis meira til útlanda en þeir sem eru í úthverfunum. Yfir árið er kolefnisfótsporið af því að fara til útlanda að meðaltali miklu meira en það að keyra bíl sem skiptir miklu máli,“ segir Áróra Árnadóttir, doktorsnemi við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild.

Áróra vinnur að doktorsrsrannsókninni „Losun gróðurhúsalofttegunda frá borgarlífstílum og tengingu þeirra við borgarmynstur og umhverfisviðhorf“. Hún er í rannsóknarhóp með leiðbeinanda sínum, Jukka Taneli Heinonen, prófessor í umhverfisverkfræði, og Michal Czepkiewicz, nýdoktor á Verkfræðistofnun. Niðurstöður rannsókna þremenningana á áhrifum umhverfisvitundar í Helsinki hafa verið birtar í Energies og önnur grein um umhverfisvitund og hegðun Reykvíkinga birtist í nóvember í vísindatímaritinu Sustainability. Skoðað var hvort og þá hvernig umhverfisvitund fólks hefði áhrif á ferðamáta þess og umhverfishegðun heimilisins, eins og að spara rafmagn og hita, hvort verslað er í nærumhverfi, keyptur lífrænn matur og umhverfisvæn föt.

Hægt að hafa mikil áhrif á hegðun fólks út frá skipulagi innviða

Kveikjan að rannsókninni er áhugi á hinu byggða umhverfi í stóra samhenginu. Áróra lærði arkitektúr áður en hún fór í meistaranám í umhverfis- og auðlindafræði og kynntist þar Jukka Heinonen sem var að rannsaka hið byggða umhverfi og kolefnisfótspor. „Á þessum tíma var mikið verið að einblína á að þétta byggð og minnka útblástur frá daglegum ferðum og finna leiðir til að minnka orkuþörf heimila, t.d. með blokkum. Ég vildi skoða hvað það er í nærumhverfinu sem lætur mann hegða sér einhvern veginn öðruvísi. Af því við sjáum að þeir sem búa þétt fljúga meira þá spyr ég: Hvað er það sem veldur því? Það er hægt að hafa mikil áhrif á hegðun fólks út frá því hvernig innviðir byggðar eru og það tengist bæði arkitektúr og skipulagsfræði,“ segir Áróra.

„Notum við meiri þjónustu af því hún er þarna, eins og til dæmis kaffihús, og kaupum við meira af dóti af því það er nálægt? Þú getur labbað út úr húsinu og þar er búð, er þá líklegra að þú farir inn í hana af því hún er þarna beint fyrir framan þig? “ spyr Áróra.  

Áróra Árnadóttir

„Ef við höldum áfram að horfa til þéttingu byggðar er vert að spyrja: Ef byggðin verður jafn þétt annars staðar, mun það skila sömu niðurstöðum? Er það eitthvað við þéttinguna sjálfa sem stuðlar að þessu eða þjónustuna sem verið er að bjóða upp á? Er þá ekki í rauninni verið að koma hlutunum í meira miðbæjarviðhorf? Notum við meiri þjónustu af því hún er þarna, eins og til dæmis kaffihús, og kaupum við meira af dóti af því það er nálægt? Þú getur labbað út úr húsinu og þar er búð, er þá líklegra að þú farir inn í hana af því hún er þarna beint fyrir framan þig? Ég sjálf er miðbæjarmanneskja og ekki á bíl og tengi við þetta og það er smá bömmer að sjá hvað flugferðirnar eru stór hluti af kolefnisspori okkar. Ég hef þó sett mér takmörk, sleppt flugferðum sem ég hef ætlað í og kolefnisjafna þær sem ég fer í,“ segir Áróra enn fremur.  

„Við viljum líka komast að því hvað fær þá sem eru með umhverfisvitund að ferðast svona mikið vitandi af kolefnisfótsporinu sem það skilur eftir flugferðir. Við sjáum í gögnunum að fólk tengir þetta því að vera heimsborgari, kunna nokkur tungumál og hafa áhuga á hvað er að gerast í öðrum löndum. Fólk nefnir einnig veðurfar hér á landi og að því fylgi frelsistilfinning að komast til útlanda. Næstu skref eru að kafa ofan í gögnin, halda áfram að taka viðtöl og reyna að finna frekari skýringar,“ segir Áróra.

Fræðin og listin hjálpast að

Við veltum fyrir okkur í lokin hvort bók Andra Snæs Magnasonar, sem er þekktur fyrir að koma torskildum staðreyndum vísindamanna um loftslagsmál til almennings, Tíminn og vatnið, sé mikilvæg leið í samvinnu fræða og lista til að koma almenningi í skilning um málefni. „Mér finnst að vísindin og listirnar ættu að hafa meiri tengingu því þetta er í grunninn það sama, listin er oft byggð á vísindum og listin hjálpar fólki til að skilja. Við getum ekki bara hent einhverjum tölum í fólk heldur verðum við að segja þetta á tungumáli sem við skiljum og það eru listamenn eins og Andri Snær sem kunna það og þekkja fólk og vita hvað það þarf að heyra,“ segir Áróra að lokum.

Leiðbeinandi: Jukka Taneli Heinonen, prófessor í umhverfisverkfræði á Verkfræði og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands. 

Höfundur greinar: Edda Rósa Gunnarsdóttir, meistaranemi í fréttamennsku.