Skip to main content

Ungt flóttafólk fær rödd í Reykjavík, Osló og London 

""

„Helstu áskoranir menntakerfa um allan heim markast af miklum hreyfanleika og menningarlegum margbreytileika. Stefnumótunar- og rannsóknasamstarf þvert á landamæri er sérlega mikilvægt þegar brugðist er við alþjóðlegum áskorunum eins og þessum.“

Þetta segir Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, um rannsókn sem miðar að því að kanna aðstæður ungmenna með stöðu innflytjenda eða flóttafólks til lýðræðislegrar menntunar og þróunar borgararvitundar í þremur borgum: Reykjavík, Osló og London. 

Verkefnið, sem kallast I-PIC, er eitt af mörgum undir stjórn Berglindar Rósar sem miðar að því að kortleggja og efla félagslegt réttlæti í menntun á Íslandi með áherslu á samverkandi áhrif stéttar, uppruna og kynferðis. Samstarfsfólk hennar í þessu nýja verkefni eru þau Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki á Menntavísindasviði, og Eva Harðardóttir doktorsnemi. Eva er uppeldis- og menntunarfræðingur, framhaldsskólakennari og fyrrverandi sérfræðingur hjá UNICEF í Malaví.

„Verkefnið I-PIC felst í að skoða hvernig skólinn getur leitt ungmenni inn í þátttökumiðað nám með því að gefa þeim tækifæri til að láta sjónarmið sín birtast í gegnum eigin ljósmyndir og túlkun á þeim. Reynsla og upplifun kennara, foreldra og jafningja þeirra nýtast einnig í verkefninu,“ segir Eva Harðardóttir, sem átti frumhugmyndina að verkefninu. 

Ungmenni á flótta fá rödd

Í gegnum verkefnið hefur Eva þróað skapandi og þátttökumiðaða kennsluaðferð ásamt Tinnu Ottesen rýmislistamanni. Aðferðin miðast við að ungt fólk geti varpað ljósi á eigin upplifun og veruleika í umhverfi skólans í gegnum ljósmyndir sem það tekur sjálft og greinir í samvinnu við kennara og rannsakendur. Um leið og þetta er samanburðarrannsókn á aðstæðum ungs fólks í þremur menntakerfum þá er markmiðið einnig að þróa gagnrýna og uppbyggilega kennsluaðferð sem tekst á við fjarlægðina og jafnvel útilokunina sem getur skapast milli ólíkra tungumála- og menningarhópa. Rannsóknarhópurinn leggur áherslu á að verkefnið sé því ekki síður mikilvægt skref í þróun nýrra kennslu- og rannsóknaraðferða á mörkum lista, fræða og framkvæmdar. 
 
Ólafur Páll hefur vakið athygli fyrir rannsóknir á sviði menntunarheimspeki. Hann segir að raddir jaðarsettra hópa, líkt og ungmenna á flótta, þurfi að fá raunverulegt vægi ef hugtök eins og lýðræðisleg þátttaka, inngilding og borgaravitund eiga að vera eitthvað annað en dauður bókstafur í menntastefnum þjóða. „Vonir standa til þess að þessi aðferð reynist árangursrík fyrir fjölbreytta nemendahópa þegar kunnátta í ríkjandi tungumáli er ekki enn til staðar og með hópum sem hafa hingað til ekki fengið sterka rödd í samfélaginu,“ segir Ólafur Páll. 

„Svona samstarf eykur líkur á að finna lausnir sem geta nýst til að þróa frekar stefnu um skóla án aðgreiningar á alþjóðlegum vettvangi. Reynsla ungs flóttafólks á Íslandi, Bretlandi og í Noregi eru mikilvægur hluti af lýðræðislegri þróun samfélaganna sem þau lifa og hrærast í. Að sama skapi verða menntakerfi þjóða að taka til greina og vinna á grunni fjölbreytileika og alþjóðlegrar borgaravitundar í stað þjóðhverfra og takmarkandi hugmynda um þátttöku,“ segir Eva. 

Berglind Rós Magnúsdóttir, Ólafur Páll Jónsson og Eva Harðardóttir

Hvernig mæta ólík menntakerfi áskorunum?

Enginn vafi leikur á því að nauðsynlegt er að rannsaka hvernig ungmennum af ólíku þjóðerni reiðir af í þeim flókna veruleika sem við glímum nú við. Það er vel til fundið að kanna þetta í þremur evrópskum borgum þar sem mikill hreyfanleiki er ríkjandi. Samstarfsaðilarnir í verkefninu eru Halla Hólmarsdóttir, dósent við Oslóarháskóla, og Jo-Anne Dillabough, dósent við Cambridge-háskóla í Bretlandi, sem hafa áralanga reynslu af rannsóknum með ungmennum á jaðri samfélags og skóla.

„Svona samstarf eykur líkur á að finna lausnir sem geta nýst til að þróa frekar stefnu um skóla án aðgreiningar á alþjóðlegum vettvangi. Reynsla ungs flóttafólks á Íslandi, Bretlandi og í Noregi eru mikilvægur hluti af lýðræðislegri þróun samfélaganna sem þau lifa og hrærast í. Að sama skapi verða menntakerfi þjóða að taka til greina og vinna á grunni fjölbreytileika og alþjóðlegrar borgaravitundar í stað þjóðhverfra og takmarkandi hugmynda um þátttöku,“ segir Eva. 

Rannsókn með miklar skírskotanir

Í fyrstu rannsóknargreinunum sem hafa birst á vegum verkefnisins hefur m.a. komið í ljós að skortur er á stefnumótun í málefnum ungs flóttafólks auk þess sem margir kennarar upplifa úrræðaleysi og lítinn stuðning til að takast á við menningarlegan margbreytileika í skólastarfi. Þá endurspegli orðræða kennara og opinberrar stefnumótunar viðteknar og þjóðhverfar hugmyndir um borgaravitund sem beinist að íslensku tungumáli, siðum og hefðum sem sé grundvöllur fyrir þátttöku nemenda í skólastarfi. 

„Við fordæmum ekki slíkar niðurstöður,“ segir Berglind Rós, „heldur höfum að markmiði að reyna að þróa hugmyndir og kennsluverkfæri til að takast betur á við þessa miklu áskorun. Með því að skilja stöðu þeirra ungmenna sem eru jaðarsett í menntakerfinu og leitast við að gefa þeim tækifæri til merkingarbærrar þátttöku þá öðlumst við einnig betri skilning á kerfinu í heild og getum þróað aðferðir við kennslu og rannsóknir sem nýtast miklu breiðari hópi.“