Skip to main content

Þróar ný lyf við bráðahvítblæði

Elvar Örn Viktorsson, lektor við Lyfjafræðideild

Flokkur efna úr náttúrunni, sem til þessa hefur verið lítið rannsakaður, virðist virka vel bæði gegn ákveðnum tegundum krabbameina og fjölónæmum bakteríum. Þetta sýna niðurstöður doktorsrannsóknar Elvars Arnar Viktorssonar við Óslóarháskóla en hann brautskráðist frá skólanum síðla árs 2017. Elvar er nú kominn til starfa sem lektor í lyfja- og efnafræði náttúruefna við Háskóla Íslands þar sem hann hyggst halda áfram þessum merkilegu rannsóknum.

Rannsóknir Elvars hverfast um flokk efna sem kallast fenazín 5,10-díoxíð og náttúruefnið iodinín. „Það hafði áður verið einangrað úr bakteríusýnum sem safnað var í Þrándheimsfirði í Noregi. Í framhaldinu var sýnt fram á mikla virkni og sértækni sameindarinnar gegn mennskum hvítblæðisfrumum. Sameindin á hins vegar takmarkaða möguleika sem lyf og þess vegna var álitið mikilvægt að hefja smíði náskyldra afleiðna af þessum lyfjasprota, bæði til að komast yfir vandamál tengd leysni og til að meta sambandið á milli efnabyggingar og virkni í frumuprófunum,“ segir Elvar og bætir við að með upplýsingum úr slíku ferli megi stýra þróun lyfjasprotans iodiníns í átt að skyldri sameind og mögulega nýju lyfi.
 

Elvar Örn Viktorsson

Í doktorsverkefninu smíðaði Elvar iodinín og náttúrulega afleiðu þess sem nefnist myxín, sem ekki er auðvelt að komast yfir.

Elvar Örn Viktorsson

Elvar bendir á að lyf af flokki svokallaðra antrasýklína hafi lengi verið notuð í upphafsmeðferð bráðamergfrumuhvítblæðis (e. acute myeloid leukemia; AML) en þau hafi miklar aukaverkanir, m.a. fyrir hjartað. „Ný lyf sem myndu herja á sjúkdóminn með meiri sértækni gætu þar af leiðandi leitt til mildari lyfjameðferðar í framtíðinni með færri aukaverkunum,“ segir Elvar um mikilvægi rannsóknarinnar.

Í doktorsverkefninu smíðaði Elvar iodinín og náttúrulega afleiðu þess sem nefnist myxín, sem ekki er auðvelt að komast yfir. „Efnasmíðin heppnaðist vel og gerði okkur kleift að keyra áfram þróun forlyfja og afleiðna í gegnum efnasmíðar með betrumbætta virkni og eðlislyfjafræðilega eiginleika. Í stuttu máli má segja að sýnt hafi verið fram á mikla möguleika þessa efnaflokks til að meðhöndla bráðahvítblæði, sér í lagi hvað varðar mikla virkni og töluverða sértækni,“ segir Elvar. Þá virðast efnin einnig búa yfir virkni gegn fjölónæmum bakteríum sem er ört vaxandi vandamál á heimsvísu.

Elvar bendir á að í rannsóknunum sé verið að kanna flokk efna sem hafi verið tiltölulega lítið rannsakaður til þessa. „Markmið mitt í störfum innan Háskólans verður að halda áfram þróun lyfjasprotans iodinín og fenazín 5,10-díoxíð afleiðna gegn bráðahvítblæði og fjölónæmum bakteríum,“ segir hann að endingu.