Skip to main content

Stúlkur þunglyndari og meira á netinu

Soffía M. Hrafnkelsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið

Í niðurstöðum nýlegrar rannsóknar á tengslum skjátíma og líðanar ungmenna kemur fram að fylgni er með auknum skjátíma og einkennum þunglyndis, kvíða og líkamlegra óþæginda. Munur á magni og mynstri skjátíma var á milli kynjanna. Heildarskjátími drengja var meiri og voru þeir meira í tölvuleikjum. Stúlkur voru hins vegar meira á netinu. Athygli vekur að einkenni þunglyndis, kvíða og líkamlegra óþæginda voru algengari hjá stúlkum.

Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni Soffíu M. Hrafnkelsdóttur í menntavísindum og einnig hluti af rannsóknarverkefninu Heilsuhegðun ungra Íslendinga sem unnið er að innan námsbrautar í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið. Soffía notaði gögn úr rannsókninni um heilsu og lífsstíl 248 nemenda í 10. bekk en þeim var safnað í sex grunnskólum í Reykjavík vorið 2015.
 

Soffía M. Hrafnkelsdóttir

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að fylgni er með auknum skjátíma og einkennum þunglyndis, kvíða og líkamlegra óþæginda.

Soffía M. Hrafnkelsdóttir, doktorsnemi

Soffía, sem státar m.a. af gráðum í efnafræði, lífvísindum og lýðheilsuvísindum, segir að í niðurstöðum komi einnig fram að marktæk fylgni sé á milli lítillar hreyfingar, þ.e. ákafrar hreyfingar þrisvar í viku eða sjaldnar, og einkenna þunglyndis og kvíða. „Einkenni um andlega vanlíðan voru óalgengust hjá þeim sem bæði voru minna við skjá og stunduðu oftar ákafa hreyfingu,“ bætir hún við.

Soffía segir að heilsa og líðan ungmenna sé eitt helsta rannsóknarsvið námsbrautar í íþrótta- og heilsufræði og að niðurstöður rannsóknarinnar muni nýtast á sviði forvarna og stefnumótunar í menntunar- og lýðheilsumálum. Þær voru m.a. kynntar frekar á ráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands í janúar 2017 og verða einnig kynntar erlendis í kjölfarið.

Leiðbeinendur: Sigurbjörn Árni Arngrímsson prófessor og Sigríður Lára Guðmundsdóttir dósent, bæði við Menntavísindasvið.